Bobsleðaliðið frá Jamaica og ýmislegt annað
17.11.2008 | 07:52
Hlynslaufin falla til jarðar
Það er fátt sem hokkíáhugamönnum í Vancouver finnst eins skemmtilegt og að vinna Toronto Maple Leafs. Í gær fékk ég að upplifa þá tilfinningu ásamt þúsundum samborgara minna. Ég fór á leik Canucks og Maple Leafs með Mark. Uppselt var á leikinn svo við urðum að kaupa miða af konu sem á ársmiða og auðvitað þurftum við að borga meira fyrir miðana en hún borgaði upphaflega. En við borguðum örugglega töluvert minna en ef við hefðum keypt miðana af skölpurum.
Leikurinn var æðislegur. Ég hef aldrei upplifað aðra eins stemningu í höllinni. Liðið byrjaði að öskra og hrópa frammi á gangi, löngu áður en komið var í sætin. Ýmist var kallað 'Go Canucks Go' eða 'Leafs suck!'. Um þriðjungur var í Maple Leafs treyjum. Það er greinilegt að margir frá Toronto hafa flust á vesturströndina. Mark var hálfpirraður yfir fjölda stuðningsmanna Maple Leafs en ég benti á að það gerði sigurinn bar sætari. Og það gekk eftir. Við unnum leikinn 4-2 og fyrsta markið skoraði Kyle Wellwood sem við fengum í sumar frá Toronto. Þeir töldu hann ekki nógu góðan en hann er nú markahæsti leikmaður Canucks.
Við sitjum nú í fjórða sæti deildarinnar eftir slaka byrjun og er það mun betra en flestir þorðu að vona.
Fótbolti enn og aftur
Ég spilaði sjálf tvo fótboltaleiki í gær. Fyrri leikinn, með Presto, unnum við 2-1. Ég og Melissa skoruðum mörkin. Ég skoraði reyndar tvö mörk; það fyrr með skalla eftir hornspyrnu en dómarinn var svo illa staðsettur að hann sá ekki boltann fara inn og dæmdi því ekki mark. Sjálf sá ég ekki hvort boltinn fór inn en nokkrar stelpur sem stóðu nær sögðu að það hefði ekki verið spurning. En það er ekkert hægt að gera ef dómari sér ekki markið. Við unnum samt. Síðari leikurinn tapaðist. Einhverra hluta vegna gengur okkur ekki nógu vel innanhúss þessa dagana. Ég veit ekki af hverju.
Afslöppun
Dagurinn í dag (sunnudagur) var afslöppunardagur. Ég svaf fram til 11 og tók svo deginum rólega. Það eina sem ég gerði fyrir utan afslöppun var að þvo þvott og ryksuga. Hvort tveggja var nauðsynlegt. En mikið er gott að fá af og til svona daga þar sem maður lætur sér bara líða vel.Dja
Bobsleðaliðið frá Jamaica til Pemberton
Muniði eftir bobsleðaliðinu frá Jamaica sem skellti sér á Ólympíuleikana í Calgary þrátt fyrir mörg ljón á veginum? Disney gerði mynd um liðið sem var alveg stórskemmtileg. Þeir kepptu ekki á leikunum 2006 en nú hafa þeir sett markið á Ólympíuleikana 2010 og munu að öllum líkindum flytja til Pemberton fyrir norðan Whistler svo þeir geti æft reglulega í nýju sleðabrautinn í Whistler. Fólk í Pemberton hefur boðist til að útvega frítt húsnæði og ferðir. Kannski er annað ævintýri í uppsiglingu hjá bobsleðastrákunum frá Jamaica.
P.S. Finnst ykkur myndin ekki flott? Pökkurinn á leið í netið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.