Á skemmtiferðaskipi
30.9.2009 | 03:36
Ég er búin að vera of upptekin til að skrifa undanfarið en reyni að bæta aðeins úr því í kvöld.
Ég fór í siglingu um daginn. Þegar þið heyrið það hugsið þið líklega um Karabískahafið, eða Miðjarðarhafið, eða jafnvel upp til Alaska. En nei, þetta var ekki slík sigling. Reyndar þannig skip. En ég fór nú reyndar bara frá Seattle til Vancouver sem er ekki nema um hálfs dags sigling.
Á þessum tíma eru skemmtiferðaskipin að breyta um áætlun og því eru nokkrir dagar þar sem þeir færa skipin til. Þá er hægt að fá hundódýra miða til að ferðast með skipunum þessa stuttu vegalengd. Ég borgaði rúmlega tíu þúsund krónur fyrir ferðina og þar var innifalið káeta, öll skemmtiatriði í boði og allur matur. Bara maturinn sem við borðuðum var örugglega virði miðans.
Ég tók rútu niður til Seattle og beið á landamærunum í FIMM OG HÁLFAN TÍMA. Já, ég er ekki að ljúga. Hef aldrei þurft að bíða eins lengi eftir að komast inn í þessa bölvuðu Ameríku (ég er stundum fúl út í Ameríkana af því að þeir halda að allir glæpamenn komist inn í landið í gegnum Kanada, og þess vegna eru þeir stífir á landamærum). Ekki var hægt að kaupa neitt að borða nema súkkulaði í fríhöfninni. Ég hafði borðað klukkan sex um morguninn áður l sen ég fór í rútuna og ég fékk ekki almennilegan mat þar til sex um kvöldið. Sem betur fer náði ég að kaupa þurrkað kjöt (beef jerky) og það hélt mér gangandi, og ég var með góða bók með mér. Svo þetta var ekki svo slæmt. Sérlega þegar við fréttum frá fólki sem var komið um borð í skipið, að skipið myndi bíða eftir okkur, enda 200 farþegar fastir á landamærunum.
Við komum til Seattle á milli fimm og sex um kvöldið og vorum send beint á brunaæfingu. Við vorum nokkur sem skrópuðum á æfingu og fórum í stað í matarleit en það gekk ekkert því ekki var leyfilegt að bera fram mat á meðan á æfingu stóð. Svo garnirnar gauluðu. Við fengum loks smá pizzubita og fljótlega þar á eftir fundum við samferðafélagana. Við vorum alls 20 sem fórum þetta saman. Ég þekkti reyndar bara um sex en aðrir voru vinir Lizu og þeirra vinir.
Svaka stuð var um borð strax frá byrjun. Starfsmenn stóðu fyrir því. Dönsuðu Makarena uppi á dekki á meðan við sigldum burt frá Seattle. Hópurinn ákvað að tvístrast um stund og hittast aftur um átta leytið í leikhúsinu þar sem fram átti að fara nokkurs konar kabarett með söngvum úr bíómyndum. Einn í hópnum okkar hafði unnið í fimm ár sem dansari á þessum skipum og þekkti allt liðið.
Ég notaði tækifærið og fór í heitapottinn (einn af fjölmörgum). Skipti svo um föt og hitti hina í leikhúsinu. Við skemmtum okkur vel yfir sýningunni og fengum svolítið af sérmeðferð vegna dansarans í hópnum. Að sýningu lokinni fórum við á veitingastað og úðuðum í okkur réttunum sem við gátum valið að vild án þess að borga krónu. Ég fékk melónuforrétt, vorrúllu, nautasteik og síðan afmælistertu enda ferðin innan við viku eftir afmælið mitt.
Eftir mat fóru allir á diskóið. Ég fór með entist ekki lengi. Hef aldrei verið mjög gefin fyrir það að dansa. Nokkrir dansar og mér fer að leiðast. Svo ég fór í gönguferð um skipið. Skoðaði aðra staði, hlustaði aðeins á tónlistina í hinum danssölunum. Endaði inni í káetu og horfði á teiknimynd áður en ég sofnaði. Svaf líklega í eina þrjá tíma áður en Kathy, herbergisfélagi minn, vakti mig til þess að fara út og horfa á skipið sigla inn í Vancouver. Það var dásamlegt. Það var enn svarta myrkur þegar við sigldum fram hjá UBC og hverfinu mínu, og enn mjög dimmt þegar við sigldum undir Lions Gate brúna. En svo fór að birta og þegar við komum að bryggju var sólin rétt skriðin yfir sjóndeildarhring.
Ég var komin heim um níu leytið, skreið strax upp í rúm og svaf framyfir hádegið. Góð ferð. Myndi gjarnan fara í aðeins lengri ferð á skipi.
P.S. Daginn sem við sigldum var Alþjóðadagur þess að tala eins og sjóræningi. Það útskýrir sjóræningjann í hópnum.
- Að lokum set ég inn tvær myndir hlið við hlið - sólarlag í Seattle og sólarupprás í Vancouver.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.