Þriðji ferðadagur - Vitar og sjávardýr
18.8.2009 | 03:46
Áður en lengra er haldið langar mig að óska móður minni, Kolbrúnu Geirsdóttur til hamingju með daginn. Hjá mér er afmælisdagurinn hennar enn í fullum gangi og verður í nokkra klukkutíma í viðbót, en hjá ykkur er runninn nýr dagur. En ég hringdi í hana í dag svo það er í lagi þótt þessar kveðjur hér komi of seint.
Eins og ég sagði ykkur í morgun vaknaði ég alltof seint. Klukkan var orðin ellefu þegar ég kom mér af stað.
Ég keyrði fyrst niður að Yaquina Head vitanum sem var stór og fallegur viti, sá hæsti í Oregon og meðal hæstu vita Vesturstrandarinnar. Það var heillöng bið að komast upp í hann og þegar upp var komið var ekki mikið að sjá. Maður mátti aðeins standa í efstu tröppu upp og því var útsýnið takmarkað. En ég sá vitaljósið sjálft og það var býsna flott.
En þótt útsýnið úr vitanum hafi kannski ekki verið biðarinnar virði þá var vel þess virði að koma á svæðið, sjá vitann sjálfan, klettana í kring og sjá hvernig sjórinn skall á. Það var býsna hvasst og sjórinn lét illa.
Ég hafði ekki haft tíma til að borða morgunverð svo ég rótaði í matarbirgðum eftir einhverju snöggu sem ekki þyrfti að elda og fann lítinn pakka af Fruit Loops. Var með mjólk í kæliboxinu svo ég fékk mér almennilegan krakkamat og settist með skálina í litla brekku fyrir utan vitann. Hundur kom að og vildi matinn minn en fékk ekki.
Ég hélt áfram niður ströndina og stoppaði oft á útsýnisstöðum til að skoða útsýnið og taka myndir. Það besta við að ferðast einn er að maður getur stoppað þegar manni sýnist án þess að reita neinn til reiði.
Ég keyrði niður til Newport og heimsótti fyrrum heimkynni Keiko. Þetta er flott sædýrasafn en ég fann ekki háhyrningana. Varð að spyrja starfsmann. Þeir könnuðust ekki við að hafa neina háhyrninga. Ég spurði hvort það væri annað sædýrasafn á Oregonströndinni því ég væri viss um að Keiko hefði verið í sædýrasafni hér. Jáááááá. Keiko. Jú, hann var hér, en svo var honum sleppt. Keiko hafði sem sagt verið eini háhyrningurinn í safninu og eftir að hann fór sína hinstu för til Íslands var háhyrningsbúrinu lokað og fiskabúr sett þar í staðinn. Það var reyndar mjög flott búr þar sem maður gat gengið göng og hákarlar syntu yfir og undir.
Frá Newport keyrði ég niður að sæljónahelli. Það er einn stærsti sjávarhellir í heimi og oft eru þar tugir sæljóna. Í dag voru því miður engin þar en ég sá nokkur fyrir utan.
Dagur var að kveldi kominn og búið að loka næstu stoppistöð. Svo ég ákvað að finna mér annan kofa. Það var nefnilega orðið of kalt og of hvasst til að sofa í tjaldi. Sérlega þar sem kvefið hafði aðeins versnaði í köldum vindi dagsins. En því miður er dýrara að leigja kofa hér niðurfrá þar sem hér eru fleiri ferðamenn. Svo ég fór á mótel í staðinn. Kostaði það sama og ég fæ hlýrra herbergi, rúmföt (er ekki hrifin af svefnpokum) og eigin sturtu og klósett. Já, mér líkar þægindi.
Eftir að ég var búin að koma mér fyrir og elda mér súpu keyrði ég niður að strönd. Ég ætlaði að sitja þar og horfa á sólsetrið en það var svo kalt þegar ég kom niður á strönd að ég tók þrjár myndir og hljóp svo aftur í bílinn. Brrrrrrrrrrrrrr.
Góða nótt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.