Sport Idol og slökkviliðsmenn

Í gær var öllum starfsmönnum VANOC smalað saman í stóran sal og haldin Sport Idol keppni, í stíl við American Idol. Þrír dómarar sátu uppi á sviði og framkvæmdarstjórar hverrar vetraríþróttagreinar fengu fjórar mínútur til þess að sannfæra liðið um að þeirra íþrótt væri best. Var þetta allt saman gert í léttum dúr og sérstaklega fór liðið sem sér um listdans á skautum á kostum. Sleðaliðið stóð sig líka vel og hokkí var nokkuð fyndið. Sumar greinar var erfiðara að kynna á skemmtilegan hátt, svo sem gönguskíði, alpagreinar, snjóbretti og skíðafimi. Frábærar greinar í snjó en nokkuð erfiðari uppi á sviði. En við skemmtum okkur konunglega og sigurvegurinn var að lokum Mark Hatton, framkvæmdastjóri luge, enda ákaflega vel máli farinn og skemmtilegur náungi. Búið var að búa til vídeó um hann þar sem hann skautaði um Stanley Park í afkliptum gallabuxum, og stundaði svo tai chi á ströndinni. Við grétum úr hlátri.

Í dag var svo annað skemmtiefni á dagskrá í lok alltof langs deildarfundar hjá okkur í Alþjóðaþjónustunni (International Client Services). Kiara, sem vinnur með mér, var svo fúl yfir því að hún fékk ekki að fara ti l Beijing, að stelpurnar sem fóru tóku með sér útklippta mynd af Kiöru og síðan voru teknar myndir af Kiöru á hinum ýmsu stöðum, svo sem að drekka bjór í flugvélinni, á Kínamúrnum, á opnunarhátíðinni, á körfuboltaleik með Kobe Bryant. Þarna var meira að segja mynd af John Furlong, CEO hjá VANOC þar sem hann hélt á mynd af Kiöru. Og svo reyndar önnur þar sem hann var búinn að henda henni í ruslið. Mjög skemmtilegt.

Góðu fréttirnar eru þær að Warren, sem er tæknimaðurinn sem ég hef ráðið til þess að sjá um tækjamálin okkur á Ólympíuleikunum, gaf mér tvo miða á Canucks leik í næstu viku. Og ekki á slæmum stað, beint fyrir aftan Canucks leikmennina, eða eins og ég sé málið, beint fyrir aftan þjálfarann. Ég veit ekki hversu mikið ég mun sjá af leiknum. Ég mun bara horfa á Vigneault.

Annars ætla ég á hokkíleik núna á föstudaginn með stelpum úr vinnunni. Að þessu sinni ætlum við reyndar ekki á Canucks leik heldur ætlum við að sjá Vancouver Giants sem spila í næstu deild fyrir neðan. Það verður ekki það sama en ætti samt að vera skemmtileg. Á eftir er hugsanlegt að við förum á útgáfuhátíð í tilefni af nýútgegnu slökkviliðsmannadagatali. Jamm, slökkviliðsmennirnir verða þarna að kynna dagatalið. Ætti ekki að vera amalegt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband