Gengið á Höfðingjann

Eins og ég nefndi í ljónafærslu minni um daginn þá fór ég í fjallgöngu á sunnudaginn var. Við vorum fimm sem fórum saman og leiðin var lögð á höfðingjann svokallaða, eða Stawamus Chief, rétt fyrir sunnan Squamish í Bresku Kólumbíu. Höfðinginn er granít hvelfing og er oft sagður vera næst stærsti granít steindrangur (monolith) í heimi. Squamish fólkið, eða Skwxwú7mesh eins og það kallar sig, lítur á staðinn sem heilagan. 

Það eru þrír toppar á Höfðingjanum vanalega bara kallaðir toppur 1, toppur 2 og toppur 3. Ég hafði áður gengið á toppa 2 og 3 og langaði því á Topp 1 að þessu sinni, sem þó er lægstur og auðveldastur. Úr varð að þrjú okkar, ég, Leif og hinn danski Michael gengum fyrst á topp 2 og þaðan á topp 1 þar sem við hittum Emmu og Christie sem létu sér einn topp nægja. 

Tindur 1, sá lægsti, situr í 610 metra hæð, Tindur 3 er 655 metrar og Tindur 3 er 710 metrar. Þegar gengið er á Tinda 2 og 3 þarf lítið að fara niður á milli því þeir sitja nálægt hver öðrum, en þegar gengið er á Tinda 1 og 2 þarf að lækka sig um sirka 200 metra á milli því þverhnípt gil liggur á milli. Þannig að ef maður gengur á báða þessa tinda er maður í raun að ganga tæplega 900 metra upp á við (eða sirka 800, ég held að upphaf leiðarinnar sé í um 100 metra hæð). Er það ekki svipað og að ganga á Esjuna? Gangan er reyndar styttri en mun brattari því Esjan er aflíðandi fjall en Höfðinginn er klettur sem stendur  nokkurn veginn beint upp í loftið.

Það var ótrúlegt hversu margir voru með hundana sína. Frá pínulitlum ræflum sem hafa varla getað gengið mikið upp á við, og upp í risastóra hunda. Verst var fyrir þessi grey að komast niður, sérstaklega þar sem fólkið notaði keðjur til að halda sér í vegna bratta. Við lentum tvisvar sinnum í hundabjörgun. Í síðara skiptið var um að ræða Dobermantík sem þorði ekki fyrir sitt litla líf að feta sig niður bratta klettana. Við enduðum á því að raða okkur í röð og hálfpartinn handlanga hana niður. Doberman - greinilega ekki gerðir fyrir fjallgöngu.

Þegar við komum til baka fór ég beint í fótbolta. Það var of mikið. Átti erfitt með að ganga næstu tvo dagana á eftir. Betri núna og get ekki beðið eftir næstu gönguferð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband