Endaslöpp skíðaferð til Whistler
24.2.2009 | 06:21
Ég skellti mér á skíði um helgina þótt sumt hafi reyndar farið öðruvísi en ætlað var.
Ég fór á fætur um hálf sex leytið og var að borða morgunverð þegar ég fékk sms frá Akemi sem ætlaði að koma með mér. Hún hafði komið heim af djamminu klukkan þrjú og var ekki alveg í ástandi til þess að fara á skíði. Nú voru góð ráð dýr. Klukkan var bara sex að morgni og allt of snemmt að vekja einhvern upp bara til að spyrja hvort þeir vildu koma á skíði. Ég hafði því úr tvennu að velja: Fara ein eða hætta við. Ein ástæða þess að ég keypti bílinn var svo ég gæti farið á skíði þegar mér sýnist en ekki þegar öðrum þóknast svo það var eiginlega fáránlegt að hætta við bara af því að ég hafði ekki skíðafélaga. Ekki eins og ég hafi ekki farið hundrað sinnum ein á skíði áður. Þar að auki var ég búin að mæla mér mót við vinn minn í kaffi rúmlega átta og vildi alls ekki sleppa því. Svo ég kom dótinu fyrir í bílnum og lagði af stað.
Maður er svo miklu fljótari að keyra til Whistler þegar maður leggur svona snemma af stað. Engin umferð á leiðinni. Ég var bara tvo tíma til Whistler og það án þess að keyra eins og vitleysingur. Ég hafði góðan félagsskap af fimm diska safni íslenskrar tónlistar í hundrað ár. Söng heilmikið með.
Kom til Whistler rétt rúmlega átta, hitti vin minn og við drukkum kaffi í klukkutíma áður en ég þurfti að koma mér í brekkuna og hann þurfti að sinna vinnunni.
Veðrið var fallegt en spáði þó rigningu. Nema hvað, rigning kemur oft sem snjór í fjöllum og það var sem betur fer þannig í þetta sinn. Ég hef einu sinni skíðað Whistler í mígandi rigningu og það var ekki skemmtilegt. En gallinn er að mikil hríð getur líka verið vandamál. Og það hríðaði svo sannarlega þegar ég kom hærra upp í fjallið. Og hríðin jókst stöðugt. Það var orðið svo að ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum á hverri ferð og hreins snjóinn af skíðagleraugunum. Stundum sá ég varla snjóinn fyrir framan mig og einu sinni lenti ég með annan fótinn í skafli (sem ég hafði alls ekki séð í hríðinni). Sá fótur sat fastur á meðan hinn hélt áfram niður brekkuna og ég komst nær því að fara í splitt en ég hef gert síðan ég var barn. Ekki þægilegt, svona ykkur að segja.
Ég gafst upp um tvö leytið. Mér var orðið kalt og ég sá lítið og þetta var ekkert skemmtilegt lengur. Þar að auki bílinn á sumardekkjum og með þessu áframhaldi yrði færðin all svakaleg innan margra klukkustunda. Svo ég fór niður í bíl sem var þakinn snjó. Vegurinn var líka settur snjó en snjórinn var þokkalega troðinn. Bíllinn stóð sig svo alveg súper vel í snjónum og það var eins og ég væri á nöglum. En líklega var ekki mjög hált. Ég var hins vegar ekki komin langt út úr Whistler þegar snjórinn var orðinn að rigningu og vegur auður það sem eftir var af ferðinni í bæinn.
En þótt skíðaferðin hafi orðið endaslöpp þá var hún vel þess virði. Svei mér þá, það er aldrei að vita nema ég fari aftur um næstu helgi.
Athugasemdir
Á ekki að segja "endasleppt"
Þorpari (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 15:50
Jújú, sjálfsagt. En þú verður nú að fyrirgefa manneskju sem hefur ekki búið á íslensku í tíu ár.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.3.2009 kl. 15:39
Haha, "búið á íslensku". Þetta var samsuða af 'búið á Íslandi' og 'talað íslensku'.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.3.2009 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.