Verstu fjöldamorð í sögu Kanada

Hér á Vancouver svæðinu er nýbúið að velja í kviðdóm fyrir hið svokallaða Picton réttarhald. Robert Picton er grunaður um að vera versti fjöldamorðingi í sögu Kanada. Hann er nú ákærður fyrir að hafa myrt sex vændiskonur en grunur leikur á að hann hafi drepið margfalt fleiri. Greyið fólkið í kviðdómi. Ekki aðeins þarf það að horfa upp á ógeðslegar myndir af líkunum sem grafin voru upp á svínabæ Pictons heldur getur réttarhaldið tekið allt að ári. Og hvað fær fólkið í laun fyrir að sitja í kviðdómi? Sirka þúsund kall á dag. Margir urðu að biðjast undan setunni á þeirri forsendu að þeir hefðu ekki efni á því að sitja í kviðdómi. Hver getur lifað af þúsund krónum á dag, nema þeir sem þegar eru á götunni.

Hér heldur veðrið áfram að haga sér eins og andskotinn. Eftir allar rigningarnar, nóvembersnjókomu, og spillt vatnsból höfum við nú síðustu daga þurft að þola mikið hvassviðri. Á mánudaginn var veðrið svo slæmt að rafmagn fór af stórum hluta borgarinnar. Þar á meðal hjá mér. Ég var hins vegar í skólanum megnið af deginum og rafmagnið fór ekki þar að þessu sinni. Þegar ég kom heim var rafmagnið aftur komið á. Þúsundir manna voru ekki svo heppnar. Þið veltið því ábyggilega fyrir ykkur af hverju rafmagnið fer alltaf af ef eitthvað er að veðri hér. Það er vegna þess að rafmagnslínur eru allar ofanjarðar eins og var heima í gamla daga. Línur liggja þvers og kruss og í hvert skipti sem hér kemur almennilegur stormur þá fellur slatti tjráa á línurnar og rafmagn fer af á mismunandi stöðum. Væri nú ekki gott að fara að hætti Íslendinga og grafa þetta í jörð.

Nú styttist í að ég fari til Íslands. Flýg til Boston á Sunnudaginn og svo áfram til Keflavíkur á mánudag. Mun að öllum líkindum halda áfram til Akureyrar seinni part þriðjudags. Þetta verður sem sagt heilmikið ferðalag. Ég hlakka til að fara heim en kvíði fyrir ferðinni. Fæ yfirleitt töluverða þotuþreytu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband