Merkilegt morðmál á vesturströndinni
24.8.2009 | 07:27
Síðustu dagana hefur merkilegt sakamál verið heilmikið í fréttum hér í Vancouver.
Um miðjan ágúst fannst lík af konu þar sem því hafði verið troðið í ferðatösku og hent í ruslagám í Los Angeles. Búið var að saga alla fingur af konunni og draga úr henni tennurnar. Greinilegt var að hún átti ekki að þekkast.
Morðinginn hafði greinilega ekki vitað að brjóstainnlegg eru öll merkt með raðnúmerum og sú vitneskja leiddi lögregluna í sannleikann um hver konan var. Kom í ljós að hún hét Jasmine Fiore og var sundfatamódel.
Eiginmaður hennar, hinn kanadíski Ryan Jenkins sem hafði flutt frá Calgary to Los Angeles til að taka þátt í raunveruleikasjónvarpsþætti, var fljótt grunaður um morðið en áður en hann var handtekinn flúði hann land. Síðast sást til hans þar sem hann slapp undan lögreglu á hraðbát.
Báturinn fannst síðar í Point Roberts, sem er lítill bær rétt við landamæri Kanada. Margir Íslendingar fluttu á sínum tíma til Point Roberts og svæðið er merkilegt að því leyti að ekki er hægt að komast frá Point Roberts skaganum til annarra staða í Bandaríkjunum án þess að fara fyrst inn í Kanada.
Allar líkur bentu til að Jenkins hefði gengið yfir landamærin og inn í Kanada, en það er sérlega auðvelt á þessum stað.
Öll blöð og allar sjónvarpsstöðvar lýstu eftir Jenkins og var fólk beðið um að láta lögregluna vita ef til hans sæist. Alls konar vísbendingar komu inn en engin virtist benda til hins rétta.
Í dag hringdi starfsmaður á móteli í Hope, hér í Bresku Kólumbíu, í lögregluna eftir að hann fann mann hangandi í einu mótelherberginu. Lögreglan kom strax á staðinn og fingraför sýndu að þetta var Ryan Jenkins. Hann hafði hengt sig.
Enginn mun nokkurn tímann vita hvort hann var morðinginn þótt flóttinn og síðar sjálfsmorðið bendi til þess. Enginn mun heldur vita hvernig hann gat framið þetta morð og síðan þann hræðilega verknað að klippa fingurna af hvern af öðrum og draga tennurnar úr hverja á eftir annarri. Það hlýtur að krefjast einhverrar geðveilu.
Athugasemdir
Úff ! Finnst reyndar alltaf soldið gott að lesa eina hryllingssögu fyrir svefninn. Þessi var skárri en þær sem DV kokkar upp þessa dagana. Þó verra þegar morðinginn finnst ekki og fær ekki makleg málagjöld.
Hvers vegna í ósköpunum skyldi maðurinn hafa haft fyrir öllum þessum hryllingi fyrst hann nennti svo að drepa sjálfan sig á eftir ?
Hildur Helga Sigurðardóttir, 25.8.2009 kl. 02:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.