Skíðaíþróttin á rangri leið?

Ég hætti að æfa skíði á sínum tíma vegna hnémeiðsla. Ég varð ekki fyrir slysi eða neinu svoleiðis, en endalaus pressa á hnén olli skemmdum og ég var farin að finna mikið til á hverri æfingu. Ég var átján ára.

Þessa dagana hef ég lesið mikið um áhyggjur manna yfir nýjum búnaði skíðamanna því hnémeiðsli eru orðin algengari og alvarlegri. Á aðeins einni viku hafa fjórir meðlimir alpagreinaliðs Kanada orðið fyrir alvarlegum hnémeiðslum sem verða til þess að ekkert þeirra mun geta keppt á Ólympíuleikunum eftir tvo mánuði. Þar er með talin Kelly VanDerBeek, sem var talin líklegust Kanadamanna til að vinna til verðlauna í alpagreinum. Í engum þessara tilvika var um alvarlegt fall að ræða, heldur fremur saklausar byltur. Talið er að eitthvað í skíðabúnaðinum sé valdur þess að meiðsli eru orðin svo mikið alvarlegri. Það er auðvitað mjög slæmt ef satt er.

Annars finnst mér skíðaíþróttin hafa farið í ranga átt, sérlega á Íslandi. Þegar ég var heima um daginn rakst ég á fyrrverandi keppinaut minn í skíðaíþróttinni. Dóttir hennar og systurdóttir mín spila saman fótbolta. Hún sagði mér að hún væri guðslifandi fegin að dætur hennar vildu ekki æfa skíði því það væri ómögulegt fyrir venjulegt fólk að greiða fyrir íþróttina, eins og kröfurnar væru orðnar.

Þegar við vörum að keppa á sínum tíma þá átti maður eitt par af skíðum í gegnum alla barnaflokkana. Þegar maður kom upp í unglingaflokk þurfti maður helst að eiga tvö pör, eitt fyrir svig og eitt fyrir stórsvig. Við fórum aldrei til útlanda í æfinga- eða keppnisferðir, ekki einu sinni þegar maður var í unglingalandsliðinu. Á þeim tíma sem ég var í unglingalandsliðinu þá æfðum við einu sinni í Kerlingafjöllum yfir sumar þar sem við vorum á skíðum. Við fórum á tvær hlaupaæfingar, önnur var í Reykjavík og hin á Ísafirði, og við æfðum eina helgi um vetur á Akureyri. Það var allt of sumt á tveim árum.

Núna eru krakkar farnir að fara í æfingaferðir í barnaflokki, svo ég tali nú ekki um unglinga. Þannig var þetta reyndar orðið fyrir nokkrum árum. Veit ekki hvernig það er núna í hallærinu. Þar að auki þurfa krakkar víst að eiga tvö pör til keppni (svig g stórsvig) og svo önnur tvö fyrir æfingar. Þar að auki þurfa þau að eiga bæði sviggalla og stórsvigsgalla. Já, það er ekki ódýrt fyrir foreldra að eiga börn á skíðum.

Annars var ýmislegt á rangri leið líka þegar ég var að æfa, svona undir lokin alla vega. Síðasta árið vorum við með júgóslavneskan þjálfara og hann kom með hugsunarháttinn að heiman upp í brekkurnar, þar sem við áttum öll líf okkar undir því að ná árangri. Hann var því farin að fjölga æfingum og setti meðal annars á aukaæfingar á daginn þegar við áttum öll að vera í skólanum. Það var því þannig að þeir sem skrópuðu í skólann áttu orðið kost á tveim æfingum á dag, á meðan þau sem voru samviskusamari og fóru í skólann komu aðeins á kvöldæfingar. Ég hafði alltaf æft af því að mér fannst gaman á skíðum, en þetta var ekki orðið skemmtilegt lengur og þegar þetta bættist við hnéverkinu þá var ekki of erfitt að hætta. En enn þann dag í dag fæ ég fiðring við það eitt að sjá vel lagða braut. Mig langar enn að skella mér niður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Guðmundur Jakobsson heiti ég og hef verið viðloðandi skíðaíþróttina frá því að ég var 9 ára. Man reyndar eftir því þegar Florian var þjálfari á Akureyri ég hitti hann reglulega á ferðum mínum hann býr í Salt Lake City.
 Tek undir margt sem þú segir hér í þessum pistli. Það er einnig áhyggju efni að sjá og lesa um þau slys sem hafa orðið á þessari skíðavertíð. Stór hluti eru þær græjur sem notaðar eru í dag en einnig er það hvað keppendur ná miklum hraða í brautum í dag. Stór hluti meiðsla er á hnjám og þau koma í stórsvigi og risasvigi . Keppnir í dag hjá þeim bestu fara fram á ís þar sem skapa á aðstæður jafnar fyrir alla.
Skíðaíþróttin þarf að fara í naflaskoðun bæði varðandi öryggi og einnig hvernig við eigum að ná betur til þeirra sem horfa , það er ekkert spennandi að sjá menn og konur detta og vita það ef þau meiðast það er keppnisferillin í hættu.
En við getum tekið þessa umræðu vonandi í Kanada í Febrúar.

með Jólakveðju frá Íslandi

Gummi Kobba

Guðmundur Jakobsson (IP-tala skráð) 22.12.2009 kl. 23:04

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk fyrir póstinn Guðmundur. Pabbi hefur lýst þér fyrir mér svo ég held ég muni hver þú ert. Muntu koma út á Ólympíuleikana? Ertu kannski að þjálfa íslenska liðið? Láttu endilega heyra í þér ef þú kemur. Ég ætla reyndar að reyna að komast á Íslendingastuðið þegar það verður en á miða á bæði skíðakross og hokkí þann dag, svo ég veit ekki ef það gengur upp.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 25.12.2009 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband