Mótmælendur leggjast lágt
1.11.2009 | 06:42
Það var vitað mál að mótmælendur myndu gera sitt til þess að eyðileggja hlaupið með Ólympíukyndilinn, en ég held að engum hafi dottið í hug að þeir myndu leggjast svo lágt að leggja líf dýra í hættu.
Í gærkvöldi söfnuðust um 200 mótmælendur saman á Vancouver eyju til að mótmæla Vetrarólympíuleikunum í Vancouver 2010. Breyta varð hlaupaleiðinni þar sem mótmælendur lokuðu einni götunni sem hlaupa átti um. Áhorfendur sem komið höfðu út til að fylgjast með hlaupinu létu líka í sér heyra og kvörtuðu undan þeim sem reyndu að eyðileggja daginn.
Að það versta sem mótmælendur gerðu var að henda marmarakúlum á götuna þar sem riddaralögreglan sá um að allt væri með felldu. Þetta var gert svo hestar lögreglumannanna hrösuðu. Hestur af þeirri stærð, sem fellur í jörðunni er í stórhættu við að brjóta fótleggi og allir vita hvað gert er við fótbrotna hesta. Þessum hálfvitum var greinilega alveg sama. Þeir bera enga virðingu fyrir öðrum.
Og hvers vegna er verið að mótmæla? Kostnaði við leikana, að sjálfsögðu. Gallinn er að sá að það er allt of seint að mótmæla núna. Það er búið að byggja allt og borga flest. Nú reiðir á að leikarnir fari sem best og að sem mestur peningur komi í kassann svo hægt verð að standa á núlli eða koma út í gróða. Allt sem kemur vondu orði á leikana eykur líkurnar á minni aðsókn, og þar af leiðandi stærri skuld að leikunum loknum.
Ég skil ekki svona fólk. Ef þú ert á móti leikunum, allt í lagi. Það er þinn réttur. En láttu nægja að mótmæla friðsamlega. Ofbeldi leysir engan vanda.
Athugasemdir
Sæl frænka.
Þetta er alveg rétt hjá þér og ég er sammála. Svona fífl á að loka inni í góða stund...
Annars bið ég að heilsa vestur um haf og vonandi hefur þú það náðugt.
Sigurjón, 1.11.2009 kl. 13:31
Ég er talsmaður þess að smátt er fagurt og að bruðli eigi að halda frá í daglegu lífi.
Á hinn bóginn er það mönnum gott að geta gert sér dagamun og Ólympíuleikar eru einn hluti þess.
Þegar þar að auki er búið að leggja í mestallan kostnað vegna komandi leika eru næg önnur verkefni til að mótmæla bruðli og sóun en að standa að aðgerðum sem þessum.
Ómar Ragnarsson, 1.11.2009 kl. 18:09
Rétt hjá Ómari, en þú ert bara ansi hvöss þegar þú brýnir þig, mátt samt ekki berja neinn mótmælakauðan!
Magnús Geir Guðmundsson, 1.11.2009 kl. 23:16
Ég passa mig á að halda mig frá mótmælendum svo ég berji örugglega engan. Þetta er eins og með kartöfluflögur. Eina leiðin til að borða þær ekki er að kaupa þær ekki. Því svoleiðis fæða endist aldrei lengi í skápnum hjá mér.
En hvað snertir mótmælendur þá er ég algjörlega á því að fólk eigi að hafa rétt til að mótmæla. Ég hef sjálf tekið þátt í mótmælum, svo sem gegn vaxtasetningu námslána. En ég er eingöngu hlynnt friðsömum mótmælum sem skaða ekki menn og skepnur.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.11.2009 kl. 00:22
Dauðfegin, fannst þú vera svo reið og til alls líkleg! En þegar ég hugsa málið líka betur, þá hefði auðvitað verið miklu meiri hætta á blóðsúthellingum, ef þú myndir Ssparka í skrílinn frekar en berja og það á fótboltaskónum!
En frá slíku ábyrgðarleysishjali,þá eru kartöfluflögur já stórhættulegar og ekki hvað síst ef þær eru ættaðar úr Þykkvabænum!
Magnús Geir Guðmundsson, 3.11.2009 kl. 00:32
Smá bull í viðbót, háttvirtur síðuhaldari gaf reyndar upp boltan með þetta: (hann samt ekkert í blakinu svo ég viti?!)
Mótmælendur leggjast lágt,
líkar ei það Stínu.
Aumingjar sem eiga bágt,
yðka dýrapínu!
En mikill er annars máttur þinn kona, sé nefnilega að inn á textavarpið íslenska er komið íshokkí og á dagskrá m.a. er leikur Vancouver og NY Rangers kl. 22 að hérlendum tíma!
Magnús Geir Guðmundsson, 3.11.2009 kl. 20:47
Takk fyrir vísuna Maggi. En hvað segirðu, er verið að segja frá hokkíi? Og það mínum mönnum? Frábært. Staðan er annars 1-0 fyrir okkur eftir fyrsta leikhluta. Nú er bara að bæta við og vinna leikinn.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.11.2009 kl. 04:00
Og það gerðu þeir víst sannarlega!
25. Vancouver - NY Rangers 4-1 1 2.00
Haha, til lukku með þetta, en umfjöllunin ekki önnur svo ég viti, deildin bara á íslensku getraunalengjunni, þú hefðir semsagt grætt aðra 100 kanadadollara ef þú hefðir veðjað öðru eins samkvæmt stuðlinum aftast á heimasigri!
Þú átt nú sjálf fjórðungshlut í hnoðinu og áttir sömuleiðis upptökin, svo ekki mikil ástæða til að þakka fyrir "greyið".En semsagt mín kæra, NHL deildin er meira og minna á lengjunni íslensku!(getur séð þetta núna á:
textavarp.is síða 392 eða 393.)
Magnús Geir Guðmundsson, 4.11.2009 kl. 18:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.