Fimmti ferðadagur - Rauðviður og hellisferð
20.8.2009 | 15:55
Ég hélt ég hefði vaknað klukkan hálfníu en þegar ég skreið út úr tjaldinu var klukkan orðin tíu. Ég hef ekki hugmynd um hvernig það gerðist. Hlýt að hafa dottað aðeins aftur.
Konan á næsta tjaldstæði fór að spjalla við mig og bauð mér að lokum í kaffi. Eftir að ég var búin að ganga frá öllu dótinu og drekka kaffi með nágrönnunum (en eitt dæmið um almennilega Bandaríkjamenn - ég hef verið mjög heppin í þessari ferð) var klukkan orðin tólf og ég enn og aftur sein að koma mér af stað.
Ég hafði upphaflega ætlað að fara í ævintýragarð þar sem maður tekur kláf upp í toppa rauðviðartrjánna en þegar nágrannar mínir sögðu mér frá þessum frábæra helli í Suður Oregon. Svo ég ákvað að sleppa ævintýragarðinum. En áður en ég gæti skoðað hellinn varð ég að sjá það sem ég kom til að sjá - stóru rauðviðartréin. Svo ég keyrði hinn fræga Jedidiah Smith hring, labbaði aðeins á milli trjánna og naut þessa að vera lítið peð við hliðina á eldgömlum risatrjám. Á fyrstu myndinni getið þið séð mig standa á milli trjánna - en þið verðið sjálfsagt að píra augun.
Og það var ekki nóg með að ég fengi að skoða stærri tré en ég hef nokkurn tímann séð áður, ég prófaði líka annað sem ég hafði ekki prófað áður. Ég náði mér í svolítinn skammt af Eitruðu Ivy. Það er planta með eitruð blöð. Ja, ekki beinlínis eitruð. Maður fær bara ofnæmisviðbrögð við snertinguna. Ég þurfti að ganga í gegnum svæði með alls konar plöntum og Ivy hefur væntanlega leynst þar á milli. Ég var ekki búin að labba lengi þegar ég fann að ekki var allt með felldu. Mikill kláði og roði í skinninu. Sem betur fer var ég með krem við húðkláða í bílnum og bar á mig um leið og ég gat. Stoppaði svo hjá þjóðgarðsvörðunum og spurði út í þetta. Þeir sendu mig í sund því vatnið myndi skola eitrinu í burtu. Sendu mig í Smith ána. Það var reyndar æðislegt. Vatnið var kalt en sundspretturinn var magnaður. Sjá mynd hér til hliðar.
Frá Smithánni keyrði ég upp þjóðveg 199 og stoppaði til að skoða merkilega plöntu á leiðinni - tillaga eins þjóðgarðsvarðarins. Þetta var ekki hin þekkta Venus trap. Þessi heitir Darlingtonia Californica og þær voru þarna hundruðum saman.
Eftir plöntuferðina keyrði ég aftur inn í Oregon og að Oregon hellinum. Hann var æðislegur. Gönguferðin um hellinn tók 90 mínútur og kostaði minna en 1000 krónur. Þeim peningum var vel varið.
Klukkan var orðin sjö þegar ég kom út úr hellinum og það tók hálftíma að keyra niður fjallið. Ég reyndi að keyra eins langt norður og hægt var en um hálftíu leytið var ég orðin of þreytt til að halda áfram svo ég skellti mér á mótel.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.