Gleðileg jól

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Reyndar er lengt gengið á jóladagana sjálfa heima á Íslandi þegar ég skrifa þetta, enda komið fram á kvöld á jóladegi, en við erum nú vön að líta á jólin sem þrettán daga.

Ég hef tekið jólunum mjög rólega í ár, eins og vanalega þegar ég er ekki á Íslandi. Svaf fram að íslenskum jólum í gær (tíu að morgni að mínum tíma), skreið þá á fætur og spjallaði við mömmu og pabba á Skæpinu. Borðaði góðan mat sem innihélt meðal annars skinkuepli, nokkuð sem ég vil alltaf borða nú á jólum. Fór svo út að ganga með Lizu. Við gengum eftir ströndinni í dásamlegu veðri.

Skaust svo til Rosemary með pakka og stoppaði aðeins í kaffi. Dundaði mér svo heima við að skrifa fréttabréf þar til kominn var tími á kvöldmat.

Mér hafði verið boðið til Aurelíu, samstarfskonu minnar, í kvöldmat. Þar var lítill en góður hópur. Hún og maðurinn hennar, vinkona hennar, svo og einn samstarfsmaður okkar og bróðir hans. Við borðuðum snigla í forrétt enda Aurelía frönsk. Ég spurði hvað kæmi út þegar maður blandaði saman frönskum réttum og áströlskum (maðurinn hennar er ástralskur). Hún var ekki lengi að svara því: Franskur matur. Hún gaf lítið út á þann ástralska.

Ég kom heim um hálftólf leytið, kveikti þá á kertum og tók upp pakkana mína. 

Þetta voru bókajól sem er mjög gott. Bókajól eru alltaf góð. Fékk bæði Arnald og Yrsu, svo og Kristínu Mörju og ævisöguna um hann Vilhjálm frænda minn. Sat og skoðaði myndirnar í bókina fram á nótt. Mér fannst Hinrik breytast rosalega. Á fyrstu myndinni af þeim hjónum er hann allt allt öðru vísi en ég man eftir honum. Og það sem meira er, hann er ekkert líkur afa þar, eins og mér fannst þeir nú rosalega líkir eldri menn. Hlakka til að lesa bókina, en byrjaði nú samt á Arnaldi.

Ég fékk líka fallega flíspeysu og yndislegan kjól (sem ég valdi reyndar sjálf og var í á aðfangadag), súkkulaði og peningabuddu.

Í dag ætla ég til fjarskyldra ættmenna. Þau eru Vestur Íslendingar og halda hefðbundin kanadísk jól, svo það verður kalkúnn í matinn. Fyrst fannst mér það ómerkilegur matur en eftir tíu ár í Kanada er ég orðin vön fuglinum. En hann jafnast auðvitað ekki á við almennilegt svín!

Enn og aftur, óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Almennileg nýárskveðja kemur síðar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gleðileg jól!

Þorsteinn Briem, 25.12.2009 kl. 18:13

2 Smámynd:

Gleðileg jól

, 25.12.2009 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband