Heima er best

'Heima er best' skrifaði Ólöf og svaraði þar með óafvitandi spurningunni sem hafði verið að væflast fyrir mér: Hvað notum við Íslendingar aftur í staðinn fyrir 'Home sweet home'? Já, heima er best. Ég á hins vegar tvö 'heimu' því ég fer heim til Akureyrar og síðan aftur heim til Vancouver. Og báðir staðir eru bestir því báðir eru heimili mitt.

Ég hef reyndar ekki búið í Þverholtinu í bráðum tuttugu ár en það er samt sem áður heimili mitt og mun alltaf verða enda staðurinn þar sem ég eyddi helmingi ævi minnar (þótt það eigi ekki lengur við þegar september rennur í garð) og staðurinn þar sem ég sleit barnsskónum.

En sjöunda gata í Vancouver er líka heimili mitt því þar eru sængin mín og koddinn. Og það er alltaf gott eftir hvert ferðalag að koma heim og skríða undir sæng.

Ég verð þó að segja að það er alltaf erfiðara að kveðja Ísland, enda veit ég aldrei hversu langur tími líður þar til ég kem þangað næst. Og þrátt fyrir að ég eigi góða vini hér í Kanada þá er fjölskylda mín á Íslandi og það vegur þungt. En líklega á ég eftir að eiga erfitt þegar ég kveð svo Kanada endalega, hvenær sem það svo sem verður. En ég hef ekki trú á að hér sé framtíðarheimili mitt. Annars veit maður hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég fór upphaflega til Kanada til að vera í eitt ár - í haust verða þau tíu. Það er lengri tími en ég bjó í Reykjavík.

En nú styttist í húsmæðurnar í sjónvarpinu og ég þarf að fara og sjá af hverju ég missti á meðan ég var á Íslandi.

Á morgun tekur svo vinnan við. Ég hlakka nú eiginlega til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Th Skúlason

góður pistill hafðu það gott

Ólafur Th Skúlason, 12.1.2009 kl. 10:00

2 identicon

Kristín ég bjó úti í Bandaríkjanum á mínum yngri árum og það var frábært þess vegna vill maður ekki búa út í Kanada vegna þess að ég hef alltrei komið þangað enn kannski maður kíki í heimsókn hehehe.Ég er starfsmaður hjá Alcoa á Reyðafirði og er með fín laun.

Arnar Björnsson (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 17:28

3 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Ég passaði blóm fyrir son minn og tengdadóttur, á meðan þau fóru í nám í Bandaríkjunum. Tvö ár- eða í mesta lagi þrjú.

Árin urðu þrettán og ég þurfti að endunýja blómið þrisvar sinnum, þegar það var orðið stærra en hægt var að hýsa í venjulegum mannabústað.

Helga R. Einarsdóttir, 16.1.2009 kl. 20:16

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Haha, kannski ættirðu að hringja í mömmu og þið getið rætt um óþægindin af börnum í útlöndum. Húsið heima hefur megnið af búslóðinni minni!

Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.1.2009 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband