1. maí

Fyrsti maí var að renna í garð hér vestra og ég gleymdi að syngja Maístjörnuna. Það er kannski allt í lagi af því að allir halda að hún sé um 1. maí hvort eð er. En þeir sem hafa lesið Heimsljós vita auðvitað að ljóðið er um 30. apríl. Þess vegna segir hann: Og í kvöld lýkur vetri sérhvers vinnandi manns og á morgun skín maísól, það er maísólin hans. Annars er ekkert haldið upp á fyrsta maí hér í Kanada. Verkalýðsdagurinn er í september. Þannig að ég mun ein steyta hnefann og syngja nallann.

Þegar ég var barn var fyrsti maí nokkurn veginn í sama klassa og sjómannadagurinn og sautjándi júní. Maður var dressaður upp og fór í bæinn. Það sem er mér þó minnistæðast af öllu er að fyrsta maí fór afi í fínustu jakkafötin sín, setti á sig hatt (kannski gerði hann það bara einu sinni en þannig man ég þetta) og var með rauða merkið í barminum. Það er synd að viðurkenna að ég man ekki lengur hvernig verkalýðsmerkið er. Þegar ég reyni að hugsa um það kemur bara í ljós rauða blómið sem Kanadamenn hengja á sig til að minnast fallinna hermanna. En sem sagt. Afi fór í fínu fötin sín og svo var farið niður í bæ og í kröfugöngu. Því miður nýtur þessi dagur ekki sömu virðingar og áður. Fer nokkur í kröfugöngu lengur? Reyndar man ég eftir því að hafa skellt mér í eina þegar ég var í háskólanum heima. Við fórum nokkur úr íslenskunni og staðsettum okkur í göngunni á milli herstöðvarandstæðinga og femínista. Áður en við vissum af vorum við komin með fána og hljóðfæri og örkuðum niður Laugarveginn með látum. Ég sakna þess. Rétt eins og ég sakna þess að sjá gömlu mennina í sínu fínasta pússi reyna að berjast fyrir betra lífi fyrir sig og börnin sín.

Ég vona að allir fylki í bæinn og berjist fyrir hærri launum og betri aðstæðum. Mér sýnist ekki veita af. Ég verð reið í hvert sinn sem ég les fréttirnar að heiman. Vitiði að þeir eru í alvöru að tala um að einkavæða háskólana. Vita þessir asnar ekki að það er ekkert sem gerir Íslandi að eins farsælu landi eins og vel menntaðir þegnar þess. Og þetta á að taka frá okkur!!! Ok, ég ætla ekki að byrja á þessu. Ég þarf að fara að sofa og vil ekki fá martraðir um íslensku ríkisstjórnina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband