Góður matur en vond þjónusta
23.11.2008 | 02:00
Það er alveg ótrúlegt hversu margir fá vinnu sem þjónar hér í borg án þess að hafa nokkra hæfileika til starfsins. Á síðustu tveim dögum hef ég farið þrisvar sinnum út að borða (já, ég legg ekki af þessa dagana) og ég myndi dæma þjónana þannig að einn var mjög góður og tveir voru ömurlegir. Leyfið mér að útskýra:
DÆMI 1: GÓÐ ÞJÓNUSTA
Í hádeginu á fimmtudaginn fór ég á hinn fína veitingastað 'Italian Kitchen' ásamt Maureen og Kiöru sem vinna með mér. Ég ætlaði að fá mér risotto en risotto dagsins var sjávarréttarisotto og ég er með ofnæmi fyrir sjávarréttum. Ég lét í ljós vonbrigði með þetta en þjónninn bjargaði málum með því að bjóða mér upp á svepparisotto í stað, sem ekki var á matseðlinum. Síðar ákváðum við þrjár að deila með okkur eftirrétti því engin okkar hafði pláss fyrir heilan rétt. Mig langaði í súkkulaðirétt en ekki Maureen og Kiöru. Svo við ákváðum að fá okkur jarðaberjarétt og þegar þjónninn kom bað ég hann upp að bæta við smá súkkulaðisósu eða súkkulaði með. Þegar rétturinn kom var súkkulaðistöng þvert á jarðaberjakökunni og ég var hamingjusöm.
DÆMI 2: VOND ÞJÓNUSTA NÚMER 1
Á fimmtudagskvöldið fór ég niður í bæ eftir fótboltaleikinn minn og hitti nokkrar stelpur úr vinnunni á nýja Cactus Club á Burrard stræti. Stelpan sem þjónustaði okkur var hræðileg. Í fyrsta lagi þá hvarf hún reglulega og á meðan fékkst engin þjónusta. Það var ekki að hún væri bara upptekin á öðru borði því þegar við báðum annan þjón að finna hana gekk það ekki. Hún ruglaði pöntunum, hún setti matinn minn á reikninginn hennar Rowenu, og svo framvegis. Í eitt skiptið kom hún að borðinu okkar og spurði hvernig maturinn væri. Liza var í miðri setningu að svara henni þegar hún gekk í burtu. Ég kom aðeins á eftir hinum og hún færði mér aldrei matseðil. Þegar hún spurði hvað ég vildi borða benti ég á að ég væri ekki enn búin að sjá matseðilinn, svo hún færði mér eintak. Tveim mínútum síðar kom hún aftur og vildi fá að vita hvað ég ætlaði að panta. Ég benti á að ég væri ekki einu sinni búin að lesa nema hluta matseðilsins. Almennt séð, ömurleg þjónusta. Yfirmaður hennar varð að koma og leiðrétta sum mistökin.
DÆMI 3: VOND ÞJÓNUSTA NÚMER 2
Við vorum um 20 sem fórum saman út að borða á stað sem heitir Sanafir og býður upp á austurlenska rétti (frá Tyrklandi og nágrenni). Í stað þess að hver fengi sinn eigin reikning vorum við átta í kringum mig sem fengum sama reikninginn. Þegar engan veginn gekk að fá dæmið til að ganga upp urðum við að endurreikna allt og fara vel í gegnum hvað hver fékk. Þá kom í ljós að þrjár pantanir á reikningnum okkar voru frá öðru borði. Þá skráði þjóninn að Liza hefði borgað 30 dollara en hún borgaði í raun 36 dollara. Þarna voru fleiri mistök því eftir þetta allt voru enn sjö dollarar á reikningnum sem enginn átti að borga. VIð greiddum það bara og fórum. Fyrir utan þetta þá gerði þjónninn eftirfarandi mistök:
a) allir fengu matinn sinn á sama tíma á mínu borði nema ég. Eftir að aðrir á mínu borði fengu matinn sinn komu þeir með matinn á næsta borð áður en ég fékk minn. Og samt voru allir með það sama því við höfðum takmarkað val.
b) Ég fékk kaffið mitt löngu á eftir eftirréttinum.
c) Liza fékk aldrei vatnið sem hún bað um og teið sem hún bað um með eftirréttinum kom löngu eftir að hún gafst upp á að bíða og borðaði eftirréttinn.
d) Deb ætlaði að panta kaffi þegar ég loks fékk mitt en þjóninn sneri strax baki í okkur eftir að hann kom með kaffið og sneri ekki við þótt við kölluðum á hann.
Sem sagt, góður matur á öllum þessum stöðum en þjónustan slæm í 2/3 tilfella.
En mikið er nú samt alltaf skemmtilegt að fara út að borða!!!!!
Athugasemdir
Hæ, fínt að fá svona blogg um vandræði venjulegs fólks úti í heimi. Gangi þér betur næst !
Matti
Ár & síð, 23.11.2008 kl. 14:08
Eg var bara svona ad spa...er betra ad fa godan mat en vonda thjonustu, eda vondan mat en goda thjonustu? Hvort heldur sem er, tha er i badum tilfellum liklega best ad hafa farid ut ad borda i godum felagsskap til ad maturinn og thjonustan verdi aukaatridi sem faer hopinn bara til ad hlaegja! Kvedjur til kanodunnar
Rut (IP-tala skráð) 23.11.2008 kl. 20:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.