Smá hokkíblogg
22.2.2009 | 06:17
Það er orðið langt síðan ég hef bloggað um hokkí en ég má ekki alveg hætta því.
Liðið mitt, Vancouver Canucks er á svaka ferð þessa dagana og hefur unnið átta af síðustu níu leikjum. Þar á undan voru þeir reyndar á hraðri niðurleið og töpuðu níu af tíu leikjum. En vonandi var það eini öldudalurinn og vonandi eiga þeir eftir að standa sig vel það sem eftir er af leiktíðinni. Við sitjum nú í fimmta sæti vestur riðils. Átta lið úr hvorum riðli komast í úrslitakeppnina. Þetta lítur því vel út.
Lengi hafði verið beðið eftir leiknum í dag því hann markaði heimkomu Mats Sundin til Toronto þar sem hann spilaði síðastliðin 13 ár. Rétt eftir jól gekk hann hins vegar til liðs við Vancouver Canucks og margir Torontobúar sjá hann sem svikara. Mikið var því spáð í það hvort aðdáendur Toronto liðsins myndu púa á Mats eða fagna honum. Í ljós kom að Torontoaðdáendur eru smekklegri en flestir bjuggust við og þótt nokkrir asnar hafi púað þá fagnaði fjöldinn. Sýnt var myndband á stórum skjá þar sem afrek Sundins voru undirstrikuð og fjöldinn stóð upp og klappaði.
En hvernig þakkaði Sundin fyrir sig? Hann skoraði sigurmark Vancouver í vítakeppni. Þetta var því eins og Hollywood endir: Sundin kemur til baka til Toronto sem Kanúki og skorar sigurmarkið gegn sínu gamla liði! Klassi. Hver myndi leika hann í bíómynd?
Af mér er það helst að frétta að ég er á leiðinni til Whistler á skíði. Ætla að leggja af stað klukkan sex í fyrramálið og komast snemma í brekkurnar. Reyndar er spáð rigningu. Vona að það gangi ekki eftir. Akemi ætlar með mér og uppfrá munum við hitta Karen. Akemi og Karen eru báðar Presto stelpur (lesist: spila fótbolta með mér). Ég ætla líka að nota tækifærið og skreppa í kaffi með vini mínum sem vinnur hjá VANOC. Hann er búinn að vera uppi í Whistler meira og minna síðan um jól út af öllum íþróttakeppnum sem við höfum staðið fyrir þar. Síðast þegar ég talaði við hann var hann ekki búinn að fá frídag síðan fyrstu vikuna í janúar. Ég hef verið heppin hvað það snertir - hef ekki þurft að vinna nándar nærri því svo mikið. En ég mun þurfa að vinna um næstu helgi því ég þarf að þjálfa sjálboðaliða sem munu túlka fyrir keppendur í skíðaskotfimi. Það ætti að vera skemmtilegt. Gallinn er að ég mun missa heilan skíðadag út af því! O jæja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.