KOMIN HEIM

Já ég er komin heim - eða svo til. Ég er í Reykjavík og hef verið síðan á mánudagsmorguninn. Held norður í kvöld. Hér koma nokkrir punktar

  • Á matartorginu í Kringlunni er hægt að fá ítalskan mat, kínverskan mat, bandarískan mat, miðjarðneskan mat ofl. en það er ekki hægt að kaupa sér venjulega íslenska pylsu með öllu. Til þess þarf maður að fara niður á fyrstu hæð og fara svo með pylsuna upp tvær hæðir til að geta setið niður og notið þess að borða.
  • Íslendingar eru ekki enn búnir að læra að í rúllustiga stendur maður hægra megin og labbar vinstra megin.
  • Mix er alltaf jafn gott en þó ekki eins gott eins og ískalt íslenskt vatn beint úr krananum. Besti drykkur í heimi.
  • Þegar ég reyndi að labba yfir Borgartúnið í gær stoppaði bíll númer tvö fyrir mér til að hleypa mér yfir. Ég fékk næstum hjartaáfall. Er ekki vön fyrir að fólk í Reykjavík stoppi bílana sína til þess að hleypa gangandi vegfarendum yfir götuna. Annað hvort eru Reykvíkingar að slaka aðeins á stressinu eða þá þetta var útlendingur.
  • Á flugvellinum keypti ég mér samloku. Gat ekki valið á milli langloku með skinku og pítusósu eða samloku með hangikjöti og salati. Elska báðar gerðir. Keypti mér því báðar og borðaði aðra í morgunverð og hina í hádegisverði.
  • Er líka búin að borða poka af paprikustjörnu (deildi þó með öðrum), draum (deildi líka með öðrum), lindubuff, kaffisúkkulaði (deildi með öðrum), bananastykki og bingó. Já, hellingur af sælgæti ein dreifist á tvo daga og helmingurinn var kannski bara tveir bitar eða þrír þannig að þetta er ekki eins mikið nammi og listinn bendir til. En ég fæ þetta aldrei annars staðar.
  • Keypti mér skó í Bossanova í Kringlunni og þegar ég borgaði með kanadísku vísakorti spurði afgreiðslukonan mig hvort ég vildi taxfría nótu. Frábært hjá henni. Kanadísk vinkona mín var hér fyrir tveim árum og hún var búin að vera á landinu í nokkra daga þegar einhver bauð henni taxfría nótu (hún ferðast aldrei þannig að hún vissi ekki af þessu). Og samt talar hún bara ensku.
  • Sá æðislega græna takkaskó í Kringlunni sem mig langar í. Þeir eru hálfpartinn úr plasti þannig að þeir myndu koma sér vel í rigningunni í Kanada.
  • Náði að koma heim nógu snemma til að hlusta á allan hasarinn með Reyni Trausta og Jón Bjarka. Tók mig svolítinn tíma að skilja málið samt. Undarlegt allt saman.
  • Hef tekið eftir ótrúlegum fjölda útlendinga á landinu. Var búin að heyra af því en gerði mér ekki grein fyrir áhrifunum. Flestir virðast vera að reyna að passa inn. Þó nokkuð margir eru að læra íslensku (tveir af þremur afgreiðslumönnum sem ég talaði við) og margir voru með húfur með íslenska fánanum. Flott hjá þeim. Mín skoðun er alltaf sú að þegar maður flytji til annars lands eigi maður að reyna að falla inn í samfélagið eins vel og hægt er en halda samt í eigin menningu á sama tíma, svo framarlega sem menningarheimarnir tveir rekist ekki á.
  • Þegar ég gekk niður Laugarveginn í gær mætti ég fyrst Björk, á eftir henni gengu hjónin sem voru í fréttum um daginn sem fyrsta heimilislausa fólkið sem fékk inni í smáhýsi á Granda, rétt á eftir þeim var Jón Bjarki blaðamaður. Aðeins neðar mætti ég Magnúsi Þór Hafsteinssyni alþingismanni, síðan á Skólavörðustígnum Arnari Jónssyni leikara, og síðan neðst á Laugarveginum Agli Helgasyni. Ókey, Reykjavík er lítil borg, en að hún sé svona lítil?????? Við þetta má bæta að ég sá engan sem ég vissi hver var þegar ég gekk aftur upp Laugarveginn.
  • Það besta við dvölin í Reykjavík er það að ná að eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Geiri bróðir býr í borginni og ég gisti hjá honum og Ernu konu hans og strákunum Árna, Einari og Arnari. Ég er líka búin að hitta Siggu og Johönnu dóttur hennar og svo Guðrúnu Helgu og Friðrik. Gallinn er að það er svo langt síðan við hittumst að maður er rétt að hita sig upp þegar ég þarf að fara.
  • Á Akureyri er hinn hluti fjölskyldunnar svo og mamma og pabbi. Kem þangað um kvöldmatarleytið.
  • Getraun dagsins er þessi: Hvað eldar mamma handa mér í kvöld? Ég myndi segja að möguleikarnir séu aðeins þrír og má lesa um þá á eldri færslu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Velkomin heim.    Mjög gaman að lesa þetta hjá þér.   

Gleðileg jól    :)    

ps.  vantar svona jólaicon hér. :)   

Marinó Már Marinósson, 17.12.2008 kl. 15:59

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk kærlega Marinó minn. Og gleðileg jól til baka. Set inn áramótaicon fyrst hitt vantar.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.12.2008 kl. 16:10

3 Smámynd: Rabbabara

Svar við getraun 

Saltkjöt og baunir 

Ég gef mér lifrarpylsu í verðlaun  fyrir rétt svar

Rabbabara, 17.12.2008 kl. 16:43

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Til hamingju Rabbabara. Þú gast rétt - það voru saltkjöt og baunir. Mmmm. Frábær matur! Þú ert vel að lifrapylsunni komin.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.12.2008 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband