Á kaffihúsi
16.12.2006 | 00:02
Ég held ég hafi verið í menntaskóla þegar ég fór fyrst á kaffihús og það var á Kaffitorgið á Akureyri. Bárður Halldórsson, eigandi staðarins var sögukennarinn minn og í lok einnar annarinnar bauð hann öllum bekknum í kaffi á torginu. Kaffihúsaferðum mínum fjölgaði ekki mjög árin þar á eftir enda drakk ég ekki kaffi og hafði ekki enn uppgötvað hvað það er gaman að sitja á kaffihúsi, drekka eitthvað heitt og gott og lesa að skrifa, nú eða spjalla, ef maður er svo heppinn að vera ekki einn.
Eftir að Bláa kannan opnaði á Akureyri hef ég lagt það í vana minn að koma alltaf þar við þegar ég heimsæki heimabæinn og fá mér ýmist heitt kakó eða góðan bolla af latté. Í Winnipeg fórum við Tim stundum á Second Cup sem var í götunni okkar, eða þá á smákaffihús þar beint á móti, sem rekið var af einum fyrrverandi nemanda Tims. Eftir að ég flutti til Vancouver fjölgaði kaffihúsaferðunum stórum enda komin í skóla á nýjan leik og loksins orðin nógu þroskuð til að uppgötva hversu gott það er að læra á kaffihúsi. Stundum þegar ég á erfitt með einbeita mér skelli ég mér á kaffihús og sit þar og skrifa eða les eins lengi og ég get.
Það eru fyrst og fremst þrjú kaffihús sem ég vel á milli hér í hverfinu mínu. Think (Hugsað) er góður staður, mjög vingjarnlegur við háskólanemendur. Eigandinn opnaði staðinn meðal annars með það í huga að skapa gott unhverfi fyrir háskólafólk sem ekki ætti oft mikinn pening og hefði því ekki efni á að versla mjög mikið. Maður getur því auðveldlega komið hingað, keypt sér einn bolla af kaffi og setið svo það sem eftir er dags og dundað við þennan eina bolla. Veggirnir eru skreyttir bókum, fyrst og fremst heimspeki, sálfræði og bókmenntafræði, og skemmtileg málverk eru á þeim veggjum sem ekki eru fullir af bókum. Baðherbergið er málað eins og krítartafla og maður má skrifa á veggina það sem manni sýnist. Þar að auki er hér frí internetþjónusta þannig að maður getur komið hingað með fartölvuna og lært án þess að missa tengslin við háskólabókasafnið og annað sem maður tegnist í gegnum netið. Eini gallinn er að kaffið er ekki mjög gott. Allt of þunnt. Ég þarf eiginlega að panta latté því venjulegt kaffi er hér ódrekkandi.
Mun betra kaffi er á Starbucks. Margir eru á móti þeima f því að þeir eru risakeðja sem hefur opnað kaffihús út um allan heim en ég verð að segja tvennt þeim til málsbóta. Í fyrsta lagi, megnið af norður Ameríku kunni ekki að drekka gott kaffi fyrr en Starbucks opnaði. Gæði baunanna var lágt og kaffið lafþunnt (eins og ærmiga í sólskyni, eins og afi Geir hefði sagt). Eftir að Starbucks opnaði hefur orðið auðveldara með hverju árinu að fá almennilegt kaffi því aðrir hafa brugðist við með því að leggja meiri metnað í kaffið. Ég er búin að vera í Kanada í sjö ár og ég sé mikinn mun á þeim tíma, og þó er orðið nokkuð langt síðan Starbucks opnaði. Hitt sem ég segi Starbucks til málsvarnar er að þeir fara vel með starfsfólk sitt, ólíkt öðrum keðjum eins og Walmart sem hegða sér eins og bavíanar. Ég fer sem sagt nokkuð oft á Starbucks enda fæ ég alltaf gott kaffi (og fyrir jólin bjóða þeir upp á alls konar skemmtilega drykki), andrúmsloftið er yfirleitt mjög gott og af því að staðurinn er nokkuð stór truflast maður ekki við það að nágrannarnir tali ofan í hálfsmálið á manni. Mér finnst því gott að sitja þar og læra.
Þriðji staðurinn heitir Bean around the world (búin að fara í kringum hnöttinn/baun í kringum hnöttinn). Þar er hægt að fá gott kaffi og gott bakkelsi, lítið hverfiskaffihús, en fá sæti og ekki nokkur leið að lesa þar því maður heyrir allt sem aðrir eru að tala um. Þetta er því góður staður til að fara á með vini en ekki til að læra.
Nú sit ég inni á Think og skrifa. Ætla að fara að rölta heim og halda áfram að undirbúa heimferðina.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.