Snjóbrettaferð endaði sem snjósleðaferð

Ég fór á snjóbretti í gær. Snjórinn var ekki alveg eins góður og ég hefði viljað, laus snjór ofan á hörðum, svo ég fór heldur varlega. En eftir nokkrar ferðir var ég farin að ná betri tökum á þessu og skellti mér niður brekkuna.

En ég var varla búin að renna mér nema 60 eða 70 metra þegar ég missti nokkurn veginn stjórn á aftari fæti. Oh oh. Ég á hausinn. Í ljós kom að ein skrúfan á bindingunum losnaði og fóturinn varð laus. Ef ég hefði verið á skíðum hefði ég bara haldið á skíðinu sem ekki virkaði og rennt mér niður á öðru. En ég er langt frá því að vera nógu góð á snjóbretti til þess að fara niður með annan fótinn lausan. Möguleikarnir voru tveir. Labba niður brekkuna með brettið í höndunum, eða labba upp brekkuna og taka stólinn niður.

Ég var miklu nær toppnum en botninum svo ég ákvað að fara heldur upp. Nema hvað, í Cypress eru stífar reglur um það að ekki megi fara niður með lyftunni. Strákurinn á lyftunni var viss um að það væri nú í lagi en talaði samt við yfirmann sinn sem þvertók fyrir það að nokkur færi niður með lyftunni. Skil ekkert í þessu, veit ekki hversu oft ég fór niður með stólnum í Hlíðarfjalli. Það er ekkert hættulegra að fara niður lyftuna en upp hana. Og ekki ætti að vera mikið mál að koma sér í og úr.

En yfirmaðurinn gaf sig ekki og í staðinn sendi hann náunga á snjósleða upp fjallið að sækja mig. Hefði átt að labba bara niður í stað upp.

Snjósleðaferðin var eins og rússíbanaferð. Pínulítið spennandi þrátt fyrir að ég væri að pissa á mig úr hræðslu. Hann fór nefnilega alltaf yst í brekkuna svo við vorum alltaf á brúninni. Og þverhnípt niður á sumum stöðum. Sleðinn var þar að auki hár svo ég hélt alltaf að við ættum eftir að velta. Mér létti því heilmikið þegar við komum niður og ég gat farið af sleðanum.

Svo ég stað þess að bretta meira fór ég bara á pöbbinn og fékk mér að borða. Emma kom fljótlega og Elli, Becky og Virginia ekki löngu síðar. En nú þarf ég að fara með brettið í viðgerð. Það er allt í lagi, ég ætla á skíði í Whistler um helgina og þarf ekki á brettinu að halda þar til næsta fimmtudag þegar næsta ferð til Cypress verður farin.

Mikið rosalega er ég ánægð með að eiga bíl. Ég fer á skíði og bretti þegar mér sýnist. Um helgina fer ég í fjórða skiptið á innan við mánuði. Undanfarin fimm ár hef ég farið þrisvar til fimm sinnum á ári! Þetta er svo miklu skemmtilegra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Sá sem sótti þig á vélsleðanum hefur greinilega verið adrenalín fíkill.

En sko... þegar ég sá fyrirsögnina og byrjaði að lesa,.... þá einhvern veginn kom í hausinn á mér mynd af þér sitjandi á brettinu þínu, og rennandi svoleiðis niður :-)

Einar Indriðason, 21.2.2009 kl. 10:10

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Haha. Ég hafði ekki hugsað út í það en ég sé það núna að það passar fyrirsögninni miklu betur. Ætli það gæti ekki verið spennandi að sitja á brettinu eina ferð?

Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.2.2009 kl. 18:36

3 Smámynd: Einar Indriðason

Þú prófar það bara næst :-)

Einar Indriðason, 22.2.2009 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband