Að vera Íslendingur
30.4.2006 | 05:24
Alveg hreint er það makalaust með okkur Íslendinga að við þurfum allir að vera eins. Allir þurfa að eiga allt það sama, gera það sama...og þótt maður flytji burt af landinu þá virðist það ekkert breytast. Ég þráaðist lengi við með að kaupa farsíma. Fannst engin þörf á að eiga slíkan grip því það hringir hvort eð er enginn í mig. En eftir að ég flutti til Vancouver lenti ég nokkrum sinnum í því að vera ein stödd að kvöldi til á horni Hastings og Main, aðal morðhorni Kanada, og ákvað þá loks að kaupa svona tæki. í staðinn fyrir piparsprey. Og núna, bara búin að opna bloggsíðu. Ég verð reyndar að játa að ástæðan er ekki svo ég geti verið eins og allir hinir. Ég fór að hugsa um það í dag að ég skrifa næstum því aldrei neitt á íslensku. Stundum sendi ég bréf heim, en vanalega hef ég ekki tíma til að skrifa hverjum og einum og sendi því af og til löng og ítarleg bréf um allt milli himins og jarðar, og af því að ég sendi þau líka á enskumælandi vini skrifa ég þessi bréf vanalega á ensku. Þannig að þessi síða er mín tilraun til þess að halda við mínu ástkæra ylhýra. Ef ég fer að drita niður stafsetningarvillum eða málvillum er það bending til mín um að lesa meira á íslensku.
Annars ætti ég að vera farin að sofa. Fyrir um hálftíma (um 10 leytið á laugardagskvöldi) lauk ég við að skrifa abstract sem ég ætla að senda á ráðstefnu í Nejmagen. Ég er ekkert sérlega vongóð um að komast inn en ef ég sendi ekki neitt kemst ég pottþétt ekki inn. Í morgun kláraði ég annan abstract sem ég sendi til Barcelona. Ég virkilega vonast til að komast þangað en það er eins með þá ráðstefnu. Ekki auðvelt að komast inn. Þar að auki væri það dýrt og ég yrði að hósta upp einhverjum peningum! Á morgun ætla ég að fagna því að klára þessa tvo abstracta, og í gær kláraði ég að fara yfir öll prófin í merkingarfæði þannig að vorið er loksins komið. Reyndar virðast veðurguðirnir ekki vita það. Það rignir stanslaust. Ég hef ekki vitað annan eins rigningarvetur. Vonandi fer hann nú að hætta því ég vil fara að njóta vorsins. Sérstaklega af því að sumarfótboltinn byrjar á fimmtudaginn.
En sem sagt. Þetta er fyrsta færsla og ég vona að þið lítið við aftur. Ég lofa að reyna að skrifa eitthvað áhugavert af og til. Svona inn á milli bullsins. Bíðið bara þangað til ég fer að tala um pólitík.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning