Vetraríþróttir - Skautahlaup á langri braut
11.11.2009 | 23:12

En það verður auðvitað margt annað í gangi og margir fræknir íþróttamenn munu leggja sig alla fram til að láta stóra drauma rætast. Ég er að vona að ég geti fundið tíma af og til til að segja ykkur frá öðrum fræknum íþróttamönnum sem vert er að fylgjast með. Og kynna þannig líka einstakar keppnisgreinar.
Skautahlaup á langri braut - Clara Hughes
Keppni á skautahlaupi hefur þróast í þrjár mismunandi keppnisgreinar, skautahlaup á langri braut, skautahlaup á stuttri braut og maraþon skautahlaup. Allar greinarnar falla undir ISU, Alþjóðlega skautasambandið og á Ólympíuleikum er keppt í tveim þessa greina, skautahlaup á langri braut og á stuttri braut. Þegar aðeins er notað orðið skautahlaup er venjulega verið að vísa til löngu brautarinnar.
Skautahlaup á langri braut er upphaflega gerðin af skautahlaupi og keppt hefur verið í greininni síðan 1892, lengst allra keppnisgreina á vetrarleikum. Þessi íþróttagrein er sérlega vinsæl í Hollandi og í Noregi og þessar þjóðir standa sig jafnan best í greininni auk Kanadabúa, Bandaríkjamanna, Þjóðverja, Ítala, Japana, Kóreubúa, Kínverja og Rússa.
Keppt er á 400 metra löngum egglaga skautahring (á meðan stutti hringurinn er 111 m) og eingöngu er keppt við tíma. Tveir íþróttamenn skauta á sama tíma og verða þeir að skiptast á að skauta innri braut og ytri braut.
Skautarnir sjálfir eru töluvert öðruvísi en þeir skautar sem notaðir eru í hokkí annars vegar og í listdans á skautum hins vegar. Þessir skautar minna á gönguskíði því hællinn er laus og þannig er skautablaðið lengur á ísnum en ella.
Einn af þeim íþróttamönnum sem vert er að fylgjast með á næstu Ólympíuleikum er kanadíska skautakonan Clara Hughes frá Winnipeg. Hún er ein fárra sem hafa unnið til verðlauna á hvort tveggja sumarleikum og vetrarleikum.
Clara Hughes fæddist 1972í Winnipeg og lagði fljótt fyrir sig skautahlaup. Átján ára gömul skipti hún hins vegar yfir í hjólareiðaíþróttina og fór meðal annars á sumarleikana 1996 í Atlanta, þar sem hún vann til tveggja bronsverðlauna og 2000 í Sidney. Hún tók einnig þátt í fjórum Pan American leikum og vann til átta verðlauna. Þá tók hún þátt í þremur Commonwealth leikum og hjólaði fjórum sinnum í Tour de France kvenna.
Á Ólympíuleikunum í Torino, 2006, vann hún sín fyrstu gullverðlaun í 5000 m skautahlaupi og silfur í liðakeppninni. Þar vann hún sín fimmtu Ólympíuverðlaun. Landa hennar, Cindy Klassen, vann hins vegar sex verðlaun á sömu leikum.
Fyrir rúmri vikum var Hughes valin til þess að hlaupa fyrst með Ólympíueldinn á þriggja mánaða ferð hans um Kanada. Og í janúar verða allra augu á þessari frábæru íþróttakonu sem þrátt fyrir 37 árin er enn á toppnum í íþrótt sinni.
Athugasemdir
við fjölskyldan erum á leið til Vancouver til að horfa á Listhlaup á skautum. hlökkum til. er svona on og off búin að fylgjast með skrifum þínum vegna undirbúnings leikanna. takk fyrir góð skrif. hef eina spurningu...eru ekki skautahlaupsbrautir sporöskjulaga?
þóra gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 23:14
Jú, sporöskjulaga er líklega rétt. Hér köllum við þetta 'oval' og í orðabók er það kallað egglaga. Þess vegna notaði ég það orð. 'Eg er orðin svo ryðguð í íslenskum orðum sem ég nota ekki daglega.
Fenguð þið miða á listhlaupið?
Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.11.2009 kl. 18:30
já við erum búin að fá miða í gegn um íslensku ólympíunefndina. dýrt...úff. langar líka að sjá curling og skíðafimi (moguls og aerials) búið að vera draumur lengi hjá mér og nú á að láta verða af því. leigðum íbúð í New westminster..góða skemmtun og haltu áfram skemmtilegu bloggi frá æðislegri borg kveðja þóra
thora gunnarsdottir (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.