Heimsbikarmót í skautahlaupi
3.11.2008 | 06:30
Um síðustu helgi var haldin heimsbikarkeppni í skautahlaupi, stuttum vegalengdum, hér í Vancouver. Ég var á staðnum með hóp sex túlka sem allir voru að þreyta frumraun sína á þessum vettvangi. Mingson og Michael tala mandarín kínversku, Jenny og Sun kóresku, Yuna talar japönsku og Alexandra talar rússnesku.
Föstudagurinn var rólegur hjá okkur enda fór eingöngu fram riðlakeppni þann dag. Ég var einu sinni beðin um að senda kóreskumælandi manneskju til þess að fullvissa sig um að stór borði sem hengdur var upp segði ekkert móðgandi. Það var allt og sumt. Okkar hlutverk var einnig að sjá um VIP sætin og að meðaltali sat einn í þeim sætum allan föstudaginn.
Fyrri hluti laugardags var svipaður en um leið og lokaumferðir hófust fór allt á fullt hjá okkur. Fólkið mitt sem talar kínversku og kóresku var meira og minna á hlaupum um leið og úrslitakeppnirnar hófust enda eru Kóreumenn og Kínverjar langbestir í þessari íþróttagrein og tóku iðulega fyrstu þrjú sætin. Og því reyndi á mitt fólk.
Við stóðum við enda íssins þar sem skautafólkið kom út af eftir keppni og þá þurfti að segja þeim frá því hvað gerðist næst. Verðlaunaafhendingar fóru fram jafnóðum og því varð liðið að taka strax af sér skautana og halda beint að verðlaunapöllunum. Allir vildu hins vegar fyrst fara í búningsherbergin, losa sig við skautana, fá sér eitthvað að borða, fara í utanyfirföt, o.s.frv. Mitt fólk varð að reyna að koma í veg fyrir að það gerðist.
Síðan þurfti að aðstoða við verðlaunaafhendinguna og svo var farið beint í lyfjapróf sem tók sinn tíma.
Einu sinni kom það fyrir að önnur Kóreukonanvar með íþróttamanni við verðlaunaafhendingu, hin var að hjálpa til við lyfjapróf, annar íþróttamaður var að koma af svellinu í verðlaunasæti og blaðamaður vildi fá viðtal við kóreskan íþróttamann. Ég þurfti fjóra Kóreumenn en hafði bara tvo.
Á meðan var ekkert að gera fyrir Japanann minn og Rússann, nema að fylgjast með VIP genginu sem hegðaði sér ákaflega vel.
Sunnudagurinn var endurtekning á laugardeginum með álíka hlaupum Kóreukvennanna og mandarínkarlanna. Nema hvað nú fékk Japaninn minn hlutverk. Hún fékk að segja sigurglöðu japanska liðinu í boðhlaupi að þeir hefðu verið dæmdir úr keppni. Greyin, þeir sem voru svo ánægðir með þriðja sætið sitt.
Gallinn var sá að Japaninn minn átti alls ekki að hafa þetta hlutverk og þetta er eitt af því sem ég mun þurfa að taka upp á fundi á morgun þegar farið verður yfir hvað fór vel og hvað hefði betur mátt fara. Sjálfboðaliðarnir mínir eru nefnilega túlkar sem eiga að túlka það sem A segir við B og öfugt. Einhver frá íþróttadeildinni hefði því átt að segja Japönunum að þeir væru úr leik og Japaninn minn hefði svo túlkað. Í staðin var hún bara send með fréttirnar. Ef liðið hefði viljað vita af hverju þeir voru úr leik hefði mín manneskja þurft að fara og finna einhvern til að útskýra þetta. En þetta er jú eitt af því sem allir þurfa að læra - hvað það er nákvæmlega hvað við gerum.
Í heild sína gekk keppnin alveg frábærlega, minn hópur var magnaður og stóð sig æðislega vel og við fengum endalaus hrós frá þeim deildum sem þurftu á aðstoð okkar að halda: íþróttadeild, lyfjaprófunardeild, fjölmiðladeild...
Næst er það listdans á skautum í febrúar. Því miður fæ ég ekki að stýra okkar liði þar. Kiara þarf að fá sína reynslu líka. Það góða er alla vega að ég er búin að berjast fyrir okkar hönd fyrir nokkrum málefnum þannig að hún þarf ekki að gera það. Hún er ánægð með það.
Athugasemdir
hefuru staldrað við og hugsað út í það hversu fjölbreytt og áhugavert líf þitt er allt í einu orðið (ekki það að það var það ekki áður sko en...) og allt þessari vinnu að þakka og að sálfsögðu þér að hafa þessa hæfileika og mentun og hafa íslenskt bein í nefinu til að sækja um starfið :)
fór bara að hugsa um um hvað ég væri að lesa og hvað þú værir að gera núna ef það væri ekki fyrir þetta spennandi starf!
Gott að sjá að einhver íslendingur er að gera okkur stolt ... svona á þessum síðustu og verstu :)
Hrabba (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 23:49
Já. Það er alveg rétt. Það er margt skemmtilegt að gerast hjá mér og ég hef tækifæri til þess að prófa ýmislegt. Hitt er annað mál að ef ég hefði ekki farið að vinna fyrir Ólympíuleikana þá væri ég hugsanlega við það að útskrifast með doktorpróf! Það er ekki á allt kosið. Ég klára prófið síðar.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.11.2008 kl. 05:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.