Hokkíblogg

Hér kemur eitt af þessum hokkíbloggum sem eru bara fyrir mig sjálfa og örfáa íslenska hokkíáhugamenn eins og Bjarna og Auði og kannski einn eða tvo aðra sem slæðast hér inn. Þið sem hafið engan áhuga á hokkí getið sparað geðheilsu ykkur og hætt að lesa, en þið hin sem eruð skrítin eins og ég viljið kannski lesa áfram.

Í gærkvöldi fór ég á fjórða leikinn minn á árinu og þetta var enginn smáleikur því Vancouver Canucks tóku á móti besta liði deildarinnar, og líklega besta liði í heimi, Detroit Red Wings.

Rauðu vængirnir frá bílaborginni Detroit eru núverandi Stanleymeistarar og vel að því komnir. Það er varla veikur hlekkur í þessu liði, nema ef vera skyldi markmaðurinn Osgood. Vörnin er firnasterk með fimmfaldan Norrismeistara og fyrirliða liðsins í fararbroddi, Nicklas Lidström. Lidström sem er sænskur eins og nafnið bendir til, er besti leikmaður NHL deildarinnar og hefur verið í nokkurn tíma. Lidström verður án efa fyrirliði sænska landsliðsins á Ólympíuleikunum 2010. Sóknarmennirnir eru heldur ekki til að kvarta undan. Svíarnir Henrik Zetterberg og Johann Frazen, Rússinn Datsyk og Slóvakinn Hossa. Þeir sitja nú í öðru sæti vesturriðilsins, þremur stigum á eftir San Jose en eiga leik til góða. Vancouver situr í þriðja sæti, fimm stigum á eftir San Jose en hafa spilað leik meira.

En nú að leiknum. Ég fékk miða á góðu verði og ákvað að skella mér. Ég fór ein því ódýrustu miðarnir eru alltaf stakir miðar. Þar að auki var Mark að vinna og komst ekki með og Emma hafði ekki efni á að kaupa miða því ódýrustu miðarnir eru samt ekki ódýrir. Ég fór beint úr vinnunni og horfði á liðin hita upp fyrir leikinn. Þetta er eina skiptið sem ég hef horft meira á aðkomuliðið en heimaliðið. Það er bara hægt annað en að dást að Detroit. Og sérstaklega Lidström. Ég er pínulítið skotin í honum sem er svolítið fyndið þar sem ég er ekki skotin í neinum minna leikmanna (bara þjálfaranum þeirra). En í alvöru, Lidström er ekki aðeins stór og fallegur Svíi - hann er besti hokkíleikmaður í heimi. Já, betri en Luongo, Ovechkin, Malkin og Iginla, sem þó eru allir stórkostlegir. Hinir þrír síðarnefndu fá meiri athygli því þeir eru sóknarmenn og skora mörg mörk - varnarmenn fá oftast minni athygli. 

Leikurinn byrjaði rólega miðað við leikinn gegn Pittsburgh fyrir nokkrum dögum þar sem slagsmál hófust mínútum eftir að pökkurinn féll. Detroit er ekki mikið slagsmálalið. Þeir nota tækni og hæfileika til að komast áfram. Og þeir byrjuðu miklu betur en við - skutu pökknum tvöfalt oftar að marki. Reyndar er ekki alveg að marka þær tölur - Detroit skýtur að marki hvaðan sem þeir eru og vona að pökkurinn fari inn - Vancouver bíður vanalega eftir betri tækifærum. 

Rúmum níu mínútum eftir að leikur hófst opnaði Samuelson markareikninginn með stoðsendingum frá tveim öðrum Svíum, Zetterberg og Lilja. Sænska konan fyrir aftan mig komst ekki hjá því að benda á þetta þótt hún væri þarna til að styðja Vancouver. Vancouver þurfti eitthvað til þess að komast af stað og það var Darcy Hordichuck sem sá um það með því að slást við McCarty og berja hann niður á svellið. Við þetta vaknaði Vancouverliðið og tveim mínútum inní síðari hálfleik jafnaði Pyatt metin fyrir Vancouver. Eftir þetta börðust bæði lið nokkuð heiðarlega og fáir voru sendir í brotaboxið þótt nokkrir hefðu átt skilið að fara þangað. Gott fyrir okkur því Detroit er besta lið í heimi þegar þeir eru manni fleiri. Þeir skora úr þriðjungi allra tækifæra sem þeir fá í þeirri stöðu. Gegn Vancouver hafa þeir staðið sig enn betur og skora úr fimmtíu prósentum allra tækifæra. Og þannig rufu þeir líka jafnteflið í þessum leik. Burrows sem hafði ekki staðið sig eins vel og vanalega var sendur í boxið fyrir klaufalegan krók (hook). Pavol Datsyk notaði tækifærið og skoraði með stoðsendingum frá Kronvall og Samuelson. Aðeins rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og fjöldi manns yfirgaf bygginguna. Ég varð að viðurkenna að ég taldi líka að þetta væri búið. Detroit færi ekki að gefa eftir unninn leik þegar svo lítið var eftir. En Daniel Sedin var ekki á því máli. Þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum skellti Sami Salo pökknum að marki og Daniel náði að breyta stefnunni framhjá Osgood og í mark. Allt varð brjálað í höllinni. Ég öskraði svo að mig verkjaði í raddböndin. Þetta var æðislegt og annað stigið svo gott sem í höfn. Og eftir heilmikinn barning á miðjunni rann leikurinn út og framlenging varð að veruleika. Og strákarnir mínir eru góðir í framlengingu. Þar spila fjórir gegn fjórum og það virðist virka vel fyrir Vancouver. Við töpum næstum aldrei í framlengingu. Hitt er annað mál að ef enginn nær að skora í framlengingu er farið í vítakeppni og þar stöndum við okkur ekki vel. 

En vítakeppni reyndist ekki nauðsynleg því Vancouver réð lofum og lögum í framlengingunni. Sedin bræðurnir og Demetra, hin nýskapaða PHD lína Vancouver, var mögnuð og þeir sendu pökkinn fagmannlega á milli sín án þess að Detroit næði að koma nokkrum vörnum við. Eftir sendingu frá Daniel sendi Demetra pökkinn til Salo sem tók slapshot (hef ekki hugmynd um hvað það kallast á íslensku) og pökkurinn söng í marki Detroit. Osgood átti ekki séns. Og hafi allt orðið vitlaust við jöfnunarmarkið þá lyftist þakið við þetta fallega sigurmark frá Finnanum magnaða. Ég hef ekki einu sinni séð liðið sjálft fagna eins innilega. Enda ekki amalegt að sigra Detroit tvisvar í þrem leikjum. 

Og það sem er magnaðast við þetta allt saman er það að Vancouver vann þennan leik án besta markmanns í heimi. Roberto Luongo meiddist í leiknum gegn Pittsburgh um helgina og gat ekki leikið með. Enginn veit hversu lengi hann situr í blaðamannaboxinu þar sem meiddir leikmenn halda sig á leikjum. Og af hverju tel ég ástæðu að nefna þetta? Vegna þess að fjöldi manns heldur því fram að Luongo sé eina ástæða þess að Vancouver hefur gengið svo vel í vetur - að aðrir í liðinu geti ekkert. En maður vinnur ekki Detroit nema maður hafi þokkalegt lið. Okkur vantar reyndar einn markaskorara í viðbót til þess að eiga þokkalega möguleika á að tryggja okkur sæti í úrslitakeppninni, hvað þá að komast fram hjá fyrstu umferð. Ég er enn að vona að Sundin komi til okkar en hann er ekki enn búinn að ákveða hvar hann mun spila í vetur eða hvort hann spila. En í gær heyrði ég að mögulegt væri að við munum fá Kovalchuk sem nú spilar með Atlanta. Kovalchuck er einn af bestu sóknarmönnum deildarinnar og er líklega jafngóður og Ovechkin og Malkin. Atlanta er með ömurlegt lið og honum líður illa þar. Hann vill í burtu. Hey, ég slæ ekki hendinni á móti Kovalchuck!!!

Af liðum Bjarna og Auðar er ekki margt gott að segja eins og er.

Edmonton virtist lofa góðu enda hafa þeir marga frábæra leikmenn í liðinu. Og það sem er best er að þeir eru allir ungir og verða betri og betri með hverju árinu. Þeir eiga bjarta framtíð fyrir sér. En eftir frábæra byrjun hafa þeir hægt á sér og sitja nú í ellefta sæti i vesturriðlinum (af 15 liðum) - þremur sætum fyrir utan úrslitasæti. Vonandi eiga þeir eftir að ná sér á strik.

Ottawa hefur frábæra sóknarmenn (Spezza, Heatley, Alfredson) en aðalvandamálið er markvarslan. Eftir að þeir losnuðu við Ray Emery í fyrra fengu þeir fyrrum varamarkmörð Vancouver, Alex Auld, sem hefur staðið sig þokkalega en er samt langt frá því að vera toppklassa markvörður. Mark vill að við sendum Ottawa Cory Schneider sem er markvörður Manitoba Moose, bestur í AHL deildinni og verðandi toppklassamarkvörður í NHL deildinni. Ef við sendum líka góðan varnarmann ættum við að geta fengið Dany Heatley í staðinn. Eins og er virðist ekki nóg fyrir Ottawa að hafa þrjá góða sóknarmenn því allt annað er í köku. Svona skipting gæti hentað báðum liðum vel. Ottawa situr eins og er í 13 sæti austurdeildarinnar, þriðja neðsta sæti.

Ég vona að bæði þessi lið eigi eftir að standa sig vel því ég styð alltaf kanadísku liðin gegn þeim bandarísku. 

Hin þrjú kanadísku liðin eru á þokkalegu róli: Calgary er í sjöunda sæti vesturriðils, Montreal er í fimmta sæti austurdeildar og Toronto er í ellefta sæti austurdeildar. Hey, við erum besta kanadíska liðið í deildinni eins og er...frábært!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekkert smá hokkíblogg - og ég las það allt og það var bara eins og maður væri mættur í höllina. Til hamingju með þína menn. Ég hef ekkert kíkt á stöðuna í deildinni nýlega því mínir menn voru svo mikið í ruglinu fyrr í haust. En úff, erum við í þriðja neðsta sæti??

Segju halló við Kanada frá mér, ég sakna þess.

Auður (IP-tala skráð) 26.11.2008 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband