Skrítið veður

Af því að það er þjóðaríþrótt Íslendinga að tala um veðrið þá ætla ég aðeins að segja ykkur frá því hversu undarlegt það hefur verið hér í Vancouver undanfarinn mánuð eða svo.

Það byrjaði að snjóa 13. desember og snjóaði meira og minna stanslaust fram yfir jól. Var mest rúmur metri jafnfallinn snjór. Það er enn snjór í görðum. Þetta er borg þar sem vanalega snjóar tvisvar eða þrisvar á ári og snjóinn tekur upp á fyrstu klukkutímunum.

Munið, þetta er borg þar sem enginn er á vetrardekkjum því hér er aldrei snjór. Og borgin er hæðótt. Enda lokaðist allt og sumir komust ekki út fyrir hússins dyr í marga daga.

Stuttu fyrir jól lokaðist allt flug og aumingjarnir hjá Air Canada borguðu ekki hótel fyrir nokkurn mann og létu fólk meira að segja borga fyrir það að breyta fluginu sínu þegar þeirra flug var fellt niður. Já, þjónustunni í fluggeiranum hefur all hrakað eftir níunda september. Alla vegar tók ég fyrst eftir því þá hvað farið var að skera allt niður.

Nú er farið að síga á seinni hluta janúar og það er enn snjór í görðum og á sumum gangstéttum. Veðrið er líka kaldara en vanalega og fer iðulega niður fyrir frostmark á næturnar og gerir það að verkum að allir þurfa að skafa rúðurnar á bílunum. Er viss um að sumir áttu ekki einu sinni sköfu fyrr en í desember.

Og til að bæta gráu ofan á svart hefur legið þétt þoka yfir borginni meira og minna í tvær vikur. Um daginn fórum við nokkrar stelpur í partý suður af borginni, á þrem bílum, og allir villtust. Við gátum ekki lesið á götuskiltin. Einn hópurinn lenti á flugvellinum, okkar bíll fór fram hjá afleggjaranum og var komin langt austur fyrir staðinn og þriðji bíllinn var einhvers staðar annars staðar að villast.

Myndin að neðan sýnir turnana á miðbænum standa upp úr þokunni. Það virðist ekki á hreinu hver tók þessa mynd en mér skilst að það hafi verið margir ljósmyndarar hlið við hlið, allir að taka eins myndir. En rosalega er hún nú flott.

Ídag skín sólin og allt í einu verður allt svo miklu betra.

vancouver in the fog by buzz.bishop.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Þetta hljómar eins og henni Reykjavík á hverju hausti í fyrsta snjó.   Það er eins og engin eigi von á snjó og allir spólandi út um allt.

En myndin er smart. 

Marinó Már Marinósson, 25.1.2009 kl. 15:36

2 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Fræbær mynd!

Kær kveðja, Wilhelm

Wilhelm Emilsson, 31.1.2009 kl. 04:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband