Fyrsti ferðadagur
16.8.2009 | 05:09
Það var svolítið eins og ég ætti ekki að fara í þessa ferð.
- Í gær startaði bíllinn minn ekki og ég varð að fara með hann á verkstæði. Sem betur fer var það bara batteríið - ég fékk nýtt batterí og bíllinn tilbúinn í langferð.
- Ég fann ekki ferðastólinn minn, hleðslutækið fyrir bílinn og eldunarhelluna. Fann að lokum hin fyrstnefndu en ekki helluna. Fékk lánaða hjá Leif frænda mínum.
- Var orðin lasin þegar ég vaknaði. Kvef, ekki svínaflensa (held ég). Ákvað að láta mig hafa það því þetta er eina tækifærið til að komast í burtu næstu vikurnar. Og ég þarf á fríi að halda.
- Hafði gleymt að kaupa sjúkratryggingu fyrir Bandaríkin. Stoppaði á tryggingastofu á leið út úr bænum.
- Gleymdi að taka út bandaríkjadali. Verð alltaf að borga fyrir græna pappírinn á leið inn í Bandaríkin. Kom við í banka og reddaði þessu.
- Þurfti að bíða klukkutíma í bílaröð til að komast að landamærunum. Beið svo annan klukkutíma í röð inni í landamærahúsinu eftir því að fylla út pappírana og borga.
Bandaríkjamegin tók við endalaus keyrsla. Ég var orðin svo sein á ferð vegna allra reddinganna og biðarinnar á landamærunum að ég lenti í umferðateppu í Seattle.
Ég hef aldrei skilið hvers vegna umferðin verður svona þung inn í borgina í eftirmiðdaginn. Vanalega er umferðarrennslið þannig að þunginn er inn í miðborgir á morgnana og út úr þeim í eftirmiðdaginn. Þannig var Winnipeg, þannig er Vancouver. En í Seattle var þunginn meiri inn í borgina klukkan fimm að deginum en út úr borginni. Hreinlega skil þetta ekki.
Þjóðvegir eru dásamleg uppgötvun. Í Bandaríkjunum er hámarkshraði vanalega 70 mílur á þjóðveginum, eða tæplega 120 kílómetrar á klukkustund. Maður keyrir á 80 og er nokkuð öruggur.
Mér finnst líka frábært hvernig afreinarnar eru merktar. Þær eru ekki í venjulegri röð eins og 1, 2, 3 o.s.frv. heldur merkja þær lengdargráðuna. Afrein 75 er þannig 74 mílur frá syðri ríkjamörkum. Þannig getur maður líka talið auðveldlega hversu margar mílur eru þangað til maður þarf að beygja.
Ég stoppaði á hvíldarstað, rest stop, sem er önnur frábær uppgötvun. Af og til má finna útskot af þjóðveginum, þar sem eru klósett og oft boðið upp á kaffi. Maður getur stoppað, tappað af blöðrunni og teygt úr sér. Ég fann bækling með auglýsinum frá mótelum. Ég hafði ákvað að sofa ekki í tjaldi fyrstu nóttina heldur fara á mótel, ef það dygði til að losna við kvefið. Ég hafði upphaflega ætlað að fara niður til Portland eða Vancouver, Washington og gista þar, en ákvað að stoppa frekar í Kelso/Longview og keyra svo niður að strönd Washington megin en ekki í Oregon.
Mótel er önnur uppfinning sem ég fagna mjög. Maður þarf næstum aldrei að panta fyrirfram og þau eru tiltölulega ódýr. Og þótt lítið sé um þjónustu þá fær maður vanalega allt sem maður þarf. Rúm, baðherbergi, sjónvarp og jafnvel internettengingu.
Ég var kominn inn á hótelherbergi um sjöleytið. Kom mér fyrir og ákvað svo að fá mér göngu og kvöldmat. Þar sem ég gekk niður eftir einni af aðalgötunni stoppaði maður á trukk við hliðina á mér og bauð mér far. Ég veit ekki hvert þetta var almenn smábæjarkurteisi eða hvort maðurinn hafði eitthvað óhreint í huga. Ég þakkaði bara fyrir mig en hélt áfram göngunni. Að sjálfsögðu myndi ég aldrei fara upp í bíl hjá ókunnugum manni. En maður reynir alltaf að trúa á hið góða í fólki og líklega var þessi maður bara kureis.
En sem sagt, lítið markvertgerðist á fyrsta degi Oregon ferðarinnar og engar spennandi myndir voru teknar. En það ætti að breytast á morgun þegar ég keyri niður á strönd.
Athugasemdir
Er ekki haegt ad panta mat inn á mótelherbergid? Mótelid er kannski ekki med veitingathjónustu?
Yazy (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 07:04
Yazy (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 07:27
Hahaha.Frábærar myndir af íkornanum.
Og nei, engin veitingaþjónusta, enda ekki einu sinni sjampoo á baðherberginu.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 16.8.2009 kl. 16:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.