Uppskurður á Græna hattinum

Fyrir nokkrum dögum varð ég vitni að uppskurði. Þessi fór ekki fram á sjúkrahúsinu heldur á Græna hattinum á Akureyri. Ég hafði aldrei verið við uppskurð áður, nema þegar eigin hálskirtlar voru teknir fyrir langa löngu svo þetta var svolítið spennandi. Kannski líka vegna þess að læknirinn sá ekki um uppskurðinn heldur var hann sjúklingurinn. Uppskurðinn framdi Baldur Brjánsson töframaður.

Baldur er náttúrulega án efa frægasti töframaður Íslands og sá eini sem ég kann nafn á (var Skari skrípó ekki annars meira svona djók?) þannig að það var spennandi að sjá hann að verki. Þetta var annars heil dagskrá þarna á Græna hattinum því boðið var upp á upplestur auk töfrabragða.

Fyrstur steig á svið Gunnar frændi minn Sigurjónsson sem sýndi mjög skemmtilegt töfrabragð. Hann fékk mann og konu upp á svið, lét þau takast í hendur en aðskildi þau svo. Lét síðan konuna loka augunum, snerti manninn, og spurði konuna hvort hún hefði fundið snertingu. Jújú, í hvert skiptið hafði hún fundið snertingu á nákvæmlega sama stað og hann snerti manninn. Alveg ótrúlegt.

Næstur kom fram sveitungi pabba, sem ég man nú ekki hvað hét, og las upp sonnettur eftir sjálfan sig. Mér fannst hann býsna góður og var sérlega hrifin af rjúpnasonnettunni hans. Gallinn við upplestur á sonnettum er samt sá að maður verður pínulítið þreyttur á að hlusta lengi á sama ljóðformið. Alltaf sama hrynjandin!

Svo tók við Hjálmar Freysteinsson læknir sem las upp úr limrubók sinni og var hann þrælfyndinn. Það má reyndar segja með limrurnar það sama og sonnetturnar, að maður verður svolítið þreyttur á sama ljóðforminu aftur og aftur. En limrur eru náttúrulega frábært form fyrir fyndni.

Þriðji upplesturinn var úr nýrri bók Gunnars um Baldur Brjánsson. Mamma er að lesa bókina og er mjög hrifin. Gunnar las upp úr þremur stöðum í bókinni og virðist þetta vera hin skemmtilegasta bók. Ætli ég lesi hana ekki þegar mamma er búin.

Og svo kom að aðalatriði kvöldsins. Hjálmar Freysteinsson kom fram aftur og lagðist nú undir hnífinn, ja, eða hnefann því Baldur óð bara inní hann með hendinni og tók svo að draga út úr honum bein og spotta og síðan pilluglas sem Gunnar hélt að væri kannski viagra. Blóðið spýttist kannski ekki í allar áttir en það þurfti að þurrka vel af og þurfti Baldur sífellt nýjan klút til að þurrka upp blóðið. Ég er löngu hætt að nenna að skilja hvað töframenn gera. Ég veit að um sjónhverfingar er að ræða en hvað þeir gera...

Það komu þó nokkrir á staðinn en það var alls ekki fullt út úr dyrum eins og við höfðum kannski búist við. Ég hélt að menn myndu nota tækifærið og gera sér dagamun þegar boðið er upp á ókeypis skemmtun. En það eru kannski allir á kafi í jólaundirbúningnum.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband