New York
17.12.2008 | 00:10
Jæja jæja. Þá er ég komin á frón og á móti mér tók kuldi og vindur. Betra í dag.
Áður en ég segi ykkur frá heimkomunni ætla ég hins vegar að minnast nokkrum orðum á dagsdvöl mína í New York.
Ég flaug frá Vancouver klukkan tíu á laugardagskvöld og var komin til New York klukkan sex að staðartíma. Nei, þetta er ekki átta tíma flug - New York er þremur tímum á undan Vancouver. Ég setti töskuna mína í geymslu og tók lestina inn í Manhattan. Ég hafði engin plön nema þau að ég vildi byrja á að fara að Rockerfeller byggingunni og sjá stóra jólatréð þeirra. Tréið á Austurvelli er nú ekki stórt í samanburði. Þaðan lá leiðin upp í Central Park en eftir langa göngu þar var ég orðin svöng og fann mér stað þar sem hægt var að fá egg og beikon. Á stóru skilti stóð að þetta væri vinsælasti og besti morgunverðarstaðurinn. Hann var svo sannarlega vinsæll því það var alltaf löng röð að fá sæti - en góður var maturinn ekki. Eggin voru reyndar ágæt en beikonið var ekki nógu stökkt, ristaða brauðið var ekki nógu ristað og var heldur ekki smurt strax þannig að smjörið lak ekki inn í brauðið og kartöflurnar voru ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ein soðin kartafla sem var krydduð, skorin í bita og sett á pönnu í mesta lagi mínútu. Kunna þeir ekki að gera almennilegt hashbrown?
Eftir matinn var ég södd en ekki eins ánægð og ég hefði getað verið. En ég var í New York og engin ástæða til að láta slíkt trufla sig. Veðrið var fallegt, svolítið kalt en sólskin, svo ég lagði af stað niður fimmta stræti og alla leið niður að flatjárnahúsinu sem maður sér svo oft í bíómyndum. Þaðan hélt ég á Times Square og dundaði mér þar um stund. Settist niður og fékk mér piparmyntukakó og hélt svo göngunni áfram. Kom fyrir algjöra tilviljun að litlum garði með skautasvelli og sölubásum og labbaði þar um stund, fór svo aftur upp að Rockerfeller enda var farið að dimma og mig langaði að sjá tréið í myrkrinu. Þar var allt pakkað af fólki og ég varð að troða mér framhjá. Gat lítið stoppað því ég þurfti að fara aftur út á völl og fljúga heim.
Góður dagur í New York.
Athugasemdir
Velkomin heim
Sigrún Jónsdóttir, 17.12.2008 kl. 01:19
Velkomin á landið :-)
Einar Indriðason, 17.12.2008 kl. 08:31
Thu hefur aldeilis notad timann vel i NY. Naes ad fa sma storborgar-jolafiling i kaupbaeti i heimferdinni!
Rut (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 13:23
Takk kærlega fyrir kveðjurnar. Og Rut, já, það var fínt að fá smá stórborgarfíling á leiðinni heim. Það setti líka labbið niður Laugarveginn í gær í skemmtilegt ljós. Aðeins færri þar.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.12.2008 kl. 15:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.