Stórkostleg stríðsmynd

Ég horfði á teiknimynd í dag sem fékk mig til að hágráta. Ég held ég hafi ekki grátið yfir teiknimynd síðan ég sá Bamba sem barn. Þótt ég hafi reyndar stundum tárast yfir því hversu barnaefni er oft lélegt.

Þessi mynd er reyndar ekki barnamynd, þótt hún hafi víst verið markaðssett sem slík þegar hún fyrst kom út. Myndin er japönsku og heitir Gröf eldflugnanna. Hún gerist í japönsku borginni Kobe í lok síðari heimstyrjaldar. Aðalpersónurnar eru unglingspilturinn Seita og fjögurra ára systir hans Setsuko, sem missa móður sína í loftárás á byrjun myndarinnar. Faðir þeirra er í hernum og síða kemur í ljós að hann er einnig látinn, svo og flestir í japanska sjóhernum. Seita og Setsuko flytja tímabundið til fjarskyldra ættingja sem þola tilveru þeirra til að byrja með en láta þau fljótt vita að þau séu búin að dvelja hjá þeim nógu lengi. Svo börnin tvö koma sér fyrir í yfirgefnu loftbyrgi þar sem þau borða síðasta matinn sem þau eiga. Þau eiga peninga en í Japan síðari heimstyrjaldar er lítinn mat að fá og engan fyrir peninga. Mat er skammtað af yfirvöldum en án foreldra falla systkinin fyrir utan kerfið og komast því af um stund með því að stela mat frá bændum og úr heimilum fólks á meðan loftárásum stendur.

Seita fer með Setsuko til læknis þegar hún er farin að þjást af vannæringu en læknirinn gerir ekkert til hjálpar svo það eina sem Seita getur gert er að fara aftur heim með systur sína, í moldbyrgið þar sem þau hafast við og þar deyr Setsuko í einu sorglegasta atriði sem ég hef nokkurn tímann séð í mynd. Ég grét ekki bara, ég hágrét. 

Við vitum frá byrjunaratriði myndarinnar að Seita lést á járnbrautastöð, í september 1945, á meðan fólk hryllti sig yfir fátæklingnum og lagði sveig á leið sína framhjá honum. Ein manneskja beygði sig niður og gaf honum mat, en það var of seint. 

Í lok myndarinnar sjáum við þau systkin sitjandi saman, södd og glöð.

Rogert Ebert hefur lýst þessari mynd sem einni af bestu stríðsmyndum allra tíma. Myndin er byggð á sannsögulegri bók Akiyjki Nosaka með sama nafni en hann missti systur sína í lok styrjaldar og kenndi sjálfum sér um alla tíð. Hann skrifaði bókina sem afsökun til systur sinnar. 

Ef þið hafið nokkra leið til þess að sjá þessa mynd skulið þið taka upp vasaklútinn og horfa. Þið verðið ekki svikin. 

Mangamyndirnar japönsku hafa lengi verið vinsælar en flestar eru hasarmyndir með ótrúlegum stríðshetjum. Ég hef yfirleitt ekki gaman af slíkum myndum, en margar myndirnar frá Ghibli stúdíónu, og sérstaklega þær sem koma frá snillingnum Miyasaki eru dásamlegar. Minni þar á óskarsverðlaunamyndin Spirited away, svo og Castle in the sky, Kiki's delivery services, og fleiri. Almennt séð meiri háttar myndir sem standa langt fremri mörgu því sem kemur frá amerísku stúdóunum. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já þú segir, ég er sjálfur að pæla í að líta á þessa mynd sem fyrst, enda tók ég eftir því á imdb að hún er í 185. sæti yfir 250 vinsælustu myndir samkvæmt notendum...

Nánari Upplýsingar um myndina, fyrir þá sem forvitnir eru:

 http://www.imdb.com/title/tt0095327/

http://en.wikipedia.org/wiki/Hotaru_no_haka

Ólafur Arons (IP-tala skráð) 8.11.2009 kl. 14:47

2 Smámynd: Roger Ebert (í þýðingu Hrannars Baldurssonar)

Þarna er ég svo sannarlega sammála þér. Algjört snilldarverk. Hef ekki getað horft á hana nema einu sinni, hún tekur mikið á, en keypti DVD diskinn. Tvisvar. :)

Roger Ebert (í þýðingu Hrannars Baldurssonar), 8.11.2009 kl. 19:06

3 Smámynd: Roger Ebert (í þýðingu Hrannars Baldurssonar)

Athuga að það er Hrannar sem skrifar athugasemdina, ekki Roger.

Roger Ebert (í þýðingu Hrannars Baldurssonar), 8.11.2009 kl. 19:06

4 identicon

Kristín,þú segir að þetta sé  Stórkostleg Stríðsmynd  Mér er spurn hvernig getur mynd verið stórkostleg er fjallar um sorgir og eymd.Eða er ég að misskilja .

Númi (IP-tala skráð) 8.11.2009 kl. 20:53

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Númi, við höfum greinilega ekki sama skilning á orðinu stórkostleg. Sem bíómynd er þetta stórkostlegt verk þrátt fyrir að það lýsi sorgum og eymd. Einfaldlega vegna þess að teknimynd sýnir raunsanna mynd af lífinu eins og það var, og af því að hún virkilega nær til manns. Það þýðir ekki að atburðirnir sem hún lýsir hafi verið stórkostlegir. Þvert á móti. Þetta er eins og með Schindler's list. Mér finnst sú mögnuð þótt að sjálfsögðu sýni hún hrikalega atburði sem aldrei hefðu átt að gerast.

Hrannar, takk fyrir að láta mig vita. Ætlaði einmitt að fara að dást að íslenskukunnáttu Rogers. LOL. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 8.11.2009 kl. 22:45

6 identicon

Oft er gott að gráta, heilbrigt og holt!

Magnús Geir (IP-tala skráð) 9.11.2009 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband