Góð og fjölbreytt helgi hjá mér

Þessi helgi var býsna fullkomin. Svona bland í poka þar sem finna mátti sitt lítið af hverju.

Föstudagur
Helgin byrjaði í raun um þrjú leytið á föstudaginn þegar við Liza og Matthew yfirgáfum Vanoc bygginguna og skruppum yfir í PNE forum þar sem búið er að útbúa sjálfboðaliðamiðstöð fyrir Ólympíuleikana. Við fengum kaffi og tertu í tilefni dagsins.

Þaðan fórum við Liza á kaffihús og svo á Toby's barinn þar sem haldinn var fyrsti pöbbadagur haustsins hjá Vanoc. Ég hugsa að það hafi verið rúmlega 100 manns á staðnum og því margir sem maður gat rabbað við. Ég þekki orðið ótrúlega marga í vinnunni, aðallega útaf fótboltanum og hafnarboltanum. Síðar um kvöldið fór ég niður í bæ með Bryn sem vinnur í samskiptadeildinni. Þar hittum við Russ, sem vinnur með honum - og sem ég þekki úr hafnarboltanum, og nokkrar konur sem einnig vinna með þeim en sem ég hafði ekki hitt áður. Við skemmtum okkur konunglega og ég kem ekki heim fyrr en um þrjúleytið. Það þykir kannski ekki mikið á Íslandi en það er langt síðan ég hef komið svona seint heim. Þar að auki voru Bryn og Russ svo mikil sjentilmenni að ég eyddi varla krónu allt kvöldið!!! Þar að auki voru þeir herramann svo fyndnir að við hlóum allt kvöld. Í eitt skiptið dansaði Russ striptease fyrir okkur Bryn sem endaði með því að Bryn tróð fimm dollara seðli niður um buxurnar hjá honum!!! Ó já.

Laugardagur
Svaf út á laugardagsmorguninn en fór svo í fótbolta. Presto var að spila sinn fimmta leik á árinu og endaði þessi með 1-1 jafntefli. Við höfum unnið einn leik, tapað einum og gert þrjú jafntefli. Þar sem við færðumst upp um deild erum við býsna sáttar við þetta. Hefðum reyndar átt að vinna því við vorum betri aðilinn.

Eftir fótboltann fór ég heim, slappaði af í heitu baði og horfði svo á einn þátt af Dark Angel en ég fékk nýlega lánaði þáttaröð númer tvö af þessum frábæru þáttum. Ég gat ekki horft á fleiri því tími var kominn til að halda í fótboltaleik númer tvö, að þessu sinni innanhússboltann. Annað jafntefli, 6-6. Við vorum tveim mörkum undir þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og náðum að jafna með frábæru marki frá Will. 

Búið var að bjóða mér í partý niðri í bæ um kvöldiðen ég var allt of þreytt og alltaf löt til að nenna því. Hvað ætli maður geti verið að dandalast fram eftir öllum nóttum komin á þennan aldur! Svo ég fékk mér bara kvöldverð með fótboltaliðinu og fór svo heim að sofa um ellefu leytið. 

Sunnudagur
Sunnudagurinn var svo af allt öðru tagi. Tim hringdi í mig um níu leytið og við spjölluðum í rúman klukkutíma. Það eru liðin fimm ár síðan við hættum saman en við erum alltaf í góðu sambandi. Ég myndi sakna samtalanna við hann ef þau hættu. Eftir símtalið fékk ég mér morgunverð, las blaðið, spjallaði við mömmu og fór svo að læra. Tók mér pásu, horfði á annan þátt af Dark Angel, lærði meira skrapp út að versla, þvoði þvott, fór á Tim Hortons og fékk mér kleinuhring, lærði enn meira. Blogga.

Eftir rúman hálftíma hefst Amazing Race, síðan eru það Eiginkonurnar (hvað kallast þær aftur á íslensku? Örvæntingarfullu? Nei, það er eitthvað annað), og að lokum Law and Order: Criminal Intent. Þannig að það er best að ég nái hálftíma af lærdómi í viðbót því svo verður bara horft á sjónvarp í kvöld. Jamm, sunnudagskvöldin eru góð hér vestra.

Niðurstaða
Þetta var dásamleg helgi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þær heita víst aðþrengdar eiginkonur

Arnar (IP-tala skráð) 9.10.2008 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband