Íslenskur matur
8.12.2006 | 03:12
Í hádegisverð í dag borðaði ég skyr og rúgbrauð með rúllupylsu. Það væri ekki í frásögur færandi nema að ég bý í Vancouver og þetta voru ekki íslenskar vörur heldur vesturíslenskar. Rúgbrauðið var bakaði af gamalli konu hér í borginni, rúllupylsan var væntanlega úr Jolly food versluninni í Norður Vancouver og skyrið var búið til af öðrum gömlum Vestur-Íslendingi. Ég keypti þetta allt, ásamt íslenskum lakkrís (frá Íslandi) á jólabasar Íslendingafélagsins um síðustu helgi. Ég er búin að vera að maula á þessum íslenska mat af og til síðan þá. Af lakkrísnum er aðeins eftir ein bingókúla. Búin með tvo litla poka af lakkrísreimum og einn af lakkrískonfekti. Hvernig er það, er Appolólakkrís öðruvísi en hann var? Mér fannst þessi eitthvað bragðlausari en ég man eftir þeim.
Ég hlakka til að koma heim og borða alvöru íslenskan mat. Mest hlakka ég til að borða saltkjötsstöppuna hennar mömmu (veit ekki um neinn annan sem býr til svoleiðis - ótrúlega gott samt) en það verður æðislegt að fá slátur, salkjöt og baunir, íslenska kjötsúpu, slátur, hangikjöt, kjötbollur, slátur... Finnst ykkur vanta fiskinn á þennan lista? Ég er með ofnæmi fyrir fiski og get ekki borðað hann. Ætla samt að borða graflax.
Svo er það nammið. Rúsínusúkkulaði, lakkrís, bland í poka (betra en það sem maður fær hér), stjörnusnakk, kartöfluflögur með osti og lauk (frá Maarud - norskir en samt góðir), Þykkvabæjarsnakk, Lindubuff, Staur, krembrauð, bananastykki, bingóstykki, Þristur..... svo margt margt meira. Íslendingar eru snillingar þegar kemur að nammi og kartöfluflögum. Ég sver það, aðrar þjóðir komast ekki með tærnar þar sem við höfum hælana. Vitiði hvað er vinsælt í kartöfluflögum í Bandaríkjunum? Tómatsósubrað. Jakk, ógeðslegt.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.