Drulluhali undir stýri

Sumt fólk er svo tillitslaust (eða illgjarnt) að maður skilur ekki hvað gengur á. Núna í kvöld stóð ég ásamt um tuttugu öðrum á horni Broadway og Commercial Drive og beið eftir strætó. Búið var að rigna í nokkra klukkutíma og pollar miklir á götum. Kemur ekki drulluhali undir stýri og keyrir á fullu framhjá stoppistöðinni, ofan í poll og eys svoleiðis bleytunni yfir viðstadda að við vorum holdvot.

Það tekur mig um hálftíma heim í strætó og ég var farin að skjálfa af kulda þegar ég loksins komst inn, gat farið úr blautu fötunum og klædd mig í flís. Og ég sem er enn að berjast við kvef sem langar ógurlega að yfirtaka mig. Ég hef hins vegar engan tíma fyrir kvef svo ég berst á móti. Ég ætla mér EKKI að verða veik, bara svo þið vitið það. Það verður mikið að gera í vinnunni í næstu viku svo ég verð að hafa fulla krafta. Hmmm. Mér finnst ég hafa skrifað þetta áður.

Á morgun verður þeytidagur. Það er, ég mun þeytast á milli staða. Spila fótbolta klukkan eitt, fer á hokkíleik klukkan fjögur og spila annan fótboltaleik klukkan átta. Mun líklega fá lánaða vespuna hennar Emmu svo ég geti komist á milli staða á réttum tíma.

Hokkíleikurinn verður spennandi því við munum spila á móti Toronto. Höfum ekki spilað við þá í tvö ár en mér skilst að keppnir milli þessa tveggja liða séu alltaf æsispennandi. Fer með Mark. Sé hann alltof sjaldan eftir að ég byrjaði að vinna. Hans vinna er líka brjálaðri en hún var í sumar svo hann kemur oft ekki heim fyrr en seint á kvöldin. En það er svo sem allt í lagi. Góðir vinir eru vinir þótt þeir sjáist ekki alltaf. Við ættum að skemmta okkur vel á leiknum.

Jæja, ætla að horfa á þátt af Medium sem ég tók upp í kvöld á meðan ég var á pöbbakvöldi VANOC. Þar var skemmtilegt og þetta var svona breski stíllinn á þessu. Allir fóru beint á pöbbinn strax eftir vinnu svo maður var kominn heim á skikkanlegum tíma. En sem sagt, ætla að horfa á Medium og fara svo að sofa. Góða nótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Ég hélt að þú værir að kommentera á forsætisráðherra eða seðlabankastjóra. Svona getur maður orðið gegnsýrður (eða holdvotur?) af pólitík.

Jóhann G. Frímann, 15.11.2008 kl. 10:11

2 identicon

Sendi þér þurrar og hlýjar kveðjur frá Akureyri!!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband