Góður júnídagur
14.6.2009 | 07:23
Ah, góður dagur. Svaf til tíu og naut þess í botn. Reyndar svolítið sár í bakinu fyrir vikið en vel þess virði. Settist niður og greiddi reikninga, borðaði góðan en ekki sérlega hollan morgunverð, dundaði mér um stund og fór svo á ströndina. Lá í sandinum, las og hlustaði á iPodinn minn. Varð að draga mig á fætur korter yfir fjögur því ég þurfti að vera hjá Emmu klukkan fimm og þar sem það tekur tíu til fimmtán mínútur að labba heim af ströndinni, fimmtán mínútur að þvo af sér sandinn og snurfusa sig og aðrar fimmtán að keyra til Emmu þá varð ég að fara. En það er alltaf erfitt að yfirgefa sólina.
Fór í smá stelpnaboð hjá Emmu í tilefni af afmæli Elli, fór þaðan í grillpartý hjá Jason (sem vinnur með mér) og Adrienne (sem spilar fótbolta með mér). Þau búa í blokk á efstu hæð með risastórum svölum. Þau eru þau einu í húsinu með svona svalir. Flott maður. Stoppaði þar bara í rúman klukkutíma því ég þurfti að spila fótbolta í Burnaby klukkan níu. Fór og spilaði, við unnum 7-6 (innanhúss) og fór svo aftur í partýið. Var að koma heim. Og já, klukkan er bara hálf eitt en ég er orðin gömul og þar að auki skemmta Kanadamenn sér ekki fram á morgun eins og Íslendingar. Held reyndar að sumt yngra fólkið hafi ætlað niður í bæ.
Nú ætla ég að fara að sofa því ég ætla í fjallgöngu á morgun með nokkrum vinum og kunningjum. Reyni að muna eftir myndavélinni.
Athugasemdir
Eins gott ad thu varst threytt og thurftir a letihelgi ad halda....! Hjukket!
Rut (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 07:44
Æ, átti þetta að vera letihelgi? Var búin að gleyma því. Kannski mun ég njóta letihelgi einhvern tímann. Kannski í haust þegar kólnar og áður en skíðavertíðin byrjar.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.6.2009 kl. 20:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.