Rakinn lagar hóstann

Í kringum þriðja janúar fékk ég kvef. Það væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema vegna þess að nú er liðinn næstum mánuður og ég er enn hóstandi. Ég gafst upp í gær og fór til læknis til að láta hlusta mig. Mér fannst ég nefnilega ekkert veik lengur - það var bara þessi hósti.

Læknirinn hlustaði mig og kíkti í kokið og sagði mér svo að það væri ekkert í lungum eða hálsi. Það sem væri að mér var það að eftir slæma vírusa þá er hálsinn oft svolítið bólginn og pirraður og þess vegna hósta ég. Hann sagði að hóstasöft virkuðu ekkert á þetta. Það sem væri langbest væri raki. Rakatæki gerðu ótrúlegt gagn og ef ég ætti ekkert slíkt skyldi ég setja heitt vatn í fat og anda svo yfir því með handklæði yfir höfðinu. Ég þoli ekki að anda að mér heitu vatni úr bala svo í staðinn fór ég og keypti rakatæki. Það er líka bara gott fyrir mig að hafa svoleiðis vegna þess að ég þarf alltaf að nota lítinn rafmagnshitara til að hita upp íbúðina (því nágranninn þráast enn við að hita húsið almennilega) og rafmagnshitarar þurrka upp loftið.

En til að gera langa sögu pínulítið styttri, nóttin í nótt var svo fyrsta í næstum heilan mánuð þar sem ég vaknaði ekki fyrr en klukkan hringdi. Alveg dásamlegt. Engin hóstaköst.

Þetta er líka eins gott því eldsnemma í fyrramálið fer ég til Whistler á skíði og kem ekki fyrr en á sunnudagskvöld. Við verðum þó nokkuð mörg sem förum. Það byrjaði reyndar smátt því kunningi minn bauð mér gistingu á meðan hann væri þarna uppfrá. Ég ákvað að nýta mér tækifærið og sagði Lizu og Emmu frá. Svo þær ákváðu að koma bara með og fara á hótel. Síðan heyrðu Kathy og Patricia af þessu ákváðu að koma með og að lokum bættist Elli í hópinn. Það ætti sem sagt að vera heilmikið stuð í Whistler um helgina. Jibbí!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Þú verður að muna að taka rakatækið með þér í ferðina. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 31.1.2009 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband