Fjórði ferðadagur - fjórhjólaævintýrið mikla
20.8.2009 | 06:19
Ég er svolítið á eftir áætlun fyrst nettengingin klikkaði í gær. Svo ég ætla að segja frá gærdeginum fyrst.
Fyrst á dagskránni var sandævintýrið mikla. Ég leigði mér fjórhjól til að keyra um sandhæðirnar, svo kallaðar sand dunes. Ég hafði aldrei snert á svona tæki áður og vissi í raun ekkert hvernig ætti að stjórna svona skrímsli. Stjórntækin sjálf eru svo sem nógu auðveld. Bensínið í hægra stýri og bremsan í því vinstra. En það er margt annað sem skiptir máli, svo sem hvernig maður notar líkamann. Ég var varkár.
Sandhæðirnar geta verið hættulegar. Maður heldur að maður sé að aka lítinn hól en svo kemur í ljós að aflíðandi brekka er aðeins öðru megin, hinum megin er þverhníft niður. Ekki langt fall reyndar, í mesta lagi einn eða tveir metrar, en ef maður fer fram af slíkum er ljóst að maður kemur ekki heill niður. Ég lenti einu sinni í því að fara næstum fram af og var því mjög varkár í hvert sinn sem ég komst upp á topp.
Einu sinni lenti ég líka í því að keyra of nálægt brúninni sem var aflíðandi, og fjórhjólið fór að hallast meir og meir á hliðina. Ég sá að ég myndi ekki geta rétt það af svo í staðinn sneri ég hjólin og fór beint niður í staðinn. Það dugði.
Og eftir alla þessa varkárni lenti ég í því að fara ekki of hratt upp brekku og sat föst. Það er ekki hægt að bakka á þessum tækjum svo ég varð að bíða eftir einhverjum að hjálpa mér. Að lokum komu gömul hjón að, já, ég sagði gömul hjón. Ég myndi giska á að þau hafi verið komin hátt á sjötugsaldurinn. Sá gamli var á fjórhjóli en sú gamla á dune buggy með grind. Klár kona sú gamla. Gamli hjálpaði mér og ég komst af stað aftur.
Komst heil á húfi til baka. Þetta var svona eins og að fara í rússibana. Hrikalega gaman en ég var alveg skíthrædd á meðan á því stóð. En mikið svakalega var gaman.
Eftir fjórhjólsævintýrið ákvað ég að skoða sandhólana betur á tveim jafnfljótum. Tók gönguferð inn á sandana og lék mér í hólunum. Ef ég hefði getað skipt um föt á eftir hefði ég hent mér í sandinn og rennt mér niður hólana en ég varð að hemja mig.
Frá söndunum keyrði ég að litlum vita og borðaði hádegisverð niðri við sjó. Keyrði síðan eftir suðurströnd Oregon og inn í Californiu. Ef ég hefði ekki áður komið til Californiu hefði ég sennilega orðið hissa á vörðunum sem stoppuð mig og vildu vita hvað ég hefði meðferðist matarkyns. En af því að ég hafði gert þetta áður vissi ég að þeir eru viðkvæmir fyrir innflutningi á ávöxtum. Þeir vilja ekki fá sjúkdóma frá öðrum ríkjum í appelsínurnar sínar og eplin.
Ég fann tjaldstæði og ákvað að sofa loks í tjaldinu sem ég hafði tekið með mér. En fyrst varð ég að fara í bæinn og kaupa mat því ég ákvað að grilla. Fyrst setti ég upp tjaldið og hélt svo í matarferð.
Eftir að ég var búin að velja mér steik, kartöflusalad og maískorn (já, varð að borða þetta feita ameríska korn) og var komin að því að borga fattaði ég að ég gleymdi að kaupa smjör. Maður verður að hafa smjör á maísnum. Konan fyrir aftan mig bauð mér sitt. Hún var með nokkur stykki. Nei, ég sagðist bara ætla að kaupa einn staut (í Kanada er hægt að kaupa 25 gramma stauta bæði staka og í pakka. En því miður áttu þeir ekki staka stauta. Konan fyrir aftan mig opnaði þá einn smjörpakkann sinn, tók út úr honum einn stauk og gaf mér. Bláókunnug kona. Já, þeir mega eiga það Kanarnir að þeir geta verið ákaflega elskulegir.
Grillið var nýtt og ég hafði ekki fattað að maður verður að setja það sama. Á blaði með leiðbeiningum um hvernig á að gera það var listi yfir öll verkfærin sem maður þyrfti. Ég var með skrjúfjárn. En þetta gekk allt og maturinn var góður.
Ég sat og las um stund en fór svo að sofa.
Athugasemdir
Hahaha, þú hefðir átt áð láta þig gossa Sandmey litla en nema hvað að mér finnst nú fólk á sjötugsaldri ekki elli nær en svo, að ég er til dæmis handviss um að þú verður enn á fullu í boltanum þá!
Magnús Geir Guðmundsson, 20.8.2009 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.