Að njóta lífsins í New York

Ég sit á Hard Rock í New York, nýbúin með djúsí borgara sem þó var ekki eins góður og mér þótt borgararnir á Hard Rock í Reykjavík hér í gamla daga. Kartöflurnar voru líka bara þessar venjulegu en ekki eins og ég man þær. Það fór sem sagt þannig fyrir nostalgíunni.

Þetta er síðasti dagurinn minn í New York, búin að vera hér síðan á þriðjudagskvöldið. Og hvað hef ég svo gert? Ég fór í Ameríska náttúrugripasafnið. Það var mjög skemmtilegt og skemmtilegast var að sjá beinagrindurnar af risaeðlunum - þótt ég sé ekki eins og litlu strákarnir sem vita hvað þær allar heita. Ég þekki bara Tyrannosaurus Rex og búið. En þvílík stærð á safni! Ég eyddi þarna þremur eða fjórum klukkustundum, hljóp um svæðið í stað þess að lesa allt (ókei, smá ýkjur en samt...) og samt sá ég ekki nema brot af öllu safninu. Enginn leikmuna tók sig af stað en það gerist víst bara hjá Ben Stiller.

Ég fór líka á hokkíleik á milli New York Rangers og Montreal Canadiens sem Montreal vann 6-3, mér til mikillar ánægju en ekki flestra í kringum mig. Annars voru býsna margir frá Montreal á leiknum. Það var gaman að koma í Madison Square Garden en ég er nú hrifnari af GM Place (heimavelli Vancouver Canucks). Líklega er það vegna tryggðar minnar við liðið.

Ég fór líka út að borða á mexíkönskum veitingastað með Hönnu frænku hennar Guðrúnar Helgu. Við grínuðumst með það að við værum frænkur frænku (cousins of a cousin). Það var gaman að hitta Hönnu aftur. Heimsótti hana fyrir þrem árum. Við höfðum um margt að tala en tíminn ekki nándar nærri mikill.

Í gær labbaði ég heil ósköp - frá 96. stræti þar sem ég bjó og nærri því niður að áttunda stræti. Sem sagt, 88 götur sem eru væntanlega um níu kílómetrar. Ég stoppaði auðvitað nokkrum sinnum á leiðinni, skaust inní búðir eða settist og fékk mér kaffi. Á einum stað var verið við kvikmyndatöku og stjarna myndarinnar gekk fram hjá mér, án þess að ég sæi framan í hana (loðin hetta á úlpunni), en ég geri ráð fyrir því að þetta hafi verið stórstjarna vegna ljósmyndaranna sem sátu um hana í leyni. Sá m.a. einn sem var með risastóra aðdráttarlinsu og faldi sig inni í bíl.

Mætti reyndar öðrum frægum leikara úti á götu. Latínó. Kem ekki nafninu fyrir mig. Hélt fyrst að ég hefði séð hann í Ugly Betty en það var ekki rétt. Verð að brjóta heilann.

Lét plata mig aðeins í sambandi við iPod. Leiðrétti mistökin en ekki til fullnustu. Segi ykkur frá því í sérfærslu.

Ætlaði á söngleik en þegar ég kom niður á Times Square þar sem hægt er að fá miða á hálfvirði var þegar komin löng röð og enn klukkutími í að miðasala opnaði. Ákvað að ég nennti ekki að eyða tíma mínum í New York í röð. Var líka alveg sama um hvort ég færi á söngleik eða ekki. Enginn sérstakur sem mig langaði ógurlega að sjá. Fór í bíó í staðinn á Marley and me en fannst hún ekkert sérstök. Og poppið var ekkert sérstakt.

Jæja, best að fara að borga reikninginn minn og halda áfram á labbinu. Blogga næst frá Vancouver. 

-------- 

Bæti hér við færslu sem ég skrifaði fyrsta kvöldið mitt í New York en gat ekki hlaðið inn á vefinn.

 Jæja, ég sit nú á hótelherbergi í New York, tiltölulega þreytt, en ekki alveg tilbúin til að fara að sofa. Svo í staðinn horfi ég á Starsky og Hutch með öðru auga og hef hitt á tölvuskjánum.

Flugvélin lenti í NY um sex leytið en það tók langan tíma að komast út af flugvellinum. Áður en ég fór hafði frændi minn nefnt það að þegar hann flaug síðast til NY þá hafi miklu fleiri landamæraverðir séð um að koma Bandaríkjamönnum í gegnum vegabréfaeftirlitið en útlendingum. Það hafði verið eins þegar ég flaug hérna í gegn um daginn. Í kvöld tók þó steininn út. Þeir hleyptu nefnilega engum útlendingum í gegn fyrr en þeir voru búnir að skrá inn ALLA Bandaríkjamenn. Sem sagt, allir landamæraverðirnir sinntu Bandaríkjamönnum áður en þeir hleyptu öðrum í gegn. Þvílík mismunun. Bandaríkjamenn fóru sem sagt í gegn á tíu mínútum en ég var ekki komin út fyrr en 45 mínútum síðar.

Ferðin inn í Manhattan tók líka langan tíma. Ég tók loftlestina að neðanjarðarlestarstöðinni og síðan (bláu) línu E inn í miðborgina. Þar varð ég að skipta yfir í rauðu línuna en það var hægara sagt en gert. Ég varð nefnilega að fara  að lestarstöð 50 á bláu línunni, fara svo út og yfir götuna og aftur inn á lestarstöðina hinum megin (og borga mig aftur inn) og bláu línuna síðan eina stöð til baka (hún skiptist nefnilega) og þaðan gat ég tekið lestina eina stöð og skipt þar yfir í rauðu línuna. Og aðeins einu sinni var rúllustigi. Alls staðar annars staðar varð ég að rogast upp og niður stiga með þungar töskurnar. Sem betur fer var eftirleikurinn auðveldur því hótelið var innan við hundrað metra frá lestarstöðinni.

Ég tékkaði mig inn, kom mér lauslega fyrir en skaust svo út og fékk mér hamborgara (orðin sársvöng eftir langt ferðalag).

Á morgun ætla ég að borða hádegisverð með Hönnu frænku hennar Guðrúnar Helgu (sem er frænka mín) og um kvöldið er það svo Madison Square Garden og hokkíleikurinn: New York Rangers fær Montreal Canadiens í heimsókn. Hlakka mikið til.

En sem sagt, komin heil á höldnu upp á hótel þannig að mamma, þú getur andað léttar.

Annað í þessari ferð er algjörlega óskipulagt og ég mun bara svona láta það ráðast hvað ég tek mér fyrir hendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ elsku Stína mín! Takk kærlega fyrir þessa færslu :) Ég sit nefnilega hér á náttbuxunum að borða ristað brauð og drekka te, horfi stundum á TV þar sem MA-ingar (kalla sig Akureyri) eru að keppa í Útsvari við Garðabæ (þar sem nota bene alla vega einn MA-ingur er)...... Færslan þín var svo lifandi að mér fannst ég bara vera komin þarna með þér :) Hér er kalt og búið að rigna og snjóa til skiptis í dag (í Rvk) Hafðu það rosagott og alltaf gaman að kíkja hérna á þig.

hm (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 20:56

2 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Ætli ég haldi mig ekki bara við Boston sem millilendingu.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 10.1.2009 kl. 21:49

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Flaug í gegnum Boston fyrir tveim árum. New York svo margfalt skemmtilegri.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.1.2009 kl. 01:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband