Fyrsta kvöld í Hawaii
9.10.2009 | 08:36
Ég verð að hryggja Rut með því að ég tók tölvuna með mér til Hawaii. Verð að vera í sambandi við umheiminn.
Dagurinn í dag var ferðadagur. Fór að heiman um hálf ellefu leytið og flaug til San Fransisco klukkan eitt. Eftir klukkutímabið í San Fran steig ég um borð í vélina til Hawaii og í sex klukkutíma flugum við yfir sjó. Það var svolítið skrítið. Þegar við flugum inn að Honolulu var sólin að setjast og útsýnið var dásamlegt. En það dimmdi fljótt og komið var myrkur þegar vélin koma að hliðinu. Enginn lagði blómasveig um hálsinn á okkur. Kannski er það bara gert í bíómyndum. En hitamolla tók á móti mér þótt komið sé fram í október.
Ég kom á hótelið um átta leytið í kvöld, fór í sturtu og svo út að ganga. Akemi og hinar stelpurnar komu allar með seinna flugi svo ég vissi að það yrði nokkurra klukkutíma bið þar til þær kæmu. Alþjóðlegi markaðurinn er hinum megin við götuna og ég ráfaði þangað óvart. Skoðaði draslið sem verið er að selja, ákvað að kaupa ukulele áður en ég fer heim, borðaði fremur vondan filipískan mat (hélt ég yrði kannski veik) og labbaði svo niður á strönd.
Ég fór í kjörbúð og keypti nóg af vatni og ávaxtasafi svo við höfum eitthvað í ísskápnum. Fór svo heim á hótel þar sem ég sit nú og skrifa. Var að fá sms frá Akemi um að þær stelpur séu lentar svo væntanlega verður hún hér eftir sirka klukkutíma. Hinar fjórar eru á öðru hótel hér rétt við hliðina.
Athugasemdir
Ef þú ferð í hvalaskoðunarferð.... ekki segjast þá vera frá Íslandi.
Systir mín fór í eina slíka þarna og var með bakpoka með íslenska fánanum meðferðis. Leiðsögumaðurinn fór að segja ýkju og bullsögur af hvalveiðum og nefndi Ísland sérstaklega. Systir mín sneri bakpokanum við... með fánan niður
Fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því að Bandaríkjamenn er langmesta hvalveiðiþjóðin með um 1000 hvali veidda á ári.
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.10.2009 kl. 10:11
Takk fyrir að hafa áhyggjur af sálarheill minni. Ég ætla ekkert að kvarta yfir að þú sért að blogga, alltaf gaman að fylgjast með þér, en ég vona að þú farir ekki að eyða tíma í þetta þegar þú átt að vera að njóta lífsins -og í guðanna bænum snertu ekkert vinnutengt þessa dagana! Gaman annars hvað þú varst fljót að gera hótelið að "heim"-ili þínu.
Rut (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 18:52
Wherever I lay my hat... that's my home. Annars er ég nú ekki með hatt með mér - hefði átt að taka með mér hatt. En ég er með sokka...kannski virkar það nóg.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 12.10.2009 kl. 17:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.