Missti af Raul Malo (ansans)
10.8.2009 | 19:09
Á Sunnudaginn ar haldin roots & blues tónleikahátíð að Deer Lake Park í Burnaby, þar sem Björk hélt tónleika í fyrra. Aðalnúmer hátiðarinnar var Smokey Robinson. Utan við hann þekkti ég aðeins eitt nafn, en það var nóg til þess að mig langaði á hátíðina. Hinn sem ég þekkti til var nefnilega Raul Malo, sem áður fyrr var söngvari hljómsveitarinnar The Mavericks.
The Mavericks hófu sinn feril sem kántríhljómsveit og varð nokkuð þekkt sem slík í Bandaríkjunum. Þar spiluðu þeir lög eins og 'What a Crying Shame', 'All you ever do is bring me down' og 'There goes my heart'.
Það var þó ekki fyrr en 1998 með plötunni Tramboline sem þeir náðu almennri hylli og lagið 'Dance the night away' komst m.a. á lista fjölda landa, þar á meðal í tíunda sæti á UK listanum. Ég man að það var mikið spilað á VH1 sem ég horfði heilmikið á þetta árið, og þannig náði lagið líka til Íslands.
(Ekki er hægt að setja lagið inn hér því ekki er boðið upp á það með þessu lagi á YouTube, en hér er hlekkurinn: http://www.youtube.com/watch?v=9w3ku2QArT0
Það undarlega var hins vegar að með frama erlendis hrundu vinsældir hljómsveitarinnar í Bandaríkjunum og þeir gáfu aðeins út eina plötu eftir þetta. Hluti ástæðunnar var sá að útvarpsstöðvar í Bandaríkjunum sneru við þeim baki. Hljómsveitin hafði breytt töluvert um stefnu og tónlistin var ekki lengur hrein kántrí heldur blandin latneskum tónum, eins og heyra má m.a. í 'Dance the night away'. Kántrístöðvarnar spiluðu því ekki lögin þeirra því þeim fannst þeir hafa svikið kántríið, og aðrar stöðvar töldu þá of mikið kántrí.
Hljómsveitin lagði upp laupana og Raul Malo hóf sólóferil.
Mig langaði ógurlega að sjá hann spila en taldi það ekki ganga upp. Hann átti að byrja tuttugu mínútur yfir fjögur en ég var að spila á strandmóti í fótbolta. Ég spilaði með tveim liðum, kvennaliði og blönduðu liði, og ef við kæmumst í úrslit þá myndi ég vera að spila þar til um fjögur leytið. Ég myndi aldrei ná til Burnaby á þeim tíma. Þar að auki átti ég að spila annan leik það kvöldið þannig að þótt ég næði tónleikunum þá þyrfti ég að rjúka til baka og myndi því missa af öllu öðru, þar á meðal Smokey Robinson. Svo ég afskrifaði tónleikana.
Það sem gerðist var hins vegar að hvorugt liðið komst í úrslit og ég var komin heim um hádegið á sunnudeginum. Þar að auki meiddi ég mig á lærvöðva og gat því ekki spilað um kvöldið.
En ég var búin að steingleyma Raul Malo. Af því að ég hafði talið að kæmist ekki þá var þetta horfið úr huga mér.
Það var ekki fyrr en í morgun þegar ég las dóminn um tónleikana, og hversu stórkostlegur Raul Malo var, að ég fattaði að ég hefði getað farið. AAAAAArrrrrrrrggggghhhhhh. Ég trúi ekki að ég hafi klúðrað þessu.
Athugasemdir
Tja.... ekki verður bæði sleppt og haldið.
isss ...... Þetta hafa örugglega verið hundleiðinlegir tónleikar.
Marinó Már Marinósson, 10.8.2009 kl. 19:53
Haha, vel sagt hjá Eyjólfi. En Dance The Night Away með mavericks var spilað svo mikið hérna um árið og er raunar enn á Bylgjunni, að maður fékk bara ofnæmi fyirr því! En engu að síður gott lag, en það er hægt að eyðileggja slík hreinlega með ofspilun.Marinó hefur ekki lesið alla greinina,tónleikarnir ekki neitt slor samkvæmt þessum dómi sem þú last.
Magnús Geir (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 00:18
Vá, skemmtileg frásögn Eyjólfur. Ég þarf greinilega að tékka á þessum David Lindley. Sérstaklega ef hann er eitthvað í líkingu við Eric Lindell.
Magnús, það er rétt, ofspilun getur eyðilagt góð lög.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.8.2009 kl. 05:24
Ó, ég ég held að Marinó hafi bara verið að reyna að láta mér líða betur. Ekki eins slæmt að missa af tónleikunum ef þeir voru leiðinlegir. Takk Marinó, rétt hugsun - því miður las ég þennan jákvæð dóm áður en þú reyndir að hugga mig.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.8.2009 kl. 05:25
Grunaði að þú hafir verið vel undirbúin fyrir tónleikanna enda skipulögð, en það mátti reyna. Á maður ekki að gera gott úr öllu til að líða betur?
ps. jú ég las alla greinina.
Marinó Már Marinósson, 11.8.2009 kl. 12:25
Tek bullið þá bara aftur afsakaðu MMM, mig skorti bara ímyndunaraflið þarna, sem aldrei skildi verið hafa og mér skilst reyndar að sé harla ólíkt mér!
Fín innslög hjá E. þau hugga áreiðanlega ekki síður en góður hugur Marinós.
Magnús Geir Guðmundsson, 11.8.2009 kl. 12:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.