Í jólafríi
30.12.2008 | 18:25
Ég hef notið þess að slappa af heima, fara í sund, borða góðan mat (og nammi) og almennt gera sem minnst.
Dagurinn í gær var hins vegar töluvert fullur af skemmtilegum atburðum. Fór í sund stuttu eftir að ég vaknaði (eftir morgunverð) og synti kílómetra. Hef annars bara verið að synda 750 metra - finnst það yfirleitt ágætt).
Eftir hádegið rölti ég niður á Glerártorg með foreldrunum. Við þurftum að gera ýmislegt og ákváðum að slá útréttingunum saman við smá líkamsrækt.
Um þrjú leytið dró ég Gunna bróður, Dísu mágkonu og Guðrúnu dóttur þeirra á skauta og það var rosalega gaman. Vorum þar í sirka einn og hálfan tíma en þá voru líka allir að drepast í fótunum.
Síðan fór ég til Hauks bróður og Írisar í kvöldmat í þennan líka fína kjúklingarétt. Fór ekki heim fyrr en um hálftíu og lallaði þá niður í holtahverfi. Haukur bauðst til að keyra mig heim en mér hefur alltaf þótt notalegt að labba á Akureyri. Og þetta eru ekki nema um 20 mínútur frá þeim til mömmu og pabba.
Þegar ég kom heim var farið beint í heita pottinn hjá Gunna bróður og þar sátum við í vel yfir klukkutíma. Klukkan var orðin hálf tólf þegar Dísa kom og sagði Guðrúnu að fara í rúmið - enda sú stutta bara níu ára og auðvitað kominn svefntími á hana. Það var svolítið fyndið þegar við löbbuðum uppeftir til mömmu og pabba á handklæðunum einum saman um hávetur (nei nei, sundfötin auðvitað innan undir). En þetta var nú ekki langt - Gunni býr í næsta húsi. Hann vildi ekki vera of langt frá mömmu sinni
Dagurinn í dag var rólegri. Sundferð, Bónusferð, lærdómur, lestur völvunnar, hönnun afmæliskorts, vandræði með vildarpunkta á Icelandair (það er ekkert hægt að fá fyrir þetta lengur og punktar að fyrnast).
En nú ætla ég að fara og athuga hvort kjötbollurnar eru ekki tilbúnar!
Athugasemdir
Þú ert ekki mikið að Kíkja í Zik Zak og heilsa upp á bloggvinkonu í leiðinni! Gaman væri nú að sjá þig.
Hafðu það gott um áramótin
Huld S. Ringsted, 30.12.2008 kl. 22:54
Hvar er Zik Zak?
Kristín M. Jóhannsdóttir, 31.12.2008 kl. 12:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.