Sigurinn hvorki pólitíkur né landafræðilegur

Eurovision keppnin er þekkt fyrir það að skipast í blokkir og margoft hefur heyrst kveinað í vesturhluta Evrópu vegna þess hversu vel austurblokkin stendur saman. Og þótt sumir kalli það væl þá þarf ekki nema að skoða hvernig þjóðirnar gefa atkvæði til að sjá að það er mikið til í þessu. Það gleymist hins vegar oft að vesturblokkin stendur saman líka og þá kannski sérstaklega Skandinavíublokkin og wanna-be-skandinavía líka, sem eru Eystrasaltslöndin. Við fengum tíu og tólf stig frá Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku og átta stig frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Ef ég man rétt þá fengu Norðmenn einnig að minnsta kosti átta stig frá öllum þessum þjóðum ef ekki tíu og tólf frá þeim öllum. Af hinum fimm löndunum sem ég tel til Norðvestur Evrópu, Bretlands, Írlands, Hollands, Belgíu og Þýskalands var það aðeins Belgía sem gaf okkur ekki stig, — hin löndin gáfu okkur á bilinu sjö til tólf stig.

Það sem sýndi mér kannski skýrast í gær hversu pólitísk tengsl, svo og landafræði, skipta í raun miklu máli var það að John, gestgjafi partýsins sem ég fór í, sagði fyrir um stigagjöfina með ótrúlegri nákvæmni. Hann sat í sínum stól og þegar kom að hverju landi að gefa stig sagði John: X fær 12 stig, Y fær 10 stig. Stundum víxlaðist það, og stundum gat hann bara sagt hver fengi 12 stig en hann hafði ótrúlega oft rétt fyrir sér. Og þegar við spurðum hann hvernig hann vissi þetta sagði hann: Þeir gefa þeim alltaf 12 stig. Eða, Sór hluti X fluttist til Z; Það er ótrúlegur fjöldi innflytjenda frá X sem býr í Z, eða: Það er náið pólitískt samband á milli X og Z. 

Stundum hefur þetta með smekk að gera. Skandinavar hafa líkan smekk — við höfum okkar Skandipopp. Löndin niðri við Svarta haf hafa sama smekk, sem við oft fussum yfir. Fyrrum sovétlönd virðast hrifin af sömu tegund af tónlist, o.s.frv.

En vegna alls þessa er sigur Norðmanna jafnvel stærri, því þeir brutu niður allar blokkir — þeir fengu stig frá hér um bil öllum löndum og þeir fengu tólf stiga frá miklu fleiri löndum en þeim sem teljast til vesturblokkarinnar. Þeir unnu á eigin verðleikum og það finnst mér kannski stórkostlegast. Ég veit reyndar ekki hvernig þeir náðu að brjóta múrana því lagið er ágætt en ekkert sérstakt. En mér finnst mestu skipta að enginn getur sakað Norðmenn um að hafa unnið á pólitískum forsendum. 


mbl.is Söng „gamla“ þjóðsönginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég held að sigurinn sé heilmikið flytjandanum sjálfum að þakka...hann virðist hafa þennan óútskýrða x- faktor,,, ég féll allavega

Sigrún Jónsdóttir, 17.5.2009 kl. 18:19

2 identicon

Er skýringin sú að ákveðnar þjóðir 'standi saman' eða getur verið að tónlistarsmekkur Austur-Evrópu þjóða sé aðeins annar en t.d. smekkur Norðurlandabúa?

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 19:34

3 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Alexander a skilin sigurinn, en hann er Russi, fluttist med russneneskum foreldrum sinum til Noregs tegar hann var 4 ara. Tad getur lika verid skyringin a godu gengi i austurevropu

Ásta Kristín Norrman, 17.5.2009 kl. 21:00

4 identicon

Norski flytjandinn er fæddur í Hvíta Rússlandi... alinn upp í Noregi.. kannski þess vegna fékk hann mörg og há stig frá Austur-Evrópu.  Það mætti segja að hann sé sameiningartákn vestur og austurs.  Lagið var grípandi.

Rakel Kristinsdóttir (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 21:01

5 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Ég held að þessi "pólitík" sé stórlega ofmetin.  Hins vegar held ég að smekkur, menningarhefð og það hvort þjóðir t.d. þekkja flytjanda annarra þjóða hafi mikið um þetta að segja. 

Ég þekki engan Íslending sem telur sig knúinn til að greiði Norðurlandaþjóð atkvæði í Eurovision.  Hins vegar finnst mér flestir Íslendingar líklegri til að leggja frekar við hlustir þegar lönd Norðurlandaþjóðanna eru flutt heldur en til dæmi Króatíu, Rúmeníu eða Azerbajan.  Þess vegna eru þeir líklegri til að muna eftir þeim þegar kemur að kosningunni og þar með líklegri til að kjósa þau.  Að sama skapi heyrir maður svolítið að "þessi Austur-Evrópulög eru öll eins" því þeirra taktur, hljóðfæraskipan og fleira hljómar ekki jafn kunnuglega í okkar eyrum.  Á móti kemur að hún hljómar hugsanlega mun kunnuglegar í þeirra eyrum en okkar tónlist.

Oft eru helstu stjörnur viðkomandi landa að taka þátt fyrir þeirra hönd eins og hjá okkur.  Þetta er oft tónlistarfólk sem er mjög vinsælt í löndunum í kringum viðkomandi land.  Ef Færeyjar væru þátttakendur og Eyvör eða Jógvan tækju þátt fyrir þeirra hönd er alveg klárt að Íslendingar legðu frekar við hlustir heldur en með lög þar sem þeir þekkja ekkert til flytjandans.

Ég held því að þessi umræða um "pólitík" eigi ekki rök að styðjast svo neinu nemi.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 17.5.2009 kl. 21:08

6 identicon

Greiningin á blokkamyndun er vafalaust alveg hárrétt hjá Sigurði Viktori Úlfarssyni hér að ofan. Menningararfurinn og sameiginlegar hefðir hafa meira að segja um þetta en nokkuð annað sem hægt er að tína til. Næst þar á eftir koma fólksflutningar frá A til B, eins og til dæmis mikill fjöldi Tyrkja í Þýskalandi o.s.frv.

sleggjudómarinn (IP-tala skráð) 17.5.2009 kl. 22:04

7 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Þetta er rétt hjá Evu. Þarna er fyrst og fremst um að ræða mismunandi tónlistarsmekk eftir menningu.

Hilmar Gunnlaugsson, 17.5.2009 kl. 22:31

8 identicon

Smekkur er mismunandi á milli menningarheima og það þarf ekki stærra svæði en Ísland til að sjá mismunandi smekk á tónlist og ýmsa aðra list. Þessi munur er hinn eðlilegasti í viðburðum eins og Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Það sem mér finnst hins vegar yndislegast við þetta er einmitt sú staðreynd að tónlist getur tengt ólíka menningarheima. Alexander Rybak gerði það einmitt með sínu lagi. Og hann fékk ekki stig frá nær öllum löndunum ... hann fékk stig frá öllum löndunum! Lægstu stigin voru 2 stig frá Búlgaríu.

Hvort sem lag hefur verið dæmt út frá dómefnd einungis, áhorfendum/televoting eða bland beggja, þá hefur block voting ávallt verið til staðar. Mér fannst kerfið virka vel í ár og vil sjá það áfram. Alexander vann í undanúrslitunum (þar sem bara televoting fór fram) og einnig í keppninni sjálfri. Og ætli það sé tilviljun að þau fjögur lönd sem lentu efst í undankeppnunum tveimur hafi verið þau sem skipuðu topp fjögur í keppninni?

Sigurinn hjá Alexander er ekki pólitískur né landfræðilegur - það er rétt hjá þér Kristín. Og ég er ekki að gera lítið úr hæfni John til að giska, en ég gat gert svipað sjálfur hjá flestum þjóðunum - þ.e. með efstu stigin (8, 10 og 12) Ég hef líka sagt að það land sem nær mörgum "miðstigum" (5-7) á séns í að vinna keppnina. Block voting er alltaf til staðar en gott lag á það til að brjóta múra. Þessi keppni sýndi það ... 

 Og þó svo að ég hafi alls ekki verið sáttur við sigurlagið í fyrra (Dima söng betra lag árið 2006) þá breytir það því ekki að Rússland fékk stig frá mjög mörgum löndum (Bretland, Ísland, Svíþjóð, Danmörk, San Marino og Sviss voru einu löndin sem ekki gáfu þeim stig)

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 00:59

9 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Mér sýndist lag Noregs hafa yfir sér þennan ævintýralega sígaunablæ - einkum  þegar Alexander dró upp fiðluna. Mín skoðun er sú að þar hafi hann snortið einhvern streng í Austur evrópskum hjörtum.

Hrönn Sigurðardóttir, 18.5.2009 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband