Tilviljanir geta verið svo skrítnar

Ég fór út að borða í gær með Lizu og Deb sem vinnur með mér. Liza og Deb eru góðar vinkonur og hafa verið síðan þær fóru að vinna saman fyrir rúmu ári.

Einhverra hluta vegna nefndi ég að Akemi vinkona mín hefði verið að kaupa sér íbúð í Burnaby. Deb sem býr í Burnaby spurði hvar og ég sagði að þetta væri nálægt Brentwood verslunarmiðstöðinni. Deb sagðist þá búa rétt þar hjá líka og nefndi göturnar tvær sem mætast við húsið hennar.

Ha, sagði Liza, ég bjó á þessu sama horni þegar ég var nítján ára! Eftir nokkrar umræður (sem lengdust aðallega vegna þess að Deb var ekki viss um áttirnar í Burnaby) komust þær að þeirri niðurstöðu að Deb býr í sama húsi og Liza hafði búið í fyrir tuttugu árum.

Deb sagðist búa á efstu hæð en Liza bjó í kjallaranum. 'Það er núna náungi í kjallaranum sem heitir Greg', sagði Deb. 'Hann er einn af mínum bestu vinum'. Liza hló. 'Fyndið, þegar ég bjó þarna bjó ég nefnilega með manni sem hét Greg. En hann er ábyggilega löngu fluttur í burtu.'

Svo Deb nefndi ættarnafnið og Liza fékk hláturkast. Kom ekki í ljós að besti vinur Deb í kjallaranum er einmitt náunginn sem Liza bjó með þegar hún var nítján ára. Og hann býr enn á sama stað.

Stór-Vancouversvæðið er um 3 milljónir manns. Ekki beinlínis eins og um fá hús sé að ræða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ótrúleg saga,gaman að lesa.   (er þetta nokkuð aprílgabb ?)

Númi (IP-tala skráð) 1.4.2009 kl. 23:31

2 identicon

Elska svona sogur sem gera heiminn manns skyndilega svo pinu pinu litinn!

Rut (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 13:11

3 Smámynd: Ólafur Th Skúlason

skemmtileg saga

Ólafur Th Skúlason, 2.4.2009 kl. 16:24

4 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Góð saga. 

Tilviljanir í Vancouver eða á "Lower Mainland" já;   - í fyrsta sinn sem ég kom til borgarinnar rakst ég á náskyldasta ættingja minn meðal Vestur-Íslendinga, Gunnthor Henriksson, á bílastæði í öðrum borgarhluta - og þá hafði ég ekki einu sinni dvalið í borginni nema 20 klst.   Við tengdumst af því að félagi minn gaf sig á tal við gömlu hjónin vegna þess að bílinn þeirra var með IS- og fána-merki ICCBC eða eitthvað svoleiðis.

Skemmtilegar tilviljanir .........í Vancouver

Benedikt Sigurðarson, 2.4.2009 kl. 18:27

5 identicon

 Já, tilviljanirnar geta verið skondnar - hér er ein slík.

Fyrir nokkrum árum fórum við í sumarfrí austur á land.  Vorum að fara að spila golf á Egilsstöðum og áttum bókað hús á Skipalæk í Fellabæ.  Einhverra hlutavegna þurfti ég að ná í mág minn sem ég vissi að var í fríi líka en ætlaði á Vestfirðina.  Veðrið far frábært og ég geng út á tjaldsvæðið þarna í grennd og hringi og konan hans tekur símann. Við spjöllum aðeins saman og ég spyr svo hvernig veðrið sé fyrir vestan.  „Ja, það var nú svo leiðinleg spá að við fórum áfram norður“ .  „Já og hvert?“  „við fórum hringveginn og í Mývatnssveit og héldum svo áfram og erum nú á Austfjörðunum“  „Jæja og hvar þá?“ spurði ég.  „Ja við erum reyndar ekki komin niður á firði, erum á Egilsstöðum“.  „Nú bara svona“ sagði ég „og hvar?“  Við fengum reyndar ekki tjaldstæði nema í Fellabæ, - á Skipalæk.  Þegar hér varkomið sögu hafði ég litast örlítið um og komið auga á bílinn þeirra og þarna stóð hún fyrir utan fellihýsið með símann og brá ekkert smá þegar ég bankaði í öxl hennar og við stóðum augliti til auglitis með síman okkar.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 20:43

6 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Sæl Kristín. Skemmtileg saga, lífið er oft tilviljanakennt.

Bestu kveðjur af austur ströndinni / Jenni

Jens Sigurjónsson, 3.4.2009 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband