Um öryggi pósta

Í gær fór fram jarðaför hér á stór Vancouver svæðinu. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að sá sem jarðaður var er póstur sem fyrir nokkrum dögum datt á svelli þegar hann var að bera út póstinn. Tveimur dögum síðar lést hann úr heilablæðingu. Þetta hefur auðvitað skapað heilmikla umræðu hér ytra um skyldu fólks til þess að hreinsa hjá sér gangstéttirnar svo pósturinn og blaðaburðarfólkið geti gengt sinni vinnu án þess að þurfa að vera í hættu. Hér í Vancouver eru það eingöngu fyrirtæki og fjölbýlishús sem eru skyldug til þess að hreinsa fyrir utan hjá sér en fólk í einbýli eða tvíbýli þarf þess ekki. Í mörgum nágrannasveitafélögunum er öllum skylt að moka hjá sér og hreinsa stéttina, mismörgum tímum eftir snjókomu. Á sumum stöðum er það innan sólarhrings, á öðrum innan tíu klukkutíma. En þrátt fyrir að hér í Vancouver sé það ekki skylda að hreinsa þá er það að sjálfsögðu talin almenn kurteisi við fólkið sem þjónustar manni. Og póstþjónustan hefur sagt að þeir styðji póstana sína hundrað prósent í því að bera ekki út póstinn til þeirra sem ekki hreinsa hjá sér. Ég verð að segja að ég skil það vel. 

Ég man eftir að það var einhver umræða um þetta á Akureyri fyrir mörgum árum þar sem póstur neitaði að bera út til fólks sem mokaði ekki hjá sér stéttina. Pósturinn sagðist ekki myndu leggja líf sitt í hættu með því að klöngrast þetta að dyrunum.

Ef ég man rétt þá er það ekki skylda á Íslandi að moka hjá sér leiðina að dyrunum en ég vil samt sem áður eindregið hvetja fólk til þess að hugsa um það fólk sem þarf að leggja leið sína þangað hvort sem það vill það eða ekki og moka nú vel. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband