Við höfum það í raun gott
13.5.2009 | 21:51
Þrátt fyrir allt krepputal þá höfum við Íslendingar það ákaflega gott og höfum haft í langan tíma. Maður hugsar bara ekki alltaf út í það fyrr en aðstæður eru settar í öðruvísi samhengi. Nú berum við okkur saman við Ísland fyrir ári og staðan er augljóslega verri. En reynum í staðinn að bera okkur saman við aðstæður sums staðar annars staðar.
Um daginn var ég að borða kvöldverð með vinu mínum frá Chile. Við vorum að borða lamb. Ég minntist eitthvað á íslenska kjötsúpu sem algjört lostæti og hann sagði mér að hann borðaði helst ekki súpu ef hann kæmist hjá því. Ég varð auðvitað dálítið hissa en þegar hann sagði mér af hverju skildi ég hann vel. Og saga hans vakti mig til umhugsunar.
Hann var tæpra tíu ára gamall þegar Pinochet tók við völdum og þrettán ára þegar fjölskyldan flutti til Kanada. Hann bjó því undir ógnarstjórn Pinochet í þrjú ár, og þar á undan í landi á barmi örvæntingar.
En matarskortur var ekki það versta. Pinochet var harðstjóri sem hikaði ekki við að fangelsa og myrða þá sem stóðu í vegi fyrir honum. Saklaust fólk var skotið úti á götu og hljóðið úr vélbyssum var algengara en fuglasöngur. Útgöngubann ríkti í kvöldin og fólk var hiklaust skotið fyrir það eitt að vera úti eftir myrkur. Það var því vissara að komast heim áður en útgöngubann tók gildi og stundum var það hægara sagt en gert. Nóg var að missa af strætó til þess að enda á röngum stað í bænum á röngum tíma. Fangelsi fylltust fljótt og íþróttaleikvangur Santiago var notaður sem fangelsi og var hann fljót yfirfullur, þrátt fyrir að fangarnir væru skotnir með reglulegu millibili.
Þessi vinur minn var tíu til þrettán ára þegar þetta allt var að gerast á götunum fyrir utan húsið hans. Og hann segir ekki mikið um ástandið. Ég get alls ekki sett mig í hans spor. Svo ég horfði á myndina 'Missing' með Sissy Spacek og Jack Lemon í aðalhlutverkum. Þar segir af bandarískum rithöfundi sem hvarf í Chile á dögum Pinochet, og af konu hans og föður sem reyndu að komast að því hvað hefði gerst. Þau ráku sig á marga veggi og þá ekki síst á vegg bandaríska sendiráðsins, enda er nú vitað að Bandaríkin studdu ríkisstjórn Pinochet til valda. Og í raun miklu meira en það því þau áttu þátt í því að skapa það ástand sem leiddi til yfirtöku herstjórnarinnar og bandarískir hermenn flugu chileönskum þotum sem vörpuðu sprengjum á Santiago. Og af hverju voru Bandaríkjamenn að skipta sér að málum í Chile? Af sömu ástæðum og þeir skipta sér alltaf af, vegna ótta við vinstri stjórnir og vegna eigin efnahagsmuna. Chile var á þessum árum stjórnað af Salvator Allende sem var Marxisti og leiðtogi sósíalistaflokksins (og Bandaríkin reyndu meira að segja að koma í veg fyrir að hann tæki við stjórn eftir kosningasigur hans). Hann færði Chile til vinstri og byrjaði á því að byggja upp félagskerfi. En það sem reitti væntanlega Bandaríkjamenn mest til reiði var það að hann setti á lög sem bönnuðu erlendum aðiljum að eiga chileanskar náttúruauðlindir. Fyrirrennari hans hafði selt stóran hlut í koparnámum landsins til bandarískra auðjöfra og peningarnir streymdu frá Chile til Bandaríkjanna. Þegar Allende afnam þetta fékk hann valdamesta ríki heims yfir sig. VIð vitum nú að Bandaríkjamenn, undir leiðsögn Nixons og Henry Kissinger (ótrúlegt að Kissinger skuli hafa fengið friðarverðlaun. Þetta sagði hann t.d. um Chile: "the issues are much too important for the Chilean voters to be left to decide for themselves" og"I don't see why we need to stand by and watch a country go Communist due to the irresponsibility of its people."), fjármögnuðu verkföll verkalýðsfélaganna í Chile (og sumir telja að þeim hafi hreinlega verið borgað fyrir það). Landið lamaðist því að miklu leyti og það olli því að herinn átti ekki í erfiðleikum með að taka yfir stjórn landsins.
Ég hef margoft lesið um ástandið í einræðislöndum, séð um það myndir, heyrt sögur. En maður tekur það einhvern veginn nær sér þegar maður þekkir einhvern sem lifði þessar aðstæður. Á árunum 1973 til 1976 varð hann að passa sig á því að fá mat að borða og að vera ekki drepinn úti á götu en ég hafði áhyggjur af því hvað ég fengi í jólagjöf. Mikið hef ég í raun lifað vernduðu lífi.
Athugasemdir
Kæra Kristín.
Þótt ég hafi oft áður lesið um skepnuskap Pinochets, einkavinar frú Tatchers, þá var þetta mjög grípandi lesning. Það er skelfilegt að vita til, að vinir okkar í USA skuli hafa önnur eins monster við stjórnvölinn sem raun ber vitni.
Vonandi fær Obama einhverju breytt til betri vegar, en það er alls ekki víst, því að það eru margir haukar innan Demókrataflokksins, því miður.
Hafðu það ávallt sem best, Kristín mín.
Kærar kveðjur frá Karlskrónu, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 14.5.2009 kl. 07:55
Takk fyrir thennan pistil, eg held ad madur gleymi thvi adeins of oft hvad madur er heppinn...og hvad thad eru margir sem lida, vida um heiminn, vegna ognarstjorna af ymsum tagi! En eg nadi ekki alveg tengslum vid supuna? Var bara supa i matinn a thessum arum...eda?
Rut (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 13:05
Takk fyrir komuna Kristján og Rut.
Rut, já, það var næstum alltaf súpa í matinn. Ég held að hann tengi súpu þess vegna við þessi ár skorts og ógnarstjórnar.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.5.2009 kl. 13:55
Athygliverð lesning hjá þér Stína og satt sem þú segir að það er með ólíkindum að Kissinger hafi fengið friðarverðlaun Nóbels...
Hins vegar átta ég mig ekki á andstyggð mannsins á súpu, þrátt fyrir allt.
Sigurjón, 14.5.2009 kl. 14:20
Sigurjón, ýmindaðu þér að þú fengir hafragraut í öll mál í þrjú ár og á sama tíma væri verið að drepa fólk fyrir utan húsið hjá þér. Líkur eru á að þig langaði aldrei að borða hafragraut aftur.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.5.2009 kl. 17:07
Það er gott að fara í Pollíönnuleikinn á þessum tímum.
Kærar kveðjur til Van! Það er að verða heilt ár núna í maí síðan við hittumst í frábæru borginni þinni.
AuðurA (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 20:11
Já við höfum það sko gott, flest okkar hér. Samt ekki allir því miður. Þessi pistill er holl lesning fyrir alla.
Marinó Már Marinósson, 14.5.2009 kl. 21:55
Þú átt sumsé við að hann hafi étið súpu í þrjú ár meðan skotunum rigndi yfir nágrennið? Þá skil ég þetta betur...
Sigurjón, 15.5.2009 kl. 02:45
Svo ætla ég að skamma þig fyrir að hafa skrifað ,,Ýmindaðu"...
Sigurjón, 15.5.2009 kl. 02:46
Ímyndaðu. Og ég sem gerði aldrei nokkurn tímann stafsetningarvillur hér áður fyrr. Ætli lesminnið versni ekki þegar maður lesur ekki lengur á íslensku nema af og til.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.5.2009 kl. 05:07
Takk fyrir þetta Kristín. Ég hef litla sem enga þekkingu á málefnum Chile. Las þó bókina Löndin í suðri eftir Jón Orm Halldórsson. Þegar maður les hana verður maður frekar reiður yfir óréttlætinu í heiminum.
Róbert Badí Baldursson, 15.5.2009 kl. 12:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.