Hinn fallegi (en ofbeldisfulli) leikur (nei, ekki fótboltinn)
30.3.2009 | 03:02
Skyldi það segja eitthvað um eðli þjóða hvaða íþróttir eru vinsælastar í hverju landi? Fótboltinn hefur augljóslega vinninginn á Íslandi, svo og í flestum öðrum Evrópulöndum, svo og Suður-Ameríku og nokkrum fleiri stöðum. Í Bandaríkjunum er það ameríski fótboltinn með körfubolta og hafnarbolta fast á hælunum. Í Kanada er það hokkíið sem ber höfuð og herðar (ef svo má segja um íþrótt) yfir aðrar íþróttir.
Hokkí er hraður leikur er nokkuð ofbeldisfullur því leyfilegt er að hrinda og ýta öðrum leikmönnum. Það er heldur ekki tekið of alvarlega í það ef leikmenn taka af sér hanskana og berjast. Þeir fá reyndar brottvísun en yfirleitt ekki nema í tvær til tíu mínútur, eftir aðstæðum.
Í leik Vancouver og Chicago í dag varð allt brjálað þegar einn leikmanna Chicago hrinti markmanni Vancouver. Markmenn eru nokkurs konar súkköt. Það má yfirleitt ekki snerta við þeim, sem reyndar er góð regla. En alla vega, út brutust heilmikil slagsmál og mér datt í hug að þið hefðuð gaman af að sjá hvað leyfist í hokkí. Ætti kannski að taka fram þó að þetta á fyrst og fremst við norður amerískt hokkí. Minna er um slíkt í Evrópu.
Athugasemdir
Canuks flottir og frískir í dag Stína, dáltið villtir líka.
Hef persónulega ánægju af því að vinna tvö lið Chicago er eitt þeirra, og Calgary hitt!
Go Canucks Go
Jenný Stefanía Jensdóttir, 30.3.2009 kl. 05:29
Það þarf einfaldlega að lemja suma, svo einfalt er það.
Krímer (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 09:36
Thetta er assgoti magnad bara! Gud hvad eg se thetta fyrir mer sem keppnisithrott a Olympiuleikunum, hefdbundna glimu a skautum (i hokkigalla!). Stina, beitir thu ekki ahrifum thinum innan Vanoc til thess ad gera thetta ad syningargrein a OL2010?
Rut (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 11:38
Þessir menn eru íþróttinni til skammar og ætti lögreglan sannarlega að skoða upptökurnar og gefa út ákærur á þá sem höfðu sig þarna frammi.
Hilmar Gunnlaugsson, 31.3.2009 kl. 00:03
Iss, þá væru nú allir í fangelsi. Það hefur oft verið farið fram á það að banna slagsmál í hokkí en staðreyndin er sú að stór hluti áhorfenda eru óþroskaðir karlmenn sem fá meira kikk út úr því að horfa á slagsmál á ís en vel spilaðan leik. Þess vegna vilja eigendur liðanna ekki láta banna slagsmál því færri myndu koma á leiki. Asnalegt, ég er sammála, en svona er þetta.
Rut, læt athuga málið.
Jenný, af hverju er þér illa við Chicago? Mér er miklu verr við Dallas (útaf stælunum í Turco í haust) og Anaheim (af því að þeir eru drullusokkar). En auðvitað er alltaf sætast að vinna Calgary.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 31.3.2009 kl. 06:00
"...og mér datt í hug að þið hefðuð gaman af að sjá hvað leyfist í hokkí."
ÆÆæææjjiii....
Nú ætla ég að leyfa mér að vera hneykslaði, fúlistinn sem drepur fjörið í partíinu:
Hvað af þessu sem sést þarna á vídjóinu er leyfilegt í hokkí hvar sem er í heiminum??.
Svarið er: Ekkert!!
Krosstékk í höfuð markmanns er með alvarlegustu brotum og allt sem þarna fylgir er jafnvel í NHL, stóralvarleg brot.
Það er annað mál hvernig tekið er á málum og í þessum heimshluta er það hluti af kröfum (sumra) áhorfenda eins og þú segir, að fá að sjá smá ryskingar í bland og þess vegna frekar séð í gegnum fingur með það til þess að auka áhorf.
Svona hópslagsmál eins og þarna, heyra þó til algerra undantekninga og eru ekki hvað ég veit hluti af "fjörinu" sem flestir áhorfendur vilja. Ef þetta væri algengt þá mundi jafnvel NHL-hokkíið deyja út held ég.
Slagsmál og fantabrögð eru ekki "hluti af hokkíi", amk ekki hérna megin Stórapolls og frekar litið niður á lið sem eru gjörn á slíkt. Það þarf ekki að horfa á marga leiki í toppbaráttu HM til dæmis, til að átta sig á því.
Hokkí er einmitt heillandi íþrótt vegna hraðans og festunar. Stympingar og samstuð innan mjög strangt skilgreindra marka eru hluti af því. Leyfileg "tök" (checking) eru vel skilgreind og hluti af leikaðferðum, önnur "tök" eru óleyfileg, fyrst og fremst vegna þess að það er engum til góðs og mikil slysahætta af. Góðir leikmenn láta heldur ekki tékka sig svo létt. Þeir víkja ser frekar undan og koma pekkinum til samherja.
Staðalímyndin af hokkíbuffinu með skakkt nef og brotna framtönn tilheyrir liðinni tíð, a.m.k. alls staðar utan N-Ameríku.
Hokkííþróttin er nefnlega miklu skemmtilegri þegar leikið er fullkomlega innan regluverksins. Þá er mest fjör og skemmtilegast að fylgjast með. Þannig hokkí reynum við að byggja upp hér á Íslandi og gengur það þokkalega.
Við verðum að fá inn nóg af ungum krökkum í íþróttina til þess að byggja grunninn og allir tilburðir til þess að lýsa íþróttinni (ranglega) sem ofbeldisfullri dregur úr þeim möguleikum.
Með bestu kveðjum
Björn Geir Leifsson, skurðlæknir að mennt, tvöfaldur hokkípabbi, liðslæknir í ígripum og því mikill áhugamaður um skemmtilegt hokkí.
Björn Geir Leifsson (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 09:18
Ég er algjörlega sammála þér Björn með það að hokkí er skemmtilegra þegar slagsmálum og ljótum tæklingum er sleppt, en ég stend við allt sem ég sagði hér að framan. Þetta er allt leyfilegt vegna þess einfaldlega að að gert er ráð fyrir svona hegðun innan leiksins, alla vega eins og hann er spilaður í Norður Ameríku. Náunginn sem ýtir á höfuð markmannsins fékk tveggja mínútna brottvísun fyrir brotið. TVEGGJA MÍNÚTNA. Ef það segir þér ekki að þetta er leyfilegt þá veit ég ekki hvað gerir það. Slagsmál af því tagi sem sjást í myndbandinu veita í mesta lagi fimmtán mínútna brottvísun og sú brottvísun er af því tagi að liðið má setja annan leikmann inn í staðinn - þarf ekki að spila manni færri. Að mínu mati er allt sem ekki veldur meiriháttar brottvísun leyfilegt.
OG já, leikurinn er spilaður öðru vísi en í Evrópu en ekki gleyma því hvaðan hann er upprunninn. Og ekki gleyma því að það sem sést í dag er barnaleikur miðað við það sem var t.d. þegar Maurice Richard var upp á sitt besta. Svona slagsmál og tæklanir hafa verið hluti af hokkíinu frá upphafi og leikurinn hefur mildast mikið.
Enn og aftur, ég vildi gjarnan láta banna svona hegðun en svona er þetta einfaldlega. Og þótt leikurinn sé spilaður öðruvísi í Evrópu þá breytir það því ekki að þetta er svona hér vestra þar sem hokkí er vinsælla en nokkurs staðar annars staðar í heiminum.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.4.2009 kl. 19:33
Stína, Chicago Hawks og ég, það er persónulegt.
Gaman að heyra í Birni skurðlækni hockeypabba með meiru. Maður skilur eiginlega ekki af hverju hockey er ekki þjóðaríþrótt okkar Íslendinga.
Líka gaman að segja frá því að Óðinn og Atli (Stína þú þekkir þá vel) voru eiginlega frumkvöðlar íslenska hockey leiksins ásamt Sveini bakara heitnum. Þá voru þeir unglingar nýkomnir frá Kanada og æfðu stíft á Melavellinum (þar sem Þjóðarbókhlaðan er núna), og síðan eru liðin 30 og eitthvað ár!
Bertuzzi punchið var það ljótasta sem maður hefur séð .... og nú spilar hann með Calgary
Jenný Stefanía Jensdóttir, 3.4.2009 kl. 06:11
fer þetta ekki yfir?
Arnar Geir Geirsson (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 13:52
Rétt Arnar. Pökkurinn fór yfir markið.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.4.2009 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.