Þorláksmessa á Akureyri
23.12.2006 | 17:56
Það er svartamyrkur enda klukkan rúmlega hálf sex á Þorláksmessu. Draumur minn um fallandi snjóflyksur á Þorláksmessu virðist ekki ætla að rætast sem er auðvitað mikið synd en mitt fullkomna Þorláksmessukvöld er að fara niður í miðbæ Akureyrar, labba um, kaupa síðustu jólagjafirnar og setjast svo inn á BLáu könnuna og horfa á snjóinn falla hæglega til jarðar fyrir utan. Þetta verður ekki slíkt kvöld því að í fyrsta lagi er ekki snjókoma og í öðru lagi mun ég örugglega ekki fara niður í bæ því að ég er full af kvefi og vil helst húka inni og undir sæng.
Ég náði mér í einhverja pest á leiðinni til Íslands. Það var nú reyndar meira ævintýrið. Ég flaug frá Vancouver til Boston á sunnudaginn og ákvað að gista eina nótt í Boston. Þá gæti ég 1) skoðað Boston, sem ég hef ekki farið til í 12 ár, 2) skipt ferðinni í tvö hluta og 3) ekki átt á hættu að missa af tengiflugi þótt til seinkunnar kæmi á fyrsta hluta leiðarinnar. Sem sagt, öryggisráðstafanir. Ég kom til Boston seint á sunnudagskvöldi, lenti fyrst á vitlausu hóteli (fleiri en eitt með sama nafni) og fór ekki að sofa fyrr en um tvö leytið um nóttina. Eyddi deginum á eftir í það að labba um miðbæinn, niður á höfn og svoleiðis. Þegar ég var þarna 1994 vorum við aðallega í Harvard á ráðstefnu og síðan á einhverju ráðstefnuhóteli þar sem LSA ráðstefnan var. 'Eg hafði því í raun aldrei séð miðbæinn almennilega. Ég skildi farangurinn minn eftir á hótelinu og fór svo og sótti hann síðdegis og kom mér á flugvöllinn.
Ég tékkaði mig inn um sex leytið fyrir flug sem áætlað var klukkan hálfníu. Nema hvað, konan fyrir aftan mig í röðinni segir mér að það sé búið að fresta fluginu. Nýr tími var tíu mínútur í tólf. Ja, hver fjandinn. Ég tékkaði mig, fór og fékk mér kvöldverð og labbaði svo um flugstöðina þar til ég fékk nóg af því (lítil og leiðinleg). Settist niður og beið eftir brottför. Samkvæmt tölvuskjám voru tvær vélar áætlaðar til Íslands þetta kvöld. Hin fyrri átti að fara einum og hálfum tíma á undan okkur. Allt í einu var búið að fresta henni líka og svo var henni frestað þannig að hún átti að fara á eftir okkur. Líður og bíður og fer að nálgast miðnætti. Ekki enn búið að kalla út í vél. Loks kemur tilkynning og þar var sagt að flug 634 (hin vélin) ætti að fara þarna rétt eftir miðnætti en flugi 630 (okkar vél) væri frestað um 24 klukkutíma!!!!!!! Je minn góður. Síðan sögðu þeir eitthvað um að við ættum að sækja töskurnar okkar á belti númer 1 hjá Northwest og fá miða á hótel. Það var allt of sumt. Ekkert meira sagt. Fólk hópaðist að til að reyna að fá fleiri upplýsingar og við fengum loks að vita að önnur vélin væri biluð og hefði verið biluð frá því deginum áður. Þeir hefðu reynt að gera við hana en ekki tekist í fyrstu tilraun og nú mætti ekki prufa lengur það kvöldið. VIð urðum sem sagt að fara og sækja farangurinn okkar og fara á hótel. Ég var auðvitað með þeim síðustu að fá töskurnar mínar til baka og var í síðasta hópnum að komast á hótel. Við stóðum þarna úti í kuldanum klukkan tvö að nóttu og biðum eftir að verða sótt. Ég fann hvernig ég var að veikjast. Og auðvitað vaknaði ég um miðja nótt við það að ég var komin með hálsbólgu. Um morguninn fór ég í morgunverð en skreið svo upp í rúm aftur og svaf fram að hádegisverði. Svaf svo aftur þar til við urðum að tékka út af hótelinu klukkan fjögur. Fór þá beint á flugvöllinn og beið þar þangað til við komumst loks af stað klukkan átta.
Vorum komin til Íslands um klukkan hálfsjö að morgni, nema hvað, númerinu á fluginu okkar var breytt þannig að við vorum nú 634 en ekki 630. Vélin sem fór um tveimur tímum á eftir okkur var nú 630, sem þýddi að þegar mamma og pabbi athuguðu hvenær ég ætti að lenda var þeim tilkynnt um seinkun á fluginu. Þau voru því ekki á vellinum þegar ég kom heldur varð ég að hringja í þau og biðja þau að koma strax vestureftir. Á meðan ég beið sat ég og borðaði skyr, ópal og drakk íslenskt vatn. Góður morgunverður!!!
Við stoppuðum aðeins um tvo tíma í Reykjavík, og keyrðum svo norður enda var spáð vondu veðri. Það var gott að við fórum ekki degi seinna því þá var orðið erfitt að komast á milli.
Síðan ég kom norður hef ég svo sem ekki gert margt. Hitt bræður mínar og fjölskyldur, farið aðeins í bæinn og sofið og borðað. Hálsbólgan breyttist í hnerra og svo í kvef og með kvefinu kom ógurleg þreyta þannig að ég hef verið hálf vofuleg. En ég vona að þetta fari nú að skána.
Athugasemdir
Láttu þér nú batna kvefið stelpa, ómögulegt að eyða jólafríinu undir sæng. Gaman væri að hitta þig við tækifæri meðan þú ert hérna á norðurslóð! Kveðja, Eydís
Eydís Ingvarsdóttir (IP-tala skráð) 23.12.2006 kl. 19:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.