Nýji einkennisbúingurinn og tvær íþróttahetjur Kanada
20.12.2009 | 01:56
Það eru fimmtíu og fjórir dagar til Ólympíuleika en ennþá styttra þar til ég verð komin í Ólympíuhlutverk mitt því blaðamannahöllin opnar tólfta janúar. Á miðvikudaginn fékk ég einkennisbúninginn minn - dökkbláar buxur með ljósbláum bol, flísvesti og jakka. Húfan er líka ljósblá. Þetta er fallegasti einkennisbúningur sem starfsmenn Ólympíuleika hafa fengið í mörg ár. Ég sýni ykkur kannski mynd af mér í búningnum þegar ég hef tekið eða látið taka slíka mynd. Þangað til getið þið séð samstarfsfólk mitt í búningnum. (Get annars bent á að strákurinn á myndinni, Charlie, býr með Janice sem vinnur með mér - og já, þau kynntust í gegnum vinnuna).
Það verður ekkert jólapartý hjá okkur í ár því vinnustaðurinn er eiginlega orðinn of stór. Við sprengdum af okkur hátíðasali í fyrra og starfsmönnum hefur fjölgað um 70% í það minnsta. Í staðinn hélt vinnuhljómsveitin (VANROC) stórhljómleika og þangað mætti fjöldi manns - þar á meðal ég. Ég skemmti mér stórkostlega og var ekki komin heim fyrr en um tvö leytið um nóttina, sem væri í lagi um helgi en aðeins erfiðara á fimmtudagskvöldi þegar maður þarf í vinnu daginn eftir. Já, ég þarf á mínum svefni að halda.
Annars hélt djammið áfram í gær því starfshópurinn minn hélt smá jólagleði. Áður en við fórum út að borða fórum við í íþróttasafn Bresku Kólumbíu þar sem hæst bera sýningarnar um Terry Fox og Rick Hansen. Og af því að afrek þeirra voru stórkostleg ætla ég að eyða smá tíma í að segja ykkur frá þeim.
Terry Fox - Marathon of hope
Terry Fox er íþróttahetja Kanadamanna. Ekki af því að hann hafi unnið til svo margra verðlauna heldur vegna þess anda sem hann sýndi. Hann fæddist í Winnipeg 1958 en ólst upp í Vancouver. Um átján ára aldur greindist hann með beinkrabbamein í fæti, svo kallað osteosarcoma, og það varð að taka af honum annan fótlegginn. Á spítalanum sór hann að hlaupa þvert yfir Kanada til að vekja athygli á krabbameini og krabbameinsrannsóknum. Hann setti sér það markmið að safna dollar fyrir hvern Kanadamann, sem þá voru um 24 milljónir. Hann kallaði þetta ævintýri sitt 'maraþon vonarinnar' eða Marathon of Hope' og hann byrjaði að æfa fyrir hlaupið með því að fjórðung úr mílu. Fjórtán mánuðum síðar hafði hann hlaupið 5.085 kílómetra.
Hlaupið hófst 12. apríl 1980 í St. John's á Nýfundnalandi. Hann hljóp í gegnum Atlantshluta Kanada og Quebec og inn í Ontario. Á hverjum degi hljóp hann heilt maraþon, eða um 42 kílómetra. En hann náði aldrei að klára hlaupið því hann neyddist til að hætta fyrsta september 1980 rétt norðaustur af Thunder Bay í Ontario. Hann hafði þá hlaupið í 143 daga, 5.373 kílómetra. Krabbinn hafði breiðst út og var kominn í lungun. Í hægra lunga var æxli á stærð við golfbolta og annað stærra í vinstra lunga, á stærð við sítrónu. Átta dögum síðar stóð CTV sjónvarpsstöðin fyrir söfnun og þann dag söfnuðust 10,5 milljónir Kanadadollara. Í febrúar 1981 höfðu 24,17 milljónir safnast og þar með draumur Terry Fox orðið að veruleika, að safna dollar fyrir hvern lifandi Kanadamann.
Terry Fox lést 28. júní 1981, rétt fyrir tuttugu og þriggja ára afmæli sitt.
Á hverju ári er hlaupið minningarhlaup um Terry Fox og ágóði rennur til krabbameinsrannsókna.
Rick Hansen - Man in motion
Vinur Terry Fox var Rick Hansen, fæddur ári fyrr í Port Alberni, Bresku Kólumbíu.
Fimmtán ára gamall lamaðist hann í bílslysi en hann lét það ekki stoppa sig frá því að stunda íþróttir og útskrifaðist meðal annars frá Háskólanum í Bresk Kólumbíu með próf í íþróttafræðum. Hann keppti í hljólastólakörfubolta og vann gull á Ólympíuleikum fatlaðra 1980 í hjólastólamaraþoni.
Eftir afrek Terry Fox ákvað Rick að ferðast um heiminn og safna fyrir rannsóknum á mænuskaða. Hann lagði af stað á hjólastólnum 21 mars 1985, frá Oakridge verslunarmiðstöðinni í Vancouver. Ferðalagið tók 26 mánuði og hann ferðaðist 40.000 kílómetra í gegnum 34 lönd og fjórar heimsálfur. Hann kom til Vancouver 22. maí 1987 og hafði þá safnað 26 milljónum Kanadadollara.
Rick er nú forseti Rick Hansen stofnunarinnar sem hefur safnað 200 milljónum dollara til rannsókna á mænuskaða.
Og hér koma nýjar upplýsingar sem þið getið ekki enn lesið á síðum eins og Wikipedia. Rick Hansen mun verða annarra borgarstjóra Ólympíuþorpsins í Vancouver í febrúar næstkomandi. Hjá okkur í vinnunni eru allir ákaflega stoltir yfir valinu og heiðrinum sem honum er sýndur með þessu vali.
Athugasemdir
Þú verður flott í nýja búningnum.
Kv / Jenni
Jens Sigurjónsson, 20.12.2009 kl. 07:27
Nei, hetjudáðir sannar eiga ´sér engin landamæri. Lít alltaf hingað annað veifið. Gangi þér vel, er viss um að þú tekur þig vel út, sért falleg í einkennisbúningnum.
Magnús Geir Guðmundsson, 20.12.2009 kl. 19:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.