Vertu sæl Doreen

Hér í Bresku Kólumbíu eru töluð yfir tvö hundruð indjánamál og flest eru þau í útrýmingarhættu. Þessi mál falla í nokkrar mismunandi ættgreinar tungumála svo sem Wakashan, Tsimshian, Athabaskan, Tlingit, Kutenaian, Haidan og Salish.

Málvísindadeild UBC er fyrst og fremst þekkt fyrir vinnu nemenda og prófessora með þessi indjánatungumál. Á hverju ári er kenndur áfangi sem kallast 'field methods', nokkurs konar vettvangsáfengi í því hvernig á að vinna með tungumál sem maður talar ekki sjálfur.

Ég tók þennan áfanga fyrir fimm árum og tungumálið sem valið var þá var Gitxsan tunga af Tsimshian ættgrein. Málið er talað í norður hluta Bresku Kólumbíu, beint austur af eyjum Karlottu drottningar (Queen Charlotte Islands). Mest er málið talað í indjánaþorpinu Kispiox svo og bænum Hazelton og meðal sumra í  Smithers og Terrace.

Við fengum til liðs við okkur eldri konu, svo kallaða 'elders' sem er virðingarorð notað um eldri og virðingameiri indjána. Doreen Jensen hét hún, Gitxsan listamaður sem hafði gifst manni af norskum og sænskum ættum.

'Eg var alveg skíthrædd í fyrstu því ég hef ekki gott eyra fyrir smáatriðum í orðum, þótt ég eigi að heita málfræðingur. Þar að auki notar Gitxsan alls konar málfyrirbæri sem ekki þekkjast í íslensku, og af því að háskólagráður mínar frá Íslandi voru í íslensku og íslenskri málfræði, en ekki í málvísindum, þá þótt mér þetta erfitt. En Doreen var svo dásamleg og gerði þetta svo miklu auðveldara fyrir mig að ég fór að hafa gaman af.

Á endanum fór ég tvisvar til Kispiox til að safna frekari heimildum og eftir að Doreen varð of upptekin í listalífinu vann ég með systur hennar Barböru. Skrifaði nokkrar greinar um það hvernig tími er táknaður í Gitxsan.

Í gær hringdi Barbara í mig og sagði mér að Doreen hefði látist deginum áður. Ég hafði heyrt að hún væri veik en vissi ekki að hú væri deyjandi. Með henni hverfur enn einn einstaklingurinn í Kanada sem talar deyjandi tungu. Doreen var yndisleg kona, full af ásrtíðu fyrir listum og sögu þjóðar sinnar. Hún ætlaði að kenna mér að búa til trommu, og síðan að kenna mér að spila á hana. Hún reyndi líka að kenna mér Gitxsan lag, en af því að lögin þeirra eru byggð upp svo ólíkt vestrænni tónlist, átti ég erfitt með að ná almennilegum tökum á laginu. Mér fannst ég enn hafa tíma.

Vertu sæl Doreen. Ég mun aldrei gleyma þér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róbert Badí Baldursson

Takk fyrir að deila þessari sögu með okkur. Hef alltaf borið hlýjan hug til frumbyggja Norður-Ameríku.

Róbert Badí Baldursson, 22.9.2009 kl. 10:37

2 identicon

Ég samhryggist þér Stína, þetta hefur verið sérstök kona. Kannski er þetta líka kennslustund í hvernig maður á ekki að skjóta hlutum á frest, því maður veit aldrei hvenær það verður of seint að koma þeim í verk!

Rut (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband