Frábær handboltamynd
2.8.2009 | 21:51
Ég fór á kínverska markaðinn í Richmond í gærkvöldi og kom m.a. við á bás sem sendi kínverskar, japanskar og kóreskar bíómyndir. Rak augun í hulstur sem sýndi tvær handboltakonur. Allt letur var á kóresku svo ég spurði afgreiðslumanninn um myndina og hann sagði mér að myndin væri byggð á sannsögulegum atburðum og fjallaði um kóreska kvennalandsliðið í handbolta sem fór á Ólympíuleikana í Aþenu 2004. Ég keypti myndina enda væntanlega eina bíómyndin sem til er um handboltalið, eða ég veit ekki betur.
Myndin er alveg dásamleg. Hún fjallar m.a. um togstreituna á milli yngri og eldri leikmanna. Þær eldri sem flestar tóku þátt í leikunum 1992 (gull) og 1996 (silfur) þóttu orðið of gamlar og bæði yngri leikmenn og þjálfarinn vildu losna við þær. Þar að auki voru þær orðnar giftar konur með börn og ýmis vandamál. En þær voru einfaldlega bestar og ein þeirra, Mi-Sook, með bestu handboltaleikmönnum heims.
Mér þótti mikið til þess koma hversu raunverulegur handboltinn var og hversu lítið var gert af því að klippa á milli nærskota og fjarskota eins og svo oft er gert í íþróttamyndum. Vanalega getur maður séð að viðkomandi leikari eða leikkona er aðeins notaður í nærskotunum. Það var ekki áberandi í þessari mynd og leikurinn var býsna sannfærandi.
Leikurinn um gullið, sem leikinn var gegn miklu stærri dönskum stelpum, var líka æsispennandi enda fór hann í tvær framlengingar og vítakeppni. Það er ekki oft sem maður heldur með asísku liði á móti skandinavísku en það gerði ég á meðan ég horfði á myndina.
Mæli eindregið með henni. Enski titillinn er Forever the moment, sem mér finnst reyndar ekki mjög góður titill. Á kóresku heitir myndin 우리 생애 최고의 순간 sem þýðir víst Bestu stundirnar í lífi okkar.
Það er reyndar athyglisvert að í lok myndarinnar eru sýndar alvöru myndir frá lokaleiknum og kóresku stelpurnar þar eru óneitanlega massaðri en litlu sætu stelpurnar sem leika í myndinni. En það kemur að sjálfsögðu ekki á óvart. Þetta er showbusiness.
Hér eru tvær mismunandi auglýsingar um myndina. Sú fyrri einbeitir sér að gullleiknum:
En hin síðari sýnir meira frá myndinni sjálfri:
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.