Styttist í fyrstu stóru keppnina

Í dag gerði ég nokkuð sem almennt reynist mér erfitt - ég sleppti fótboltanum. Allir í kringum mig eru búnir að vera veikir og sumir lagst í rúmið hundlasnir. Ég er búin að vera að berjast gegn þessari pesti alla vikuna og ég veit að með því að fara vel með mig á ég að geta það. Vanalega spila ég fótbolta þótt þannig standi á. Jafnvel þótt ég viti að stundum versnar mér kvefið við það, sérstaklega þegar kalt er úti og maður andar köldu lofti ofan í lungun. Þegar ég vaknaði í morgun og sá að sólin skein fallega ákvað ég að spila. Svo ég fór í fótboltagallann og lagði af stað út á strætóstöð. Nema ég var ekki nema hálfnuð upp brekkuna þegar ég var orðin þreytt og þá sá ég greinilega að ég yrði ekki fótboltaliðinu mikil hjálp ef ég gæti ekki labbað upp smábrekku, ef brekku skyldi kalla. Svo ég sneri til baka.

En ég verð að viðurkenna að undir öðrum kringumstæðum hefði ég spilað jafnvel þótt ég væri lasin. En þetta er svolítið viðkvæmur tími í vinnunni Á mánudaginn mun ég þjálfa sex sjálfboðaliða í túlkunartækni og á miðvikuaginn munu tveir þeirra taka þátt í blaðamannafundi. Ég, og allir sjálfboðaliðarnir sex munum svo vinna við heimsbikarmótið í skautahlaupi sem hefst á föstudaginn og stendur í þrjá daga. Þetta verður í fyrsta sinn fyrir okkur öll sem við gerum eitthvað svona. Ég hef aldrei unnið við svona keppni og ég hef aldrei áður haft umsjón með sjálfboðaliðum. Og þau hafa aldrei áður túlkað á opinberum vettvangi. Og við höfum ekki hugmynd um hvers konar vandamál munu koma upp þannig að ég verð að vera frísk. Á þriðjudaginn fengum við að vita að Ottavio Cinquanta, forseti Alþjóða skautasambandsins verður viðstaddur keppnina og það kemur í hlut minn og minna sjálfboðaliða að sjá um hann. Orðsporið sem af honum fer er það að hann sé býsna erfiður umgengni, þannig að við verðum að vera tilbúin hverju sem er. Þá er líka hugsanlegt að borgarstjóri Vancouver komi á keppnina og hann er í hjólastól. Því miður er byggingin ekki upp á það besta þegar kemur að hjólastólaaðgengi. Það eru hjólastólapallar víða en enginn í VIP sætunum þannig að hann mun ekki geta setið með öðrum fyrirmennum. Þá er ekki auðvelt að komast í hjólastól í VIP setustofuna. Ég gekk þar um um daginn og við þurfum að fara með hann í gegnum herbergi sem nú er notað sem geymsla. Það þarf að færa allt út eða stafla því kyrfilega út í horn ef við eigum að geta komið hjólastól í gegn. Á Ólympíuleikunum verður þetta ekki vandamál vegna þess setustofan verður á betri stað. En sem sagt, aðalmálið er að næsta helgi verður ekki auðveld og ég þarf að halda mér heilbrigðri eins og hægt er. Þannig að fótboltinn varð að víkja fyrir vinnunni. Gallinn er að ég missi líka af fótboltanum næstu helgi út af skautakeppninni.

Lífið heldur annars áfram að vera skemmtilegt. Svo margt dásamlegt fólk sem ég hef kynnst í vinnunni. Fór út að borða með hóp fólks úr ýmsum deildum og á eftir fórum við Emma niður í bæ og hittum Russ og Bryn og vini þeirra úr samskiptadeildinni. Jason bættist í hópinn síðar. Ég elska þessa náunga. Þeir eru frábærir. Og stelpurnar sem þeir vinna með eru býsna skemmtilegar líka. Við fjögur, ég, Russ, Bryn og Jason munum spila saman í fótboltakeppni Vanoc. Fyrsti leikur á föstudaginn (já þegar ég á að vera að vinna við skautakeppnina). Jason er sannfærður um að við munum tapa öllum leikjum því að afgangurinn af liðinu sé svo lélegur! Hehe, ég sagðist sjá um það. Ég þekki dómarann og hann er einhleypur!!!!!!Devil


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skynsamleg akvordun stelpa, eg vona ad thetta hafi haft tilaetlud ahrif og ad thu verdir i horkuformi i vikunni! Eg vona audvitad ad lidid thitt hafi stortapad leiknum um helgina, thad vaeri svo gott uppa egoid fyrir thig ad vita ad thad gengur hvorki upp ne ofan hja theim an thin (er tha''kki?), hehe!

Njottu svo skautakeppninnar, flott ad thid faid svona "aefinga"keppnir "along the way"  til ad geta slipad thjonustuna hja ykkur, og atta ykkur a hvernig landid liggur. Mundu bara ad hverju sem a gengur tha er brosid thad mikilvaegasta og getur komid baedi ther og theim sem eru i kringum thig i gengum hvada krisu sem er (nema kannski e.h.krisuna heima!).

Rut (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 11:14

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þær gerðu jafntefli. Sögðust hafa verið betri aðilinn og hefðu átt að vinna. Þjálfarinn sagði víst að við hefðum unnið leikinn ef ég hefði verið þarna.

Mun reyna að njóta skautakeppninnar í tætlur.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.10.2008 kl. 14:42

3 Smámynd: Fjarki

Sæl Kristín.

Ég er að sjálfsögðu alsæll með að þér líki lögin mín, og þakka þér fyrir að segja mér frá því.

Ég er forvitinn um lífið í Kanada eins og sjálfsagt margir Íslendingar.

Eitthvað á ég af ættingjum á Vestur-Íslendingaslóðum en hef ekki ennþá haft mig í að grafa það allt saman upp.

En bestu kveðjur héðan af hálf-freðnum klakanum:)

Finnur Bjarki.

Fjarki , 22.10.2008 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband