Týndi kötturinn
1.1.2009 | 19:34
Kolbrún bróðurdóttir mín fékk nýjan kettling í dag. Þegar þau komu niður í holtin í afmæliskaffi pabba var kettlingurinn skilinn eftir heima og fannst hann hvergi þegar gengið kom aftur heim. Leitað var um allt og öllu snúið við. Eftir tveggja tíma leit var hringt eftir hjálp og við pabbi fórum til að hjálpa við leitina. Who you wanna call? Catbusters!
Kolbrún lýsti fyrir mér kettlingnum - svartur og hvítur. Já, það var nú vissara svo ég færi ekki að koma með einhvern annan kettling úr felum.
Við snérum öllum aftur við en ekkert gekk. Ég fór enn einu sinni inn í svefnherbergi bróður míns og mágkonu og fékk allt í einu þá tilfinningu að kötturinn væri þarna. Svo ég ákvað að opna skúffur þótt mér þætti svolítið skrítið að vaða ofan í svefnherbergisskúffur hjóna. Maður veit aldrei hvað maður getur fundið þar.
Og þarna, ofan í hér um bil tómri skúffunni, var kettlingsræfillinn, skíthræddur, og hvæsti á mig. Ég tók þennan vesaling upp og fór með hann inn í stofu þar sem uppi varð fótur og fit. Kolbrún margþakkaði mér fyrir að finna dýrið og vildi leika við hann. Greyið Keli - það er ekki alltaf sældarlíf að búa með sex ára dömu.
Athugasemdir
Hef aðeins kíkt inn hjá þér núna í fríinu þínu. Gott að heyra að þú sért búin að hafa það gott. Þú ert sem sagt gamall þorpari.
Anna Guðný , 2.1.2009 kl. 02:18
Jájá, þorpari og Þórsari úr Þverholtinu.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.1.2009 kl. 12:04
Sæl Stína og takk fyrir marga góða pistla á árinu. Er býsna dyggur lesandi. Hrafnhildur - aliasHabbý
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.