Stríðni í vinnunni

VANOC er skipt niður í deildir og undirdeildir og ég held ég hafi eina fjóra yfirmenn, hvern fyrir ofan annan. Litla grúbban mín sem stjórnað er af Maureen, sér um tungumálaþjónustu ásamt VIP þjónustu á öllum keppnisstöðum, auk Ólympíuþorpanna, fjölmiðlahallanna og flugvallarins. Skiptingin hefur verið býsna einföld, ég sé um tungumálaþjónustuna og Kiara sér um VIP þjónustuna. Núna eftir jólin bættust tveir strákar í hópinn sem báðar vinna beint fyrir Kiöru: Denis mun sjá um keppnisstaði í fjöllunum og Gavin sér um keppnisstaði í borginni.

Það hefur breytt heilmiklu að fá tvo stráka í hópinn og þótt það hafi alltaf verið gaman hjá okkur þá hefur andrúmsloftið verið enn léttara upp á síðkastið. Og oft er heilmikið brallað.

Í hádeginu í dag minntist ég á það við matarborðið að bæði Denis og Gavin voru með símana með sér. Maureen og Sally eru alltaf að skamma okkur Kiöru fyrir það að vera aldrei með okkar síma þegar við förum á fundi eða í hádegisverð. Einhvern veginn varð þetta til þess að við fórum að stríða Kiöru. Við enduðum á því að hringja öll í hana og fylla talhólfið hennar, og síðan festum við ól á símann svo hún gæti haft hann um hálsinn. Henni þótti þetta stórskemmtilegt.

Í gær birtist í blöðunum viðtal við Bas sem vinnur með okkur og þar er hann kallaður slánalegur, ákafur Hollendingur. Við flýttum okkur að búa til skilti með þessari áletrun og stórri ör sem vísaði niður og hengdum fyrir ofan stólinn hans Bas.

Það er líka mikið hlegið og nú tvo þriðjudaga í röð höfum við haldið míní-partý á vinnusvæðinu okkar. Í síðustu viku með rauðvíni og ostum og í dag með súkkulaði. Jamm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband